Svarthöfði ber höfuð og herðar yfir alla um þessar mundir.
Svarthöfði ber höfuð og herðar yfir alla um þessar mundir.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Skarphéðin Guðmundsson skarpi@mbl.is ÞRÁTT fyrir að sumarið hafi loksins sagt til sín um helgina síðustu og veðurblíðan leikið við flesta landsmenn völdu margir hverjir að verja tíma sínum í myrkvuðum bíósalnum.
Eftir Skarphéðin Guðmundsson skarpi@mbl.is

ÞRÁTT fyrir að sumarið hafi loksins sagt til sín um helgina síðustu og veðurblíðan leikið við flesta landsmenn völdu margir hverjir að verja tíma sínum í myrkvuðum bíósalnum. Bíóaðsókn var með besta móti enda eru sumarmyndirnar rækilega farnar að láta á sér kræla. Lokamyndin í Stjörnustríðsbálknum fékk enn geysimikla aðsókn sína aðra sýningarhelgi og nýju myndirnar gengu einnig vel.

Alls sáu rúmlega 5.700 manns Hefnd Sithsins um helgina sem þýðir að á fyrstu tíu sýningardögunum hafa tæplega 25 þúsund manns séð myndina. Segir Guðmundur Breiðfjörð hjá Senu það merkilega góðan árangur miðað við góða veðrið - sem er jafnan helsti keppinautur bíóhúsanna.

Rúmlega 2.600 manns sáu gamanmyndina Monster-in-Law með Jane Fonda og Jennifer Lopez og litlu færri sáu hrollvekjuna House of Wax með Paris Hilton í sínu fyrsta stóra hlutverki.

Íslensk-danska myndin Voksne mennesker var frumsýnd fyrir helgi og gekk ágætlega, Rétt tæplega 500 manns sáu Voksne mennesker yfir helgina en líta verður til þess að íslenskar myndir fara jafnan hægar af stað en stóru Hollywood-myndirnar en sækja svo í sig veðrið eftir því sem þær eru lengur í bíó. Fátt bendir til annars en að svo verði einnig með þessa nýjustu mynd Dags Kára enda má gera ráð fyrir að hún eigi eftir að spyrjast vel út. Hún hefur í öllu falli fengið fína dóma; fékk m.a. fjórar stjörnur af fimm hjá Hildi Loftsdóttur, gagnrýnanda Morgunblaðsins.

Þá var og frumsýnd fyrir helgi hin margrómaða breska glæpamynd Layer Cake með Daniel Craig.

Nokkrar myndir eru að ná stórum áfanga á næstu dögum. Teiknimyndin Vélmenni er við það að fara yfir 20 þúsund gesti, Hitchhiker's Guide To The Galaxy nálgast þann áfanga einnig, er nú í um 18 þúsund gestum, og Svampur Sveinsson verður kominn í 15 þúsund gesti fyrr en varir.

Klónunum ógnað

Vestanhafs hélt Stjörnustríð einnig velli, tók um síðustu helgi, sem taldi fjóra daga, rúmlega 70 milljónir dala, eða sem nemur 4,5 milljörðum króna. Í heild eru tekjur af myndinni því rúmlega 270 milljónir dala og á góðri leið með að slá við síðustu myndinni, Attack of the Clones , sem endaði í 310 milljónum dala.

Hefnd Sithsins tókst að standast samkeppni frá tveimur stórum myndum sem frumsýndar voru fyrir helgi. Tölvuteiknimyndin Madagascar , frá sömu og gerðu Shrek -myndirnar, náði öðru sæti listans með 61 milljón dala (3,9 milljarðar króna) og The Longest Yard með Adam Sandler því þriðja með 60 milljónir dala (3,8 milljarðar króna). Sú mynd er endurgerð samnefndrar ruðningsmyndar með Burt Reynolds frá 1974 en fyrir nokkrum árum var gerð bresk útgáfa af sömu mynd með Vinnie Jones sem hét Mean Machine .