MOR GUNBLAÐINU hefur borist athugasemd vegna greinar í heilsuumfjöllun Daglegs lífs þar sem leitað er ráða við munnangri hjá Ólöfu Einarsdóttur grasalækni.

MOR GUNBLAÐINU hefur borist athugasemd vegna greinar í heilsuumfjöllun Daglegs lífs þar sem leitað er ráða við munnangri hjá Ólöfu Einarsdóttur grasalækni. Athugasemdin er hér birt:

"Í pistli í Morgunblaðinu á mánudag kom fram sú staðhæfing að munnangur tengdist flúor í tannkremi. Þetta er alls ekki rétt og geta þessi skilaboð haft skaðleg áhrif þar sem forvarnargildi flúors í tannkremi er löngu sannað.

Það hefur hins vegar verið sýnt fram á það í nokkrum rannsóknum að efnið natríum lauryl sulphate (SLS) sem stundum er notað í tannkrem hafi ertandi áhrif á slímhúð þeirra sem hætt er við munnangri. Rannsóknir sýna að sé þetta efni ekki í tannkreminu fá þeir einstaklingar sem það nota síður munnangur og áður. Til eru tannkrem sem ekki innihalda SLS, en þau innihalda samt sem áður flúor sem er nauðsynlegur til að varna tannskemmdum. Sumar rannsóknir sýna að það er hægt að hreinsa munninn með vatni til að losna við SLS en því miður skolar vatnið flúornum líka í burtu og er sú aðferð því ekki ráðleg.

Engin ástæða er til að skipta yfir í tannkrem án flúors vegna munnangurs en nær væri að athuga hvort tannkremið innihaldi efnið SLS. Að auki er fjöldi annarra orsakaþátta, m.a. járnskortur, sem þarf að athuga í sambandi við munnangur.

Sú staðhæfing að flúor í tannkremi tengist munnangri hefur því ekki við nein rök að styðjast og getur hreinlega haft skaðleg áhrif á munnheilsu þeirra sem fara eftir þeim ráðum að nota flúorsnauð tannkrem því það stóreykur hættu á tannskemmdum.

Dr. Helga Ágústsdóttir, tannlæknir,

dr. Peter Holbrook, tannlæknir og prófessor við tannlæknadeild HÍ.