Ófullgert listaverk Magnúsar Pálssonar, eftir ævintýrinu um Karlsson, Lítil, Trítil og fuglana, prýðir veggi Snælandsskóla innan dyra og utan. Hluti þess var skemmdur og annar hluti fjarlægður. Ævintýrið endar í matsalnum.
Ófullgert listaverk Magnúsar Pálssonar, eftir ævintýrinu um Karlsson, Lítil, Trítil og fuglana, prýðir veggi Snælandsskóla innan dyra og utan. Hluti þess var skemmdur og annar hluti fjarlægður. Ævintýrið endar í matsalnum. — Morgunblaðið RAX
Listaverk Magnúsar Pálssonar hefur lengi verið þrætuepli í Kópavogi. Guðni Einarsson skoðaði sögu málsins og stöðu þess nú.

STJÓRN Listskreytingasjóðs ríkisins mun fljótlega funda með bæjarstjóra Kópavogs um listskreytingu Magnúsar Pálssonar myndlistarmanns í Snælandsskóla. Listaverkið heitir Sagan um karlsson, Lítil, Trítil og fuglana og er myndskreyting á samnefndu ævintýri, sem sett var upp í Snælandsskóla í Kópavogi. Uppsetning verksins, sem sett var á veggi skólans utan og innan húss, hófst 1988 en henni var aldrei lokið að fullu. Síðan voru unnin skemmdarverk á hluta listaverksins utanhúss sem var fjarlægður í kjölfarið. Innan bæjarkerfisins var rætt um að fjarlægja verkið en listamaðurinn var mótfallinn því og eins Listskreytingasjóður, sem kostaði verkið að miklu leyti.

Í gær birtist grein Knúts Bruun lögmanns og formanns Myndstefs í Morgunblaðinu, Listaverkið og loftpressan. Þar rekur hann í stuttu máli ágrip af sögu listskreytingarinnar. Knútur segir að listamaðurinn hafi reynt um árabil að fá bæjaryfirvöld í Kópavogi til að lagfæra listaverkið án árangurs. Loks hafi hann gefist upp og leitað liðsinnis höfundarréttarsamtaka myndhöfunda. Knútur skorar á bæjaryfirvöld í Kópavogi að lagfæra og ljúka við listaverk Magnúsar Pálssonar í Snælandsskóla.

Löng barátta fyrir listaverki

Magnús Pálsson, listamaður, segir að byrjað hafi verið á listaverkinu 1985, þ.e. hönnun og öðru slíku. Uppsetning verksins hófst 1986 og var unnið að henni næstu sumur þar á eftir. Aldrei hafi þó verið lokið við verkið vegna þess að vikið var frá upphaflegri hönnun skólabyggingarinnar.

Hluta verksins átti að setja á þrjá veggi byggingar sem hafði verið teiknuð og átti að hýsa samkomusal, að því er Magnús minnir, en síðan var breytt frá því og önnur bygging sett í staðinn. Hann segir að vegna breytinga á skólanum hefði þurft að hanna verkið upp á nýtt sem ekki var gert. M.a. var búið að koma hluta verksins fyrir á húsgafli, þar sem viðbygging var síðan byggð og sá hluti listaverksins varð að víkja. Aðspurður segir Magnús að yfirvöld bæjarins hafi aldrei lýst því yfir að hætt væri við að ljúka gerð listaverksins.

Verkið varð fyrir skemmdum, líklega vegna grjótkasts, og var smám saman brotið niður. Magnús segist hafa sótt á um að gert væri við það sem var eyðilagt og eins að verkinu yrði lokið. Bæjaryfirvöld Kópavogs hafi aldrei orðið við því.

Magnús segir að þessi barátta hafi nú staðið í 15-20 ár. Hann segist sjá þá lausn að verkið verði klárað og gert við það sem var eyðilagt. Hann segist ætíð hafa verið reiðubúinn að vinna að því. Búið sé að gera nokkrum sinnum áætlanir um framkvæmdina, en þeim hafi aldrei verið svarað af bæjaryfirvöldum.

