Sjálfstæðismenn í borgarstjórn Reykjavíkur hafa lagt fram nýstárlegar hugmyndir um framtíðarskipulag borgarinnar.

Sjálfstæðismenn í borgarstjórn Reykjavíkur hafa lagt fram nýstárlegar hugmyndir um framtíðarskipulag borgarinnar. Stærsti kostur þessara hugmynda er að þær rjúfa þá kyrrstöðu, sem hefur ríkt í umræðum um skipulagsmál Reykjavíkurborgar og eru líklegar til að skapa líflegar umræður um borgarskipulagið. Hitt er svo annað mál hvort raunhæft er að hrinda þeim öllum í framkvæmd, enda segja sjálfstæðismenn að hér sé um að ræða "hugmyndir til umræðu og athugunar".

Meginhugmyndin er sú að gera miklar landfyllingar við Örfirisey, tengja Akurey meginlandinu með landfyllingu, stækka Engey með landfyllingum og gera brú og/eða göng út í eyna. Á eyjunum yrði síðan reist þétt byggð í anda byggðarinnar í Vesturbæ og Miðbæ.

Slíkt byggðamynztur væri mótvægi við dreifingu byggðarinnar til austurs undanfarna áratugi og margir, sem undanfarin ár hafa sótt í Vestur- og Miðbæ, væru líklegir til að vilja búa í hverfum með miðborgarbrag fremur en hinum austlægu úthverfum.

Sjálfstæðismenn benda réttilega á að með því að byggja þannig upp ný hverfi með mörg þúsund íbúum í vesturhluta borgarinnar verði miðja höfuðborgarsvæðisins á ný í hjarta Reykjavíkur. Það sama á hins vegar auðvitað líka við um byggð í Vatnsmýrinni, sem virðist raunar miklu nærtækari kostur. Sjálfstæðismenn fresta því enn að taka afstöðu til Vatnsmýrarinnar; segja að fyrst þurfi að vinna hagkvæmniathugun á þeim kostum, sem komi til greina um þróun svæðisins; að því loknu geti borgarbúar tekið "upplýsta og stefnumarkandi ákvörðun um þróun Vatnsmýrarinnar".

Vandséð er að aðra atkvæðagreiðslu um framtíð Vatnsmýrarinnar þurfi. Hún hefur farið fram; borgarbúar hafa sagt álit sitt. Flugvöllurinn á að fara úr Vatnsmýrinni og nota á hana sem byggingarland til að skapa sterka borgarmiðju í Reykjavík. Sjálfstæðismenn hafa tækifæri til að taka af skarið í þessum efnum og bjóða kjósendum skýran kost fyrir næstu kosningar, í stað vandræðagangs R-listans í málefnum Vatnsmýrarinnar.

Hugmyndir sjálfstæðismanna um hverfatorg, sem verði hjartað í hverju hverfi og miðpunktur samvista og viðburða fyrir íbúa hverfanna, eru áhugaverðar og líklegar til að bæta borgarbraginn; í dag eru bílastæði við verzlunarmiðstöðvar oft það, sem kemst næst því að vera útisamkomustaður íbúanna í hverfum Reykjavíkur.

Hugmyndirnar um eyjabyggð verða vafalaust umdeildar. Það liggur í augum uppi að þær yrðu að fara í víðtækt umhverfismat, auk þess sem taka þyrfti tillit m.a. til veðurskilyrða og nauðsynlega varna gegn ágangi sjávar. Undanfarin ár hafa komið fram ýmsar tillögur um að vernda eyjarnar á Sundum sem útivistarsvæði. Þannig sagði í "framtíðarsýn" um eyjar á Sundum sem borgarráð samþykkti fyrir rúmum þremur árum: "Menningarlandslag sem varðveist hefur í eyjunum er einstakt fyrir þá sök að eyjarnar hafa sloppið að mestu við framkvæmdagleði 20. aldar. Lega þeirra á Sundunum í faðmi höfuðborgarinnar er einnig einstök og fáar borgir geta státað af slíkum náttúruperlum. Í vaxandi borgarsamfélagi þar sem stöðugt er gengið á rými einstaklingsins verða svæði eins og eyjarnar sífellt verðmætari fyrir borgarana til hvíldar og endurnæringar."

Er þessi framtíðarsýn var til umfjöllunar í borgarráði var jafnframt samþykkt að fela borgarminjaverði að "að vinna greinargerð um svæðið með tilliti til hugsanlegrar skráningar þess á yfirlitsskrá íslenska ríkisins til Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna yfir þá staði sem taldir eru til mikilvægra menningar- og náttúruarfleifða".

Þá lagði Náttúruvernd ríkisins til á sínum tíma að eyjarnar á Sundum yrðu gerðar að friðlandi ásamt grunnsævinu og lögð áherzla á bátasamgöngur, en ekki vegtengingar.

Ljóslega þarf að vega saman þá hagsmuni, sem Reykjavíkurborg hefur af nýju byggingarlandi miðsvæðis - umfram Vatnsmýrina - og þá hagsmuni, sem Reykvíkingar hafa af því að halda Akurey og Engey óspjölluðum í þágu náttúruverndar.

Viðey er ekki hluti af þeirri miðborgarbyggð, sem Sjálfstæðisflokkurinn vill efla. Sjálfstæðismenn velta hins vegar upp hugmyndum um að tengja hana við Gufunes með brú og hafa þar "litla og lágreista, vistvæna íbúðabyggð". Það er útilokað að um slíkt geti náðst nokkur samstaða. Staða Viðeyjar, annars vegar sem eins af helztu sögustöðum þjóðarinnar og hins vegar sem útivistarsvæðis, sem margir Reykvíkingar nota, hefur í för með sér að mikil andstaða verður við íbúðabyggð og umferð þar. Hugmyndir um slíkt hafa raunar áður verið slegnar af og sjálfstæðismenn lögðust eindregið gegn þeim fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar. Með brúartengingu væri Viðey ekki lengur eyja - og sú kyrrð og einangrun, sem gestir hennar upplifa eftir örstutta bátsferð, væri þar af leiðandi rofin, svo og sérstaða eyjarinnar meðal útivistarsvæða borgarbúa. Aukinheldur hafa bæði Náttúruvernd ríkisins og fuglafriðunarmenn lagzt gegn brúarsmíð út í Viðey vegna óæskilegra áhrifa hennar á fuglalífið í eynni.

Ekkert af því, sem sjálfstæðismenn leggja nú fram, er ákveðið af þeirra hálfu, komist þeir í aðstöðu til að hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd. Eitt af því athyglisverðasta og jákvæðasta við hugmyndir flokksins í skipulagsmálum er einmitt að hann hyggst efna til samræðna - fyrir kosningar - við íbúa borgarinnar um hugmyndir sínar; halda íbúaþing fyrir alla Reykvíkinga í júní og kynna hugmyndirnar á fundum um alla borg í sumar. Þessi vinnubrögð eru nýmæli og til fyrirmyndar. Þess eru fá dæmi ef nokkur að stjórnmálaflokkur, sem ekki er við völd, efni til slíks samráðs við kjósendur um mótun stefnu sinnar. Þessi aðferð við stefnumótun er til marks um þá sívaxandi áherzlu á íbúalýðræði, sem gætir nú innan allra flokka.