Hjóla til Ísafjarðar | Tveir karlmenn, Sveinn Guðmundsson og Guðbjartur Sturluson, eru á leiðinni til Ísafjarðar, hjólandi. Þeir skrifa ferðasöguna á netið, www.rekis.blogspot.com.

Hjóla til Ísafjarðar | Tveir karlmenn, Sveinn Guðmundsson og Guðbjartur Sturluson, eru á leiðinni til Ísafjarðar, hjólandi. Þeir skrifa ferðasöguna á netið, www.rekis.blogspot.com.

Þeir félagar lögðu af stað á mánudagsmorgunn og fara vestur sem leið liggur um Borgarfjörð, Bröttubrekku, Dali, Þorskafjarðarheiði og Ísafjarðardjúp. Ætla sér að stoppa á Ísafirði og Flateyri áður en þeir taka áætlunarflugið til baka til Reykjavíkur. Þeir hafa átta daga til að ljúka ferðinni en segja að veður ráði hvað þeir verði lengi að hjóla vestur.

Síðasta færslan á síðunni var þegar þeir voru að leggja af stað frá Laugum í Sælingsdal og var næsti áfangastaður Bjarkalundur. Þeir láta þess getið að mikil umferð hafi verið í upphafi ferðarinnar "og hefur maður það á tilfinningunni að ökumenn virði rollur meira en hjólareiðamenn. Aksturslagið er þannig. Maður hendist til í frákastinu frá bílunum og sveiflast svo inn á veginn í soginu fyrir aftan bílinn. Við erum þess vegna eins og dauðadrukknir á hjólunum þegar stórir bílar æða framhjá, stundum í innan við eins metra fjarlægð. Við höfum þess vegna langt bil á milli okkar svo það verði bara annar okkar sem verður keyrður niður," skrifar Sveinn á síðuna.