Magnús segir að Listskreytingasjóður ríkisins hafi styrkt gerð listaverksins tvisvar eða þrisvar. Ætlunin hafi verið að sækja um styrk þaðan enn eina ferðina til að ljúka verkinu. Magnús segist hafa farið á fjölmarga fundi með þremur eða fjórum bæjarstjórum Kópavogs í gegnum tíðina, lögmanni bæjarins og umsjónarmönnum listamála í bænum. Út úr þeim fundum hafi ekkert komið, þótt stundum hafi verið frekar fallega talað, eins og Magnús orðaði það. Hann sagðist binda vonir við að nýr bæjarstjóri, Gunnar I. Birgisson, muni leysa málið.

Fundur fljótlega

Bæjarlögmaður Kópavogs, Þórður Clausen Þórðarson hrl., segir að ýmissa leiða hafi verið leitað til að leysa málin varðandi listaverk Magnúsar í Snælandsskóla. Á sínum tíma hafi verið kannað, í samvinnu við listamanninn, hvort smækka mætti verkið og koma því fyrir á tveimur veggjum í samkomusal skólans. Kostnaður við það hafi verið áætlaður um 4,2 milljónir. Þessi hugmynd hafi mætt andstöðu meðal stjórnenda skólans og því fallið frá henni.

Þórður kveðst hafa ritað formanni stjórnar Listskreytingasjóðs ríkisins 29. mars síðastliðinn. Þar hafi hann útskýrt að mikil spjöll hafi verið unnin á listaverkinu og að bæjaryfirvöld stæðu frammi fyrir því að taka niður það sem eftir er af verkinu. Listamaðurinn telji óviðunandi að það sem eftir standi verði látið halda sér án þess að það sem eyðilagðist yrði endurgert.

Þórður segir að þessu hafi verið varpað fram til að brjóta ekki á sæmdarrétti listamannsins, því ekki megi láta verkið drabbast niður. Í bréfinu var leitað eftir afstöðu Listskreytingasjóðs til þess að verkið yrði tekið niður, en það sé ekki hægt nema að verkið eyðileggist. Jafnframt var spurt hvort vilji væri fyrir því hjá Listskreytingasjóði að koma að endurgerð verksins, yrði ákveðið að leggja í þá framkvæmd.

Þórður segir að stjórn Listskreytingasjóðs hafi komið í heimsókn í skólann 9. maí síðastliðinn og skoðað listaverkið. Daginn eftir óskaði stjórn sjóðsins eftir fundi með bæjarstjóra Kópavogs. Þórður segir að vegna bæjarstjóraskipta, sem fram fara í dag, hafi ekki þótt taka því að halda fundinn fyrr en nýr bæjarstjóri væri kominn til starfa. Með bréfi 26. maí síðastliðinn hafi verið óskað eftir því að fundurinn yrði haldinn þegar Gunnar I. Birgisson hefði tekið við bæjarstjórastarfinu. Sagðist Þórður búast við að fundur nýja bæjarstjórans og stjórnar Listskreytingasjóðs verði haldinn fljótlega.

Ingibjörg Gunnlaugsdóttir, framkvæmdastjóri Listskreytingasjóðs ríkisins, segir ekkert hægt að fullyrða um hvað sjóðurinn gerir fyrr en að afloknum fundi með bæjarstjóra Kópavogs. Þar eigi að fara yfir málið og reyna að komast að einhverri niðurstöðu. Ingibjörg segir að Listskreytingasjóður hafi lagt um fimm milljónir, á núvirði, í listaverkið. Auk þess hafi Kópavogskaupstaður lagt af mörkum við vinnu og uppsetningu verksins.

Ingibjörg segir að þegar Listskreytingasjóður hafi styrkt tiltekið verk geti styrkþeginn, sem í þessu tilviki sé Kópavogskaupstaður, ekki fjarlægt verkið án samráðs við sjóðinn. Samkvæmt lögum séu verk unnin fyrir fjármuni úr sjóðnum eign sjóðsins, þó að verkin séu staðsett í ýmsum stofnunum ríkisins.

Þegar verkið var sett upp í Snælandsskóla hafi grunnskólarnir verið hjá ríkinu og skólinn stofnun á vegum ríkisins. Eftir að rekstur grunnskóla færðist til sveitarfélaganna eigi þeir ekki lengur rétt á að sækja um styrk úr Listskreytingasjóði. Ingibjörg telur að Snælandsskóla hafi borið að varðveita verkið og viðhalda því.

gudni@mbl.is

Höf.: gudni@mbl.is