Dalvíkurbyggð | Kennarar Húsabakkaskóla hafa allir fengið boð um stöður í hinum skólum Dalvíkurbyggðar og allir hafa þeir þegið þar stöður.

Dalvíkurbyggð | Kennarar Húsabakkaskóla hafa allir fengið boð um stöður í hinum skólum Dalvíkurbyggðar og allir hafa þeir þegið þar stöður. Skoðað verður hvaða möguleikar eru til þess að aðrir starfsmenn fái störf en starfsmannaviðtöl hafa verið boðin öllum starfsmönnum. Þá er unnið að ráðstöfun ýmissa eigna Húsabakkaskóla, m.a. til annarra skóla sveitarfélagsins.

Þetta kom fram á fundi fræðsluráðs nýlega, en einnig að nú er unnið að því að koma á fót leikskóladeild í stað Krílakots, sem var við Húsabakka og mun ekki starfa eftir að starfsemi leggst af á Húsabakka. Skólastjórar hafa fundað vikulega síðustu vikur ásamt starfsmönnum skólaþjónustu til að undirbúa flutning nemenda úr Svarfaðardal í Dalvíkurskóla. Vel heppnað foreldrakvöld var í Dalvíkurskóla á dögunum og efnt hefur verið til gagnkvæmra nemendaheimsókna. Fram kom að þeir sem unnið hafa að undirbúningi flutnings telja brýnt að í framhaldi af þessari vinnu verði einn aðili ábyrgur fyrir áframhaldandi stefnumótunarvinnu á næsta skólaári sem nær til allra skólanna í samræmi við ákvörðun bæjarstjórnar frá 1. mars sl., jafnvel að nýr skólastjóri sameinaðs grunnskóla komi til starfa sem slíkur eigi síðar en um næstu áramót eða tímanlega á næsta ári til að fylgja sameiningunni eftir og móta nýjan skóla.

Húsabakkaskóla var slitið í síðasta sinn nú um liðna helgi, en nemendur sem voru rúmlega 40 talsins munu stunda nám við Dalvíkurskóla eftirleiðis.