Rialto Nomad Fabrik frá Frakklandi. Stjórnandi og danshöfundur: William Petit. Dansarar: Lisa Da Boit, Magali Jacquot, Sabine De Viviés, Natxo Montero, Yoan Mourles, Nicolas Reitz, William Petit. Ljósahönnun Thierry Lacroix.

Rialto Nomad Fabrik frá Frakklandi. Stjórnandi og danshöfundur: William Petit. Dansarar: Lisa Da Boit, Magali Jacquot, Sabine De Viviés, Natxo Montero, Yoan Mourles, Nicolas Reitz, William Petit. Ljósahönnun Thierry Lacroix. Hljóðhönnun: Sabine De Viviés. Tónlist: Ungversk þjóðlög, Goran Bregovic, Felix Lajko. Nasa, 27. maí kl. 20.00.

LÍKLEGA hefur sjaldan verið tekið betur á móti sýningargestum en gerðist við upphaf sýningar franska danshópsins Rialto Nomad Fabrik í Nasa sl. föstudagskvöld. Dansararnir sjö, kæddir venjulegum fötum, karlmenn í rauðum bolum eða skyrtum og svörtum buxum en stúlkurnar í kjólum eða pilsi og blússu, voru á ferli um salinn þegar gestir komu inn. Frá hátölurunum hljómaði lágvær tónlist. Danssvæðið var á miðju gólfi þar sem nokkrir stólar stóðu óreglulega. Áhorfendur sátu uppi á sviðinu, til hliðar og fyrir framan. Sýningin hófst mjög óformlega þegar dansararnir gengu um á meðal gesta og hver þeirra tók mjúklega í hönd eins gests og leiddi hann að einum af þeim stólum sem stóðu á dansgólfinu. Eftir það notaði hver dansari eigin leiðir til að nálgast gest sinn. Einn settist á gólfið og horfði aðdáunaraugum á sitjandi gestinn, annar lagði kinnina á fætur síns gests. Allir dansararnir kynntu sig hljóðlega og síðan voru hendur gestanna stroknar varlega, léttum fingrum rennt yfir kinn þeirra og fleira í þeim dúr. Eftir smástund kvaddi hver dansari sinn gest með innilegu faðmlagi, leiddi til sætis og valdi sér annan til að leiða að stólnum á gólfinu. Vissulega hefur þetta komið mismunandi við þá gesti sem urðu fyrir valinu en dansararnir sýndu svo mikla nærfærni og einlægni í þessu opnunaratriði að ég trúi ekki öðru en að þeim sem fengu þessa "meðferð" hafi hlýnað um hjartaræturnar.

Sýningin East Land / Nomade Cabaret er samin af stjórnanda flokksins, William Petit, sem einnig kemur fram sem dansari. Flokkurinn ferðast mikið, bæði á meðan á sköpunarferli nýrra verka stendur og við sýningar á þeim. Sífellt nýjar aðstæður og fersk áhrif hvetja til nýrrar sköpunar. Þetta verk varð til á ferðum um Austur-Evrópu og er innblásið af áhrifum þaðan, sérstaklega tónlistinni bæði gamalli og nýrri sem umlykur allt og leitaði útrásar hjá höfundi í löngun til að gleðja og deila með öðrum áhrifunum af tónlistinni, andrúmsloftinu og umhverfinu. Dansstíllinn er léttur með miklu flæði og "off-balance" hreyfingum. Það er næstum eins og dansararnir spinni hreyfingarnar upp jafnóðum en þær eru þó of hárnákvæmar, hraðar og kraftmiklar til að svo geti verið. Dansarar rúlluðu sér hratt eftir gólfinu á meðan aðrir flugu láréttir yfir þá, ein stúlkan dansaði uppi á palli við mennina sem voru fyrir neðan og ýmist gripu hana eða sendu yfir á næsta mann. Samtal og köll á milli dansara, ferðir þeirra á milli gestanna þar sem þeir jafnvel færðu fólki glös af rauðvíni, sífelld þátttaka einstaklinga úr áhorfendahópnum ásamt hlýju og einlægni einkenndu sýninguna. Þarna var engin hálfvelgja hvorki í faðmlögum né hreyfingum dansara. Svolítil ógn bættist þó við í dansi karlmannanna með hárbeittan hníf í hendi sem minnti á áhrif sígauna bæði á tónlist og dans í Austur Evrópu.

Að lokum pöruðu dansararnir sýningargesti saman og komu þeim út á gólfið og þar dönsuðu allir hver eftir sinni löngun við sterka hrynjandi tónlistarinnar. Þetta var skemmtileg og elskuleg sýning, óvenjuleg nú þegar samtíminn virðist kalla á að listin sé ögrandi og oftlega um það bil að ganga fram af sýningargestum. East Land / Nomade Cabaret er fyrsta sýningin af þremur í danshátíð Listahátíðar í Reykjavík og Trans Danse Europe verkefninu þar sem Íslenski dansflokkurinn er einn af átta þátttakendum frá jafnmörgum borgum í Evrópu. Verkefnið er styrkt af menningaráætlun Evrópusambandsins, Culture 2000.

Ingibjörg Björnsdóttir

Höf.: Ingibjörg Björnsdóttir