Dr. A. P. J. Abdul Kalam Indlandsforseti sýndi tækjabúnaði Engeyjarinnar mikinn áhuga og fékk Þórð Magnússon, skipstjóra (t.h.), til að sýna sér m.a. tölvukort af veiðisvæðum í brúnni. Forsetanum á hægri hönd er Eggert B. Guðmundsson, forstjóri HB Granda.
Dr. A. P. J. Abdul Kalam Indlandsforseti sýndi tækjabúnaði Engeyjarinnar mikinn áhuga og fékk Þórð Magnússon, skipstjóra (t.h.), til að sýna sér m.a. tölvukort af veiðisvæðum í brúnni. Forsetanum á hægri hönd er Eggert B. Guðmundsson, forstjóri HB Granda. — Morgunblaðið/Golli
Eftir Silju Björk Huldudóttur silja@mbl.is FORSETI Indlands, dr. A. P. J. Abdul Kalam, lagði ásamt fylgdarliði leið sína niður í Reykjavíkurhöfn í gærmorgun í þeim tilgangi að skoða frystitogarann Engey RE 1.
Eftir Silju Björk Huldudóttur silja@mbl.is

FORSETI Indlands, dr. A. P. J. Abdul Kalam, lagði ásamt fylgdarliði leið sína niður í Reykjavíkurhöfn í gærmorgun í þeim tilgangi að skoða frystitogarann Engey RE 1. Þar tóku forsvarsmenn HB Granda, sem á Engeyna, á móti forseta og leiddu hann um skipið sem er stærsta fiskiskip landsins, smíðað á Spáni fyrir rúmum áratug, en tiltölulega nýkomið til Íslands.

Á fylgdarliði forseta var að heyra að mikill áhugi hefði verið á því að fara í smásiglingu á Engeynni, en þar sem dagskrá heimsóknarinnar er þéttskipuð var ljóst að ekki gæfist tími til þess. Skoðunarleiðangur forseta hófst í brúnni þar sem Eggert B. Guðmundsson, forstjóri HB Granda, ræddi við forsetann um fiskveiðar Íslendinga sem og fiskveiðistjórnun á miðum úti. Abdul Kalam spurði út í kvótakerfið og hvernig fiskveiðikvótum væri úthlutað. Einnig sýndi hann því mikinn áhuga að skoða kort af veiðisvæðum og sýndi Þórður Magnússon, skipstjóri Engeyjarinnar, honum veiðisvæðin í tölvu skipsins auk þess sem hann sýndi forseta sónarinn sem notaður er til fiskileitar.

Næst lá leiðin um vistarverur skipsins þar sem forsetinn fékk að sjá hvernig aðbúnaður áhafnarinnar er, en þaðan lá leiðin undir dekk þar sem sjálf vinnslan fer fram. Að sögn Eggerts spurði Indlandsforseti margra glúrinna spurninga. Segir Eggert greinilegt að þarna hafi vísindamaður verið á ferð, hann hafi verið einstaklega fljótur að átta sig á hlutum og spurt mikið út í tækjabúnað togarans.

Áður en Indlandsforseti hélt frá borði hafði hann orð á því að hann hefði mikinn áhuga á að fá sendar myndbandsupptökur af veiðum Engeyjarinnar. | Miðopna