HLÝNUN jarðar veldur því að fiskur leitar í auknum mæli norður á bóginn, samkvæmt nýrri breskri rannsókn.

HLÝNUN jarðar veldur því að fiskur leitar í auknum mæli norður á bóginn, samkvæmt nýrri breskri rannsókn. Í henni kemur fram að fiskistofnar á borð við ýsu og þorsk hafa leitað í kaldari sjó til að bregðast við einnar gráðu hlýnun sjávar í Norðursjó á undanförnum aldarfjórðungi, að því greint er frá í WorldFish Report .

Í rannsókninni, sem unnin var af vísindamönnum við háskólann í Austur-Anglíu, voru skoðaðar aflatölur frá árinu 1977 til ársins 2001, sem og sjávarhiti, almenn loftslagsmynstur og áhrif Golfstraumsins. Á þeim mátti sjá að 21 fiskitegund hafði fært meginbúsvæði sitt norðar í kaldari sjó, þar af 18 tegundir umtalsverða vegalengd. Þannig hafði þorskur fært sig 73 sjómílur að meðaltali í átt að Norðurskautinu og ýsan 65 mílur. Auk þess að færa sig norðar, hafa margar tegundanna einnig leitað á dýpra vatn til að komast í meiri kulda. Segja vísindamennirnir að frekari hlýnun kunni að hafa veruleg áhrif á fiskveiðar í Norðursjó. Þannig muni til dæmis kolmunni og karfi algerlega hverfa af hafsvæðinu fyrir árið 2050 ef fram heldur sem horfir. Á sama tíma hafa sjaldgæfari og suðrænni tegundir komið sér fyrir í Norðursjónum.