Guðmundur Sæmundsson fæddist í Litlagerði í Grýtubakkahreppi 7. ágúst 1932. Hann lést á heimili sínu í Álftamýri 25 í Reykjavík 23. maí síðastliðinn. Guðmundur var sonur hjónanna Sæmundar Reykjalín Guðmundssonar, f. 27. nóv. 1899, d. 2. apr. 1974, og Guðrúnar Jónsdóttur, f. 18. ág. 1902, d. 27. ág. 1993. Systkini Guðmundar eru Guðbjörg, f. 1929, d. 1986, Valgerður, f. 1931, d. 2000, Jón, f. 1934, Hallur Steingrímur, f. 1935, d. 1984, Anna, f. 1937, d. 1979, Sveinn, f. 1939, Tómas, f. 1943, Sigrún, f. 1944, og Baldur, f. 1946.

Hinn 14. apríl 1963 kvæntist Guðmundur Elínborgu Sveinbjarnardóttur, f. 10. júní 1931, dóttur hjónanna sr. Sveinbjarnar Högnasonar, f. 6. apr. 1898, d. 21. apr. 1966, og Þórhildar Þorsteinsdóttur, f. 20. jan. 1903, d. 21 des. 2003. Bjuggu þau lengst af á Breiðabólstað í Fljótshlíð. Guðmundur og Elínborg eignuðust tvö börn. Þau eru: 1) Sæmundur, f. 30. ág. 1968, maki Bryndís Th. Auðardóttir, f. 12. mars 1973, börn þeirra eru: Sólrún, f. 25. sept. 1996, Guðmundur Snær, f. 10. ág. 2000, og Hlynur, f. 20. mars 2003. 2) Þórhildur, f. 28. maí 1971, maki Ásberg K. Ingólfsson, f. 31. maí 1971, dætur þeirra eru: Elínborg Ása, f. 11. júní 2001, og Matthildur, f. 28. maí 2004.

Frá Litlagerði flutti fjölskylda Guðmundar að Lómatjörn og þaðan að Fagrabæ í Grýtubakkahreppi þegar Guðmundur var sex ára og bjuggu þau þar alla tíð síðan. Guðmundur gekk í Héraðsskólann á Laugum og vann ýmis störf til sjávar og sveita á sínum yngri árum. Hann var verkstjóri hjá Rafmagnsveitum ríkisins við raflínulagnir 1956-1966. Árin 1965-1968 var hann við nám í Tækniskóla Íslands og útskrifaðist svo sem tæknifræðingur frá Tækniskólanum í Horsens í Danmörku árið 1970 að lokinni tveggja ára dvöl þar. Þegar heim kom starfaði hann á Verkfræðistofu Gunnars Sigurðssonar til 1975 en þá hóf hann störf sem yfirverkstjóri við línubyggingar hjá Rafmagnsveitum ríkisins. Síðasta hluta starfsævinnar frá 1988-2003 starfaði Guðmundur hjá verktakafyrirtækinu Ístaki sem byggingastjóri, að undanskildu þriggja ára tímabili á árunum 1993-1996 þegar hann vann að gæðastjórnun fyrir nokkur verktakafyrirtæki.

Útför Guðmundar fer fram frá Háteigskirkju í dag og hefst afhöfnin klukkan 13.

Elsku pabbi, kveðjustundin kom allt of fljótt. Við söknum þín sárt og þökkum fyrir að hafa átt einmitt þig fyrir föður.

Margs er að minnast,

margt er hér að þakka.

Guði sé lof fyrir liðna tíð.

Margs er að minnast,

margs er að sakna.

Guð þerri tregatárin stríð.

(V. Briem.)

Sæmundur, Þórhildur og fjölskyldur.

Elsku Guðmundur.

Það var fyrir ári að Þórhildur hringdi í þig og sagði þér frá því að yngri dóttir okkar væri fædd. Þú varst austur í Fljótshlíð að girða svæðið af umhverfis húsið okkar með aðstoð tengdafólks þíns. Þú varst glaður og stoltur við að heyra fréttirnar.

Í Fljótshlíðinni vorum við búin að koma okkur notalega fyrir í nágrenni við tengdafólk þitt á stað þar sem útsýni er einstakt. Framundan hjá þér var hins vegar mikil vinna því þú hafðir hug á að fara í umfangsmiklar framkvæmdir m.a. við að gróðursetja, smíða pall við húsið og vinna ýmis verk jafnt utan dyra sem innan. Þetta hafðir þú ætlað að gera ásamt okkur á næstu árum því þú vildir ekki vera aðgerðalaus eftir að vera hættur að vinna. Þú varst hraustur og treystir þér vel í átökin sem biðu okkar.

