Ólafsvík | Framkvæmdaráð Snæfellsness, sem sér um eftirfylgni á vottunarverkefni Green Globe 21 á Snæfellsnesi, hélt ársfund sinn í liðinni viku í Félagsheimilinu Klifi í Ólafsvík.

Ólafsvík | Framkvæmdaráð Snæfellsness, sem sér um eftirfylgni á vottunarverkefni Green Globe 21 á Snæfellsnesi, hélt ársfund sinn í liðinni viku í Félagsheimilinu Klifi í Ólafsvík. Framkvæmdaráðið er skipað fulltrúum frá sveitarfélögunum fimm á Snæfellsnesi, auk fulltrúa frá Þjóðgarðinum Snæfellsjökli. Það var í upphafi undir forystu Guðlaugs heitins Bergmann, en þegar hann féll frá tók Guðrún G. Bergmann við formennsku í ráðinu.

Á fundinum var fjallað um þann árangur sem af verkefninu hefur orðið á því ári sem liðið er frá því að Framkvæmdaráðið tók til starfa. Ljóst er að vottunarferli Green Globe 21 hefur haft víðtæk áhrif á samfélagið og að ýmsum verkefnum sem tengjast umhverfismálum hefur verið ýtt úr vör. Ýmsar úrbætur eru í undirbúningi á ferðamannastöðum, sameiginlegt markaðsátak í ferðamálum er hafið, búið er að koma upp vísi að nýrri vefsíðu www.snaefellsnes.com. Sveitarfélögin kaupa nú umhverfismerktan pappír og umhverfismerktar hreinsivörur og úrbætur í úrgangsmálum eru í undirbúningi svo eitthvað sé nefnt.

Fyrir utan Félagsheimilið Klif blakti við hún fáni með því Green Globe 21 merki sem þýðir að viðmiðum vottunarsamtakanna hefur verið mætt, en sveitarfélögin munu flagga honum við skrifstofur sínar og aðrar opinberar byggingar í sumar.