Kristín Laufey Guðjónsdóttir fæddist í Reykjavík 11. október 1912. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Skjóli 23. maí síðastliðinn. Foreldrar Kristínar voru hjónin Hannesína Guðrún Hannesdóttir, f. 1876, d. 1942 og Guðjón Jónsson, f. 1859, d. 1925. Systur Kristínar voru Oddbjörg, f. 1904, d. 1990 og Unnur er dó í frumbernsku.

Kristín giftist 25. maí 1935 Ragnari Þ. Guðlaugssyni blikksmíðameistara, f. í Hafnarfirði 14. nóvember 1911, d. 12. maí 1991. Kristín og Ragnar eignuðust fjögur börn en af þeim komust þrjú á legg. 1) Guðjón, f. 1940, kvæntur Kolbrúnu Zophoníasdóttur, f. 1941. Börn þeirra eru Kristín, f. 1963 gift Snæbirni Adolfssyni, f. 1948. Ragnar Zophonías, f. 1970, kvæntur Áslaugu Alfreðsdóttur, f. 1971. 2) Hanna Guðrún, f. 1946, gift Jóni Kr. Stefánssyni, f. 1948. Börn þeirra eru Oddbjörg Erla, f. 1973, gift Inga Haukssyni, f. 1973 og Stefán Ragnar, f. 1977. 3) Halldóra Guðlaug, f. 1952, gift Gunnari Loftssyni, f. 1949. Barnabarnabörn Kristínar og Ragnars eru sex talsins.

Kristín og Ragnar bjuggu lengst af í Lönguhlíð 21 í Reykjavík en fluttu 1983 í Hátún 10 og þar bjó Kristín þar til hún flutti í hjúkrunarheimilið Skjól um mitt sumar 2003.

Útför Kristínar verður gerð frá Fossvogskapellu í dag og hefst athöfnin klukkan 13.

Það er með söknuði sem ég kveð tengdamóður mína Kristínu Guðjónsdóttur. Á sólbjörtu maíkvöldi á yndislegasta tíma ársins, þegar sumarið er að taka við af vorinu kvaddi hún þessa jarðvist.

Ég kom fyrst á heimili tengdaforeldra minna fyrir 45 árum, þá nýbúin að kynnast einkasyni þeirra. Þá eins og ævinlega síðar tók hún vel á móti mér á sinn hógværa hátt. Kristín var fædd í Reykjavík og þar bjó hún alla sína ævi. Hún ólst upp í Þingholtunum í litlu húsi sem nú er varðveitt í Árbæjarsafni og það var gaman að spjalla við hana um lífið í Reykjavík á fyrri hluta síðustu aldar. Hún unni borginni sinni, en kærust var henni fjölskyldan, maðurinn hennar og börnin þrjú. Faðmur hennar stóð okkur einnig opinn, tengdabörnunum, og síðan ömmu- og langömmubörnunum.

Kristín missti mikið þegar Ragnar, maðurinn hennar, lést fyrir 14 árum. Hún var þá orðin mjög sjóndöpur, en hafði þó kjark og áræði til að búa áfram ein í íbúðinni þeirra í Hátúninu allt þar til í fyrravetur er hún, þrotin að heilsu, fluttist á hjúkrunarheimilið Skjól, þar sem hún dvaldi uns yfir lauk.

Það er erfitt að vera fjarri ástvinum þegar svo er komið að þeir eru hjálparþurfi en Kristín naut þess að hafa dæturnar nærri og þær hugsuðu einstaklega vel um móður sína og komu til hennar á hverjum degi og aðstoðuðu á allan hátt. Fyrir alla þá umönnun sem þær veittu henni þökkum við Guðjón þeim systrum.

Með þessum fátæklegu kveðjuorðum þakka ég tengdamóður minni samfylgdina og alla þá ástúð og umhyggju sem hún sýndi okkur Guðjóni og börnum okkar alla tíð.

Guð blessi minningu Kristínar Laufeyjar Guðjónsdóttur.

Kolbrún Zophoníasdóttir.

Ein af fyrstu minningum okkar um ömmu eru frá eldhúsinu í Lönguhlíðinni þar sem afi og amma áttu heima. Við höfum varla verið há í loftinu en það kemur ennþá upp í hugann þegar við heyrum fréttastef Ríkisútvarpsins, minningin um soðna kálböggla með tómatsósu og heimsins bestu kjötsúpu.

Eftir að afi og amma fluttu í Hátúnið var alltaf farið í heimsókn ef við fórum í bæinn. Þá var tekinn strætó úr Kópavoginum, farið úr niður í Lækjargötu, gengið sem leið lá inn allan Laugaveginn og inn í Hátún þar sem tekið var á móti okkur með hlýju og alúð og að sjálfsögðu einhverju góðgæti. Það var alltaf passað upp á það að við fengjum nú eitthvað gott.

Á sumrin var oft leigður sumarbústaður í Grímsnesinu. Þar var uppálagt að slá grasið á flötinni og upp í hugann kemur minning um sólríkan dag þar sem kona á áttræðisaldri stígur létt í flekkinn með hrífu í höndum til að raka á eftir sláttumanni. Það var greinilegt hve mjög hún unni sveitalífinu, það var eins og hún væri orðin tæplega tvítug kaupakona í Biskupstungunum á ný. Fjallasýnin var söm og þá og sagði hún okkur sögur, sem tengdust sveitinni eins og sagan af Bergi í Bláfelli og sýrukerinu að Bergsstöðum.

Eins og gengur og gerist með aldrinum fór sjóninni að hraka. Með prjónana við nefbroddinn og annað augað í pung gat amma prjónað heilu teppin handa öllum í fjölskyldunni. Þessi teppi ylja okkur um ókomna tíð.

Vaktu, minn Jesús, vaktu í mér,

vaka láttu mig eins í þér.

Sálin vaki þá sofnar líf,

sé hún ætíð í þinni hlíf.

(Hallgrímur Pétursson.)

Hvíl í friði elsku amma, þín ömmubörn,

Oddbjörg Erla og

Stefán Ragnar.