Sumarið leið og krafturinn í þér dreif okkur áfram þannig að við komum miklu í verk þó að margt sé enn eftir. Um haustið fóruð þið Ebba í velheppnaða ferð til Nýja-Sjálands og það var skömmu eftir að heim var komið að þú fórst að kenna þér meins. Það voru önnur átök og ófyrirséð sem biðu þín þegar þarna var komið. Baráttan við krabbamein var framundan og þá var gott að hafa Ebbu sér við hlið.

Þó að ferðir okkar í Fljóthlíðina hafi ekki verið margar eftir að þetta varð ljóst þá eru minningarnar um dvöl okkar þar um páskana og hvítasunnuna dýrmætar. Þú varst ánægður að komast í sveitina en þér fannst hins vegar greinilega miður að hafa ekki lengur krafta til að taka til hendinni. Við vorum þó enn að leggja á ráðin með næstu verkefni sem hrinda átti í framkvæmd og var áhugi þinn á þeim mikill. Um hvítasunnuhelgina fór Matthildur okkar að taka sín fyrstu skref en á sama tíma varst þú að labba með okkur þín síðustu.

Ég vil að lokum þakka þér fyrir allt sem gafst mér á þessum tólf árum sem við höfum þekkst en þessi allt of stuttu og góðu kynni okkar eru mér dýrmætt veganesti inn í framtíðina.

Ásberg.

Við minnumst nú með fátæklegum orðum samferðamanns okkar á lífsleiðinni í meira en fjörutíu ár, Guðmundar Sæmundssonar sem lést 23. maí sl. Kynni okkar hófust þegar þau Ebba fóru að draga sig saman og úr varð farsælt hjónaband. Þeim varð tveggja mannvænlegra barna auðið sem hafa komið sér vel fyrir og nú eru barnabörnin orðin fimm og hafa veitt þeim ómælda ánægju á efri árum.

Við ævilok Guðmundar eru okkur efst í huga sorg og söknuður eftir góðan dreng og traustan, sem ævinlega reyndist fjölskyldu sinni og okkur tengdafólki sínu sem best má verða. Hjá þeim hjónum áttu börn okkar vísan samastað þegar á þurti að halda og viljum við nú þakka það.

Þegar Ebba og Guðmundur hófu búskap vann hann við línulagnir hjá Rafmagnsveitum ríkisins víða um landið. Voru þá oft langar fjarvistir frá heimilinu vegna starfsins og var kona hans oft með honum í fríum og ferðuðust þau víða um byggðir og óbyggðir. Víst er að Guðmundur þekkti landið okkar vel og átti gott safn mynda sem gaman var að skoða. Síðar hóf Guðmundur nám við Tækniskóla Íslands og lauk námi í Danmörku. Eftir það vann hann hjá Rafmagnsveitunum og síðar lengi hjá Ístaki þar til hann hætti störfum.

Guðmundur var lengst af heilsuhraustur og vel á sig kominn.Hann stundaði sundlaugar og fór í gönguferðir, oft langar, með fjölskyldunni og hafði gaman af að fara á gæsaveiðar á haustin og þá oftast í Fljótshlíðinni. Þar voru þau hjón ásamt dóttur og tengdasyni nýlega búin að koma sér upp sumarbústað og hugðu gott til að rækta þar grænan og gróinn sælureit á örfoka mel, en þau höfðu mikla gleði af trjárækt og og að annast sinn gróður. Nú í vetur greindist Guðmundur með þann erfiða sjúkdóm sem dró hann til dauða á fáum mánuðum. Kona hans og börn stóðu sem klettar við hlið hans þar til yfir lauk. þau hafa mest misst en ljúfar minningar standa eftir.

Við biðjum guð að græða sárin og blessa þau öll.

Ásta og Garðar.

.

Með djúpum söknuði kveðjum við látinn heiðursmann sem skyndilega er hrifinn burt úr hópi fjölskyldu og ástvina eftir fárra mánaða erfiða baráttu við illvígan sjúkdóm sem engu eirir.

Guðmundur mágur minn var hraustmenni og stóð meðan stætt var. Um hinstu baráttu hans má hafa líkinguna um hinn sterka stofn sem "bognar aldrei, brotnar í - bylnum stóra seinast". Um hvítasunnuna, aðeins viku fyrir andlát sitt, kom hann með fjölskyldu sinni austur í Fljótshlíð og ók þá sjálfur bifreið sinni, þótt helsjúkur væri.

Guðmundur ólst upp við bústörf og sjómennsku á æskustöðvum sínum við Eyjafjörð og eftir nám í Laugaskóla stundaði hann sjómennsku á togurum um nokkurt skeið.

