Margrét Sverrisdóttir
Margrét Sverrisdóttir
Margrét Sverrisdóttir fjallar um fiskveiðistjórnun: "Að mínu mati hafa hagsmunatengsl einmitt ráðið mestu um þróun fiskveiðistjórnar hér á landi síðustu 20 árin..."

MORGUNBLAÐIÐ 21. apríl 2005 um bráðabirgðaniðurstöður togararalls Hafró:

"Árgangur þorsksins frá síðasta ári er mjög lélegur, árgangurinn 2003 er frekar lélegur og 2001 árgangurinn mjög lélegur. Árgangurinn frá 2002 er hins vegar nærri meðallagi. Stofnvísitala þorsks er nú 16% minni en í stofnmælingu á síðasta ári. "

Svona hefur árangur kvótakerfisins verið ár eftir ár. Alltaf er því lofað að árangurinn skili sér á næstu árum, en hann lætur sannarlega á sér standa. Núna reyna þeir á Hafró að skýla sér á bakvið þá afsökun að fiskveiðistjórnarkerfi búi ekki til fisk og þykir mér nú hljóðið hafa breyst á þeim bænum því það var í eina tíð óumdeilt að kvótakerfinu væri ætlað að vernda fiskistofnana - með ofangreindum árangri.

Hver voru viðbrögð sjávarútvegsráðherra Íslands við ótíðindunum? Þau liggja fyrir, því fyrir nokkrum dögum ruslaði hann upp níu manna "ráðgjafarnefnd Hafrannsóknastofnunar" og ekki virðist líklegt að einn einasti íslenskur sjómaður fái að koma að því nefndarstarfi þó að þar sé einn fræðingur frá Darmouth og annar fræðingur frá Danmörku.

Þjóðarauðlind

Afleiðingar þeirrar fiskveiðióstjórnar sem við búum við eru þær að það hefur verið vegið harkalega að landsbyggðinni með því að höggva á lífæðar bæja og þorpa; lífæðar sem fyrir örfáum árum lágu út í sjó. Aðgangur að undirstöðu atvinnugreininni er ekki lengur fyrir hendi. Fólk verður óöruggt um lífsafkomu sína vegna þess að þeir sem eiga kvótann geta farið burt með hann í skyndi, ef þeir eru þá ekki þegar farnir. Er það ekki öfugsnúið að atvinnuástandið í Vestmannaeyjum skuli vera svo bágt sem raun ber vitni? Yngstu kynslóðirnar muna því miður ekki að á árum áður var varla til blómlegri útgerðarbær en Vestmannaeyjar, vegna þess að þá naut hann nálægðarinnar við gjöful fiskimið. Látum við það gleymast? Ætlar þjóðin ekki að gera tilkall til eigin auðlindar?

Hagsmunir fárra ráða för

Stjórnvöld láta allar mótbárur sem vind um eyru þjóta. Það er ekki einu sinni reynt að koma til móts við þær réttmætu efasemdir sem ítrekað hafa komið fram varðandi kvótasetningu á skötusel, löngu og keilu. Undirlægjuhátturinn gagnvart hagsmunum stórútgerðarinnar er algjör og stefna stjórnvalda hefur verið sú að frekar megi þorskurinn drepast í sjónum, engum til gagns, en að auka veiðina og sjá hvort þróunin verður önnur.

Ef við lítum til vinaþjóðar okkar, Færeyja, þá er ólíku saman að jafna; annars vegar hinni íslensku fiskveiðióstjórn sem er að eyða byggð og færeyskri fiskveiðistjórn hins vegar. Þar er mikill kraftur í atvinnulífi bæja og þorpa með þeim brag sem við Íslendingar þekktum svo vel hér áður.

Frjálslyndi flokkurinn berst einn

Mig langar til að gera orð forstjóra Hafrannsóknastofnunar, Jóhanns Sigurjónssonar að mínum: "Grundvallaratriði er hins vegar að umfjöllunin sé reist á sem áreiðanlegustum upplýsingum á hverjum tíma, án þess að hagsmunatengsl (leturbreyting mín) eða persónulegar skoðanir ráði för."

Að mínu mati hafa hagsmunatengsl einmitt ráðið mestu um þróun fiskveiðistjórnar hér á landi síðustu 20 árin og því þarf íslenska þjóðin að breyta. Enginn stjórnmálaflokkur nema Frjálslyndi flokkurinn heldur uppi baráttunni gegn óréttlæti kvótakerfisins. Fyrrverandi þingmaður Frjálslynda flokksins umhverfðist að vísu nýverið og sagði að það þýddi ekki að breyta kerfinu, það væri orðið fast í sessi. Þetta var líka sagt áður en Sovétríkin féllu.

Það er engin eftirsjá í eiginhagsmunapoturum sem gefast upp í baráttunni við kvótakerfið, því þeir nýtast hvort eð er ekkert í baráttunni fyrir réttlætinu. Við sem eftir stöndum skulum hins vegar láta mótbyrinn verða meðbyr réttlætisins.

Höfundur er framkvæmdastjóri Frjálslynda flokksins.