Steve Hubback spilar hér á eina af málmgjöllum sínum.
Steve Hubback spilar hér á eina af málmgjöllum sínum. — Morgunblaðið/Eyþór
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Walesverjinn Steve Hubback, slagverksleikari og -smiður, hefur búið hér í eitt og hálft ár, með unnustu sinni Sif Guðmundsdóttur sem er förðunarfræðingur og grafískur hönnuður.

Walesverjinn Steve Hubback, slagverksleikari og -smiður, hefur búið hér í eitt og hálft ár, með unnustu sinni Sif Guðmundsdóttur sem er förðunarfræðingur og grafískur hönnuður. Hann hefur hannað og smíðað slagverksskúlptúra fyrir listamenn á borð við Birgi Baldursson, Evelyn Glennie, Paolo Vinaccia, Marilyn Mazur, Alessio Riccio, Björn Frykland og Paal Nielsen Love. Hubback ber sig nokkuð vel er talið berst að dvöl hans hér á landi, en segist þola íslenska vetrarkuldann illa. "Ég hef varið vetrum í Noregi og Danmörku og ráðið ágætlega við það, en íslenski veturinn er sérstaklega erfiður. Ég held að það sé vindurinn. Ekki myrkrið; ég kann ágætlega við það. En kannski eru þetta bara ellimerki."

Hubback hefur stundað hljóðskúlptúrasmíðar í fimmtán ár; síðan 1990, en áður hafði hann starfað sem slagverksleikari í áratug. "Mig vantaði málmgjöll [e. gong] og það var erfitt að finna hana, þannig að ég ákvað að smíða eina slíka. Það var í raun frekar einfalt mál; ég fann brotajárn, skar það í disk og hengdi það á tré. Útkoman var nokkuð góð, þannig að áhuginn vaknaði.

Mér hafði aldrei dottið þetta í hug, að helga mig slagverkssmíði, enda stundaði ég bara hefðbundinn trommuleik. Smám saman fikraði ég mig áfram og lærði meira og meira í þessari iðn. Eitt leiddi af öðru og ég lærði að logsjóða. Hönnunin þróaðist og batnaði með tímanum og hljóðfærin fóru að taka á sig áhugaverðari mynd," segir Hubback.

Hubback er nú að smíða skúlptúra sem verða til sýnis í galleríi í Guilford í Englandi, um hálftímakeyrslu frá Heathrow-flugvellinum. "Þetta er mjög auðugt hérað, sennilega er dýrast að búa þar af öllum stöðum í Bretlandi. Fólkið þar er ríkt, sem kemur sér vel þegar maður er að reyna að selja listmuni," segir Hubback. Hann segir að þetta sé allt annar heimur, að framfleyta sér á þennan hátt, en að vera óbreyttur tónlistarmaður.

Trommarar eiga sjaldan nokkra peninga," segir hann og hlær.

Hubback hefur þó ekki yfirgefið tónlistarsköpun. Í desember fór hann í tónleikaferð um Þýskaland og Holland. "En það er fínt að þurfa ekki að treysta á tónlistina, sérstaklega þar sem ég bý á Íslandi og kostnaðurinn við að ferðast til Bretlands er mjög hár. Það er líka erfiðara að vinna fyrir sér sem tónlistarmaður erlendis nú en fyrir 15 árum; færri staðir til að leika á og minni vinna í boði."

Hubback er núna að vinna með bresku hljómsveitinni Cipher. "Hún er ein af mjög fáum sveitum sem eru í náðinni hjá listaráðinu í Bretlandi, þannig að hún fékk mikla fjárveitingu fyrir næsta ár. Ætlunin er semsagt að ég smíði sérstakt hljóðfæri fyrir hljómsveitina. Sennilega smíða ég hörpu sem ég sá í draumi fyrir mörgum árum, en hef ekki haft fjárráð til að smíða fyrr en nú," segir hann.

Í næsta mánuði ætlar hann til heimalands síns, Wales, til að setja upp verk í Coed Hills-skúlptúragarðinum. "Staðarhaldarar þar eru mjög hrifnir af umhverfisvernd og sjálfbærri orku. Þar ætla ég að byggja stóra málmgjöll fyrir Cipher. Þetta verður fest á kvikmynd sem verður varpað á vegg á hlýjum sumarkvöldum við varðeld. Theo Travis er saxófónleikari Cipher og Dave Sturt bassaleikari. Þeir notast mikið við lykkjur og tónlistin þeirra er nánast eins og nútíma klassísk tónlist; mínimalísk og umlykjandi. Það verður gaman að vinna með þeim," segir Steve Hubback.

ivarpall@mbl.is