Hann réðist síðan til Rafmagnsveitna ríkisins og vann við línulagnir víða um land. Var honum þar falin verkstjórn og treyst fyrir vandasömum verkefnum, þar sem einatt var unnið við erfið skilyrði, miklar vegalengdir og vegleysur um fjöll og firnindi. Kom sér þar vel frábær dugnaður hans og útsjónarsemi, ásamt trúmennsku og samviskusemi í hverju því sem hann tók að sér.

Rúmlega þrítug að aldri stofnuðu þau Guðmundur og Elínborg til síns farsæla hjónabands sem þeim auðnaðist að njóta í rúm 40 ár. Heimilishamingja og barnalán eru þær dýrmætustu gjafir sem okkur eru af Guði gefnar. Þeim fæddust tvö börn, sonur og dóttir, sem bæði hafa skapað sér farsælan feril í námi og starfi og eignast eigin fjölskyldur. Eru barnabörnin nú orðin 5 talsins og hafa verið sannkallaðir "augasteinar" afa síns og ömmu frá fyrsta degi og gleðigjafar bæði í sæld og þraut. Eitt af aðalsmerkjum Guðmundar var vökul umhyggja hans fyrir ást- vinum sínum og engum duldist að þar fór stoltur fjölskyldufaðir sem hann var.

Þrjátíu og þriggja ára tók hann þá ákvörðun að setjast aftur á skólabekk, fyrst í Tækniskóla Íslands, en hélt síðan með konu og tveggja mánaða son til Horsens í Danmörku þar sem hann útskrifaðist sem tæknifræðingur eftir tveggja ára nám. Átti hann síðan farsælan feril í starfsgrein sinni þar sem hann vann m.a. hjá RARIK, Ístaki hf. og fleiri fyrirtækjum. Hjá Guðmundi og fjölskyldu hans átti fjölskylda mín jafnan víst athvarf þegar komið var til höfuðborgarinnar, ekki síst þegar mest lá við og veikindi steðjuðu að. Og minnistætt er dóttur minni, nöfnu Elínborgar systur minnar, þegar hún 5 ára að aldri var 17. júní í miðborg Reykjavíkur og sá vel yfir iðandi mannfjöldann þegar Guðmundur lyfti henni "á háhest" og gekk með hana um hátíðarsvæðið. Það var ekki ónýtt að eiga að slíkan "frænda" í fjölskyldunni. Það var heldur ekki fátítt að Guðmundur og Elínborg birtust óvænt í sveitinni þegar heyskapartíð hafði verið óhagstæð og bjarga þurfti heyjum í hlöðu - þá var heldur munur að mannsliðinu - er alveg óhætt að segja. Og þegar góðar stundir gáfust til fjöl- skylduferða um afrétti og öræfi vakti það öryggiskennd að hafa Guðmund með í ferðum, margreyndan og vel búinn til að mæta því sem að höndum bar.

Þau Guðmundur og Elínborg höfðu fyrir hálfu öðru ári komið sér upp vistlegum sumarbústað í Fljótshlíðinni og voru þar síðan tíðir gestir ásamt fjölskyldu sinni.

Þó svo hafi nú skipast að hann fái þess ekki notið lengur, verður þar áfram griðastaður góðra minninga og þakklætis sem fjölskylda og ástvinir geyma í hug og hjarta.

Fyrir mína hönd og fjölskyldu minnar eru þakkir tjáðar fyrir löng og dýrmæt kynni við látinn heiðursmann - og Elínborgu systur minni og fjölskyldu hennar biðjum við styrks og huggunar frá góðum Guði í þeirra mikla missi og sáru sorg.

Blessuð sé minning Guðmundar Sæmundssonar.

"Þar sem góðir menn fara eru Guðs vegir".

Sváfnir Sveinbjarnarson.

Það er með virðingu og miklum söknuði sem við kveðjum Guðmund Sæmundsson tæknifræðing í dag. Við minnumst ótal ánægjustunda með þeim hjónum Guðmundi og Elínborgu og fjölskyldu þeirra. Við minnumst gestrisni á heimili þeirra í Álftamýri svo og allra jólaboðanna. Guðmundur var mikill öðlingur, traustur, hógvær og hjálpsamur. Hann hafði þægilega nærveru, sagði skemmtilega frá og var vel lesinn um margvísleg málefni. Hann þekkti til að mynda landið okkar vel og hafði ánægju af útiveru og ferðalögum jafnt innanlands sem utan. Nú síðast í haust ferðuðust þau hjónin alla leið til Nýja-Sjálands. En skjótt skipast veður í lofti. Nú er komin kveðjustund svo allt of fljótt. Við þökkum af alhug vináttu hans, hlýju og ljúfmennsku alla tíð. Eiginkonu hans Elínborgu, börnum hans Þórhildi og Sæmundi, tengdabörnum og barnabörnum sendum við okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Blessuð sé minning Guðmundar Sæmundssonar.

Fjölskyldan frá Lambey.