— Morgunblaðið/Þorkell
ÚTGERÐARFÉLAGIÐ Sigurbjörn ehf. í Grímsey hefur keypt netabátinn Hring GK af Aðalsteini Einarssyni, útgerðarmanni í Hafnarfirði. Hringur GK, sem er um 73 brúttólestir, verður stærsti bátur sem nokkru sinni hefur verið gerður út frá Grímsey.

ÚTGERÐARFÉLAGIÐ Sigurbjörn ehf. í Grímsey hefur keypt netabátinn Hring GK af Aðalsteini Einarssyni, útgerðarmanni í Hafnarfirði. Hringur GK, sem er um 73 brúttólestir, verður stærsti bátur sem nokkru sinni hefur verið gerður út frá Grímsey. Eigendur Sigurbjarnar ehf., þeir Garðar Ólason og Gylfi Gunnarsson, gera út fimm línubáta, þ.á m. netabátinn Þorleif EA sem gerður er út í aflamarkskerfi en hinir fjórir eru gerðir út í krókaaflamarkskerfi. Að sögn Garðars hyggjast þeir félagar selja Þorleif EA og færa veiðiheimildirnar á nýja bátinn. Væntanlega verða einnig seldir einhverjir krókaaflamarksbátar og keyptar veiðiheimildir. "Synir okkar eru að koma meira inn í útgerðina með okkur og því var kjörið að stækka við sig," segir Garðar.

Aðalsteinn Einarsson, skipstjóri og útgerðarmaður, segist síður en svo vera hættur í útgerð, þó svo hann hafi selt Hring GK. Hann segist hafa haldið eftir veiðiheimildunum og sé nú að horfa í kringum sig eftir öðrum bát.