Jónína Benediktsdóttir
Jónína Benediktsdóttir
Jónína Benediktsdóttir fjallar um ferð forseta Íslands til Kína: "Þarf að taka þátt í aldagömlum helsjúkum viðskiptahefðum Kínverja til þess að ná áfram samningum með klíkugangi stjórnmálamanna við viðskiptablokkir?"

GAPANDI sat skuldsettur íslenskur pupillinn og horfði á "Sirkusinn" í Kína.

Þjóðsöngurinn var hervæddur með fallbyssuskotum forsetanum til heiðurs og græðgisvæðing íslenskra fyrirtækja, sem nýta vilja sér ódýrt vinnuafl annarra ríkja, undirritað af sjálfum forseta Íslands. Honum við hlið voru eigendur og stjórnendur bankanna og þjónar þeirra sem og fjölmiðlamenn sem þyrsti í myndir af okkar fallegu forsetafrú. Morgunblaðið hafði að þessu sinni ekki ráð á að senda með sérstakan ljósmyndara. (Þetta er nú öll gróskan í viðskiptalífi þjóðarinnar.)

Viðskiptaferðin var kynnt sem plöggferð forsetans við ráðamenn Kína en hann sinnir nú nýjum áhugamálum sínum, viðskiptum. Hann leggur ekki í að stunda þau sjálfur og þiggur því laun frá ríkinu til þess. Hvað vakir fyrir forsetanum skal ósagt látið því ekki hagnast almenningur á þessu.

Bankar í útrás

Lánstraust hf. keypti Fjölmiðlavaktina hf. í fyrra og á í dag eins fyrirtæki í yfir 20 löndum. Lánstraust selur upplýsingar um skuldir og eignir almennings. Engin samkeppni er á Íslandi.

Fjölmiðlavaktin hf. er eina fyrirtækið hér á landi sem selur upplýsingar frá öllum fjölmiðlum sem og þýðingar til erlendra aðila, viðskiptatengdar, menningarlegar og sagnfræðilegar? Engin samkeppni er á Íslandi.

Lánstraust hf. og þá líka Fjölmiðlavaktin eru í eigu móðurfélagsins Creditinfo Group hf. sem haslar sér völl út um allan heim.

Vissi forsetinn það?

Græðgin endalausa

Creditinfo Group hf. er alfarið í eigu Kaupþings, Landsbanka Íslands, VÍS, SPRON, Lýsingar, Sparisjóðs vélstjóra, Sparisjóðs Hafnarfjarðar, Sparisjóðs Kópavogs, Sparisjóðs Keflavíkur og Sparisjóðs Mýrasýslu auk starfsmanna.

Árið 1999 keypti Lánstraust hf. vefinn "Réttarríkið" og eignaðist ári síðar allan rekstur á innheimtukerfi lögmanna.

Samkvæmt heimasíðu félagsins "voru þau kaup gerð til þess að bæta þjónustu við lögmenn og aðra sem að fást við innheimtu". Árið 2002 stofnaði Lánstraust hf. dótturfyrirtæki á Möltu, Lanstraust Malta Ltd.

Lánstraust hf. hefur nú einnig keypt meirihluta hlutafjár í Alpha Mi S. S, en það er eitt helsta upplýsingafyrirtækið í Grikklandi. Merkilegast var svo þegar félagið keypti Mecos Ltd. á Kýpur sem var í eigu fyrrverandi forseta Kýpur, George Vassiliou, en hann er enn stjórnarformaður í félaginu!

Einnig hefur fjölbankagrúppan íslenska gert samning við félag í eigu allra helstu banka í Kasakstan um að Creditinfo leggi félaginu til hugbúnað, þjálfun og ráðgjöf. Kasakstanska þjóðin stendur á öndinni af hrifningi. Nú skulu skuldir hinna fátæku skrásettar og upplýsingarnar seldar.

Klíkur í Kína

Í nafni hverra var forsetinn þarna? Erum við ekki með sérstakt fólk í utanríkisráðuneytinu sem starfar við erlend viðskiptatengsl? Þarf að taka þátt í aldagömlum helsjúkum viðskiptahefðum Kínverja til þess að ná áfram samningum með klíkugangi stjórnmálamanna við viðskiptablokkir? Nóg er af þessum klíkum hér heima og óþarfi að leita til útlanda eftir slíku. Mynd með Halldóri Ásgrímssyni eða Davíð Oddssyni dugar hér. En það vill Ólafur Ragnar Grímsson ekki líða.

Getum við sem greind, vel menntuð og þroskuð þjóð ekki hætt að halla okkur að bandalögum hervæddra ríkja, hvort heldur sem það er Kína eða Bandaríkin? Getum við ekki verið öðruvísi þjóð? Getum við ekki kosið forseta sem trúir á mátt og megin fólksins í því landi sem hann var kjörinn til þess að þjóna? Forseta sem ekki er í stríði við ríkisstjórn landsins og almannahag? Getum við t.d. hætt að misnota ódýrt vinnuafl annarra þjóða og búið til hagkerfi sem miðað er við lágmarks mannréttindi og jöfnuð?

Fjölmiðlavaktin í eigu bankanna setti á fót einn mesta "sirkus" Íslandssögunnar með aðstoð forsetans. En auðvitað er alltaf gaman að koma til Kína. Málið snýst ekkert um það.

Kínversk móðurfélög

Finnst þér ekki merkilegt, herra forseti, hvernig fyrirtæki breytast úr mæðrum í dætur eftir því hvar hagstæðast er að skrá þau? Þarf ekki að athuga það áður en þú hvetur til innrásar í Kína hvort skráning móðurfélaga í Kína sé slæm fyrir íslenskan almenning? Hvort Lánstraust hf. og Fjölmiðlavaktin hf., sem eru alfarið í eigu íslensku bankanna, verði án fyrirvara og án allrar fjölmiðlaumfjöllunar skráð hér á Íslandi sem fósturvísar Creditinfo Group hf. sem yrði þá að öllum líkindum dótturfélag Kína Group hf.?

Voru það ef til vill loforð íslenskra viðskiptajöfra um kínversk móðurfélög sem opnuðu augu kínverskra ráðamanna á mikilvægi íslensku útrásarinnar? Voru fallbyssuskotin og rauði dregillinn tákn frelsis og lýðræðis, jafnaðar og mannréttinda eða ýlfur þeirra sem verða fátækari og fátækari í stríði viðskiptablokka um meiri arð eins og við sjáum út um allan heim? Hnattvæðingin hefur skapað ójöfnuð sem aldrei fyrr og samlegðarárhrifin og krafan um arðsemi sundrað fólki og byggt nýja Kínamúra.

Það er gott að aðstoða kínversku þjóðina í að bæta kjör almennings og að koma á lýðræði en það er líka mikilvægt að koma á lýðræði heima fyrir. Guði sé lof fyrir Dorritt! Hún sagði það sem máli skipti: að á Íslandi þyrfti enginn að vera fátækur.

Er enn eina ferðina öllu fórnað í stríðinu við ríkisstjórn Íslands, herra forseti? Það er hrútalykt af þessu stríði.

Höfundur er framkvæmdastjóri FIA.