Jan Edberg, framkvæmdastjóri Barsebäck, fyrir framan skjá sem sýnir starfsmann í stjórnklefa kjarnorkuversins þar sem slökkt var á því.
Jan Edberg, framkvæmdastjóri Barsebäck, fyrir framan skjá sem sýnir starfsmann í stjórnklefa kjarnorkuversins þar sem slökkt var á því. — AP
Slökkt var á kjarnakljúfi númer tvö í Barsebäck-kjarnorkuverinu í suðurhluta Svíþjóðar á miðnætti að staðartíma í gær. Þar með lauk þriggja áratuga rafmagnsframleiðslu í verinu.

Slökkt var á kjarnakljúfi númer tvö í Barsebäck-kjarnorkuverinu í suðurhluta Svíþjóðar á miðnætti að staðartíma í gær. Þar með lauk þriggja áratuga rafmagnsframleiðslu í verinu. Ljóst var að lokunin yrði að veruleika eftir að dómstólar höfnuðu kröfu 331 manns sem krafðist þess að starfseminni yrði haldið áfram.

Sænsk stjórnvöld hafa áður heitið því að loka verinu án þess að af því hafi orðið. Ekki var tekin afstaða í sænskum dómstólum til þeirra umhverfisáhrifa sem verða við lokun versins, heldur var einungis tekið fram að hinn rúmlega 300 manna hópur sem vildi halda starfseminni áfram hefði ekki komið fram með nægilega sterk rök máli sínu til stuðnings. Þetta kemur fram á fréttavef Norðurlandaráðs.

Þótt slökkt hafi verið á verinu verður það ekki rifið fyrr en umhverfismat hefur farið fram og gengið hefur verið þannig frá brennsluofnum að þeir mengi ekki. Búist er við að því verði lokið kringum árið 2020 og búast má við að sjö til átta ár í viðbót þurfi til að rífa verið. Þar til því er lokið munu um fjörutíu starfsmenn vera við störf í Barsebäck eftir því sem segir á vefsíðu sænska dagblaðsins Helsingborgs Dagblad .

Framleiðslu í Barsebäck 1 var hætt árið 1999. Tæp 4% þeirrar raforku sem Svíar nota voru framleidd í Barsebäck 2.

Ákvörðun þessa má rekja allt aftur til ársins 1980 þegar haldin var þjóðaratkvæðagreiðsla um nýtingu kjarnorku í Svíþjóð. Var í kjölfar hennar ákveðið að hætta nýtingu kjarnorku í áföngum á 30 árum. Skoðanakannanir nú leiða hins vegar í ljós að stuðningur við orkuframleiðslu í kjarnorkuverum hefur aukist í Svíþjóð. Hefur hann mælst allt að 80%. Þar ráða mestu áhyggjur af hnattrænni hlýnun og mengun sem fylgir orkuframleiðslu með eldri aðferðum.

Á sama tíma og Svíar loka Barsebäck byggja Finnar nýjan kjarnakljúf í kjarnorkuverinu í Olkiluoto, og er undirbúningur þegar hafinn að byggingu eins slíks í viðbót.