REIÐIN er þeirra fag. Kerfisbundinn reiðilestur studdur kraftmiklu, ævintýragjörnu, metnaðarfullu og grípandi tilfinningarokki.

REIÐIN er þeirra fag. Kerfisbundinn reiðilestur studdur kraftmiklu, ævintýragjörnu, metnaðarfullu og grípandi tilfinningarokki. Tilraunamennskan sem einkenndi fyrstu plöturnar tvær er að mestu að baki; kannski sumpart skiljanlega, enda má réttlæta það svo að System of A Down sé að búin að finna sinn tón og haldi sig hér við hann.

Með öðrum orðum þá hefur Mezmirize - hvað tónlistina varðar - að geyma meira af hinu sama og virkaði svo gríðarlega vel á Toxicity .

Og í textunum beina þeir Daron Malakian og Serj Tankian reiði sinni enn og aftur að meintri úrkynjun hins bandaríska samfélags; hernaðarbröltinu í Írak, hræsni fjölmiðla, yfirborðsmennskunni í Hollywood. Bara nefna það; allt sem hinn bandaríski almúgamaður, stuðningsmaður forsetans, er stoltastur af; það er þyrnir í augum þessara gagnrýnu armensku innflytjenda sem telja mjög svo að sér og sínum vegið þar í landinu fyrirheitna. Togstreitan og spennan er því algjör og einlæg. Hér eru reiðir menn með sannar meiningar; ekki rokkklisjunnar vegna heldur sannfæringarinnar. Og rokkið þeirra er með því hressilegra sem gerist og laglínur og útsetningar Malakians og Ricks Rubins margsnúnar - á stundum reyndar fullsnúnar - og innihaldsríkar.

Skarphéðinn Guðmundsson