Ísgerður Elfa Gunnarsdóttir og Ingibjörg Reynisdóttir leika aðalhlutverkin í leikritinu Móðir mín dóttir mín.
Ísgerður Elfa Gunnarsdóttir og Ingibjörg Reynisdóttir leika aðalhlutverkin í leikritinu Móðir mín dóttir mín. — Morgunblaðið/Jón Svavarsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Völu Ósk Bergsveinsdóttur valaosk@mbl.is FRUMSÝNