SJÁVARÚTVEGSRÁÐHERRAR Íslands, Færeyja, Grænlands og Noregs, ásamt fulltrúum Evrópusambandsins og Rússlands, ræddu veiðistjórn á kolmunna á fundi í Þórshöfn í Færeyjum á mánudag.

SJÁVARÚTVEGSRÁÐHERRAR Íslands, Færeyja, Grænlands og Noregs, ásamt fulltrúum Evrópusambandsins og Rússlands, ræddu veiðistjórn á kolmunna á fundi í Þórshöfn í Færeyjum á mánudag. Var rætt um möguleika á að draga úr veiðum á kolmunna í Norður-Atlantshafi á þessu ári, í kjölfar þess að Alþjóðahafrannsóknaráðið, ICES, mældi umtalsverða minnkun á stofninum. Lögð var áhersla á að allar veiðiþjóðir þyrftu að draga úr veiðum. Varð að samkomulagi að ákvörðun um hvort dregið yrði úr veiðum þyrfti að liggja fyrir ekki seinna en í lok júní.

Enn fremur var ákveðið að hefja viðræður um stjórn veiðanna til lengri tíma og úthlutun veiðiheimilda fyrir árið 2006. Verður haldinn fundur um málið í Brussel í lok júní. Auk þess var á fundinum lagt til að koma á fót sérstökum vinnuhóp undir merkjum Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar, NEAFC, sem hefði það að markmiði að þróa úthlutunarreglur.

Afli Íslands orðinn 134 þúsund tonn

Kolmunnaaflinn í Norður-Atlantshafi hefur undanfarin ár farið langt fram úr því sem fiskifræðingar telja ráðlegt og á síðasta ári varð aflinn 2,4 milljónir tonna. Stofn kolmunnans fer nú minnkandi eftir miklar veiðar umfram tillögur fiskifræðinga undanfarin ár. Nýlegar mælingar á stofninum gefa til kynna 30% samdrátt á hrygningarstofninum og 25% samdrátt í stofninum í heild. Hafa fiskifræðingar lagt til að aðeins verði veidd ein milljón tonna á þessu ári.

Kolmunnakvóti íslenskra skipa á þessu ári er 345.000 tonn en afli þeirra er nú orðinn um 134 þúsund tonn. Afli Íslendinga varð mestur árið 2003, um 500.000 tonn, en í fyrra veiddust 420.000 tonn.