Hafnarfjörður | Undanfarin ár hefur verið unnið markvisst að því að stuðla gegn áfengisdrykkju útskriftarárgangs grunnskóla Hafnarfjarðar í tilefni þess að samræmdu prófunum er lokið og var árið í ár engin undantekning.

Hafnarfjörður | Undanfarin ár hefur verið unnið markvisst að því að stuðla gegn áfengisdrykkju útskriftarárgangs grunnskóla Hafnarfjarðar í tilefni þess að samræmdu prófunum er lokið og var árið í ár engin undantekning.

Grunnskólarnir, félagsmiðstöðvarnar, foreldrar og nemendur unnu saman að því að skipuleggja ánægjulegar ferðir þar sem unglingarnir fögnuðu uppbyggilega saman þessum tímamótum.

Að sögn Geirs Bjarnasonar, forvarnarfulltrúa í Hafnarfirði, er hægt að fullyrða að þessar ferðir hafi skilað árangri og séu að breyta ákveðinni hefð og landslagi sem myndast hefur hjá ungu fólki síðustu ár. Virkar vaktir af hálfu foreldraröltsins, Götuvitans og lögreglunnar í Hafnarfirði voru þessa helgi og eru að sögn Geirs allir sammála um að helgin hafi verið hin rólegasta.

"Ferðir þessar eru að skila árangri, samstarf allra þessara stofnanna, foreldra og nemenda er að skila árangri og með þolinmæði má áætla að drykkjuhefðin muni deyja út. Þó þarf að halda markvisst áfram því sterkar hefðir fjara ekki út á einni nóttu," segir Geir.

Forvarnarnefnd Hafnarfjarðar vill eindregið hæla og þakka þeim öllum þeim sem komu að skipulagningu og framkvæmd þessara ferða og þá sérstaklega foreldrum og nemendum fyrir jákvæðni sína og framtaksemi.