Jacques Chirac
Jacques Chirac
París. AFP. AP. | Barátta gegn atvinnuleysi mun hafa forgang hjá nýrri ríkisstjórn í Frakklandi, að því er fram kom í sjónvarpsávarpi Jacques Chiracs, forseta landsins, í gærkvöldi.

París. AFP. AP. | Barátta gegn atvinnuleysi mun hafa forgang hjá nýrri ríkisstjórn í Frakklandi, að því er fram kom í sjónvarpsávarpi Jacques Chiracs, forseta landsins, í gærkvöldi. Chirac flutti ávarpið stuttu eftir að hann skipaði Dominique de Villepin forsætisráðherra, en fyrr um daginn hafði hann tekið við afsögn Jean-Pierre Raffarins. Breytingarnar á ríkisstjórninni eru gerðar í kjölfar þess að Frakkar felldu stjórnarskrársáttmála Evrópusambandsins (ESB) í þjóðaratkvæðagreiðslu. Í ávarpinu hvatti Chirac þjóðina til að "standa saman um hagsmuni [sína]" enda væri niðurstaða atkvæðagreiðslunnar upphafið að tímabili "erfiðleika og óvissu". Þá sagði hann að þó að Frakkar hefðu hafnað stjórnarskránni hafi þeir hvorki hafnað Evrópu né Evrópuhugsjóninni.

Keppinautur Chiracs verður ráðherra

Í ávarpinu tilkynnti Chirac að Nicolas Sarkozy, formaður Lýðfylkingarinnar (UMP), flokks forsetans, yrði ráðherra í nýrri stjórn. Þykir líklegt að hann verði innanríkisráðherra og þannig næstráðandi á eftir Villepin. Sarkozy er einn dáðasti stjórnmálamaður Frakklands og sagður helsti keppinautur Chiracs. Er talið að með tilnefningu hans ætli Chirac sér að auka vinsældir stjórnvalda sem eru í mikilli lægð. Sarkozy var innanríkisráðherra frá 2002 til 2004, en Chirac neyddi hann til að hætta þegar hann varð formaður UMP, því ekki væri hægt að sinna báðum störfum í einu. Búist er við að endurkoma Sarkozy í stjórnina geti skapað spennu innan hennar, enda greinir þá Chirac á um ýmis málefni auk þess sem samband þeirra Villepins þykir stirt.

Í dag ganga Hollendingar til þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrársáttmála ESB og benda skoðanakannanir til þess að þeir felli hann og það með meiri mun en Frakkar gerðu.