Fyrsta jafntefli sumarsins varð staðreynd í Laugardalnum í gærkvöldi þegar Keflvíkingar sóttu Þróttara heim í bragðdaufum leik sem lauk 2:2. Bæði lið léku undir getu og úrslitin sanngjörn. Lítið var um færi og þeim mun meiri barátta á miðjunni.

Fyrsta jafntefli sumarsins varð staðreynd í Laugardalnum í gærkvöldi þegar Keflvíkingar sóttu Þróttara heim í bragðdaufum leik sem lauk 2:2. Bæði lið léku undir getu og úrslitin sanngjörn. Lítið var um færi og þeim mun meiri barátta á miðjunni. Með jafnteflinu fengu Þróttarar sitt fyrsta stig í sumar en Keflvíkingar hafa sjö stig eftir fjórar umferðir.

Eftir Andra Karl andri@mbl.is

Aðstæður voru eins og best verður á kosið í Laugardalnum en því miður var spilamennskan ekki eftir því. Lítið fór fyrir stuttu spili og þeim mun meira af háum, löngum sendingum sem aðeins gáfu tilefnislaus hlaup og baráttu um boltann. Þrátt fyrir að fjögur mörk væru skoruð var lítið um færi og leikmenn virtust þreyttir frá upphafsmínútum. Fátt markvert gerðist því framan af fyrri hálfleik en Þrótturum tókst að þétta vörnina frá því í síðustu umferð og léku í raun betur en þá, þrátt fyrir að leika enn undir getu.

Fyrsta færi leiksins kom eftir þrettán mínútur, Þróttur fékk aukaspyrnu rétt fyrir utan vítateig en Ólafur Tryggvason skaut himinhátt yfir. Guðmundur Steinarsson fékk svo upplagt færi á sextándu mínútu þegar hann fékk boltann í miðjum vítateig Þróttara en skot hans fór af varnarmanni og talsvert framhjá - Guðmundur hefði átt að koma Keflvíkingum yfir því færið var upplagt.

Leikurinn einkenndist af miðjuþófi og sóknarleikurinn var ekki nægilega markviss, á það við um bæði lið en færin komu flest eftir föst leikatriði. Þannig komust Þróttarar einmitt yfir, Eysteinn Pétur Lárusson skoraði eftir hornspyrnu sex mínútum fyrir leikhlé. Keflvíkingum tókst hins vegar að jafna fyrir hlé, þar var að verki Hörður Sveinsson sem skaut laglegur, viðstöðulausu skoti framfhjá Fjalari, og staðan því 1:1 í hálfleik.

Sanngjarnt jafntefli

Heldur var meiri kraftur í Keflvíkingum í byrjun síðari hálfleiks og Gestur Gylfason fékk ágætis færi á upphafsmínútunum en hefði átt að gera betur, slakt skot hans fór talsvert framhjá. Þá loksins að Þróttarar reyndu að spila stutt og með jörðinni uppskáru þeir góða sókn á 55. mínútu, Freyr Karlsson var upphafsmaður hennar og rak einnig smiðshöggið en kollspyrnan fór talsvert yfir mark Keflavíkur. Guðmundur Steinarsson skoraði hins vegar annað mark gestanna á 60. mínútu með góðu skoti en Þróttarar voru ekki af baki dottnir, efldust frekar eftir markið og héldu boltanum talsvert betur. Það var svo fyrirliðinn, Páll Einarsson, sem jafnaði leikinn nokkuð sanngjarnt úr vítaspyrnu níu mínútum síðar og áttu heimamenn fleiri sóknir það sem eftir lifði leiks.

Þó svo að Þróttarar hefðu boltann meira undir lokin náðu þeir ekki að skapa sér góð færi, boltanum var dælt inn í vítateig gestanna en ekki fylgt nægilega vel eftir. Jafntefli, 2:2, var því staðreynd, fyrsta jafntefli sumarsins og bæði lið geta vel við unað enda að leika undir getu.

"Vorum sjálfum okkur verstir"

"Leikurinn var allt öðru vísi en sá síðasti sem við spiluðum, á móti KR. Þá áttum við níu skot á fyrstu 27 mínútunum en ég efast um að við höfum náð því í öllum þessum leik," sagði Guðmundur Steinarsson, leikmaður Keflavíkur. "Það var ekki sami hraði og hefur verið að undanförnu og við náðum ekki að rífa okkur upp og komumst aldrei í gang. Við erum aldrei sáttir við neitt nema sigur og við viljum fá þrjú stig úr hverjum einasta leik þannig að þetta jafntefli er sárt en við vorum sjálfum okkur verstir í leiknum og engu líkara en leikmennirnir væru komnir í fríið sem framundan er. Við virkuðum þreyttir frá fyrstu mínútu en okkur hefur ekki tekist að dreifa álaginu nægilega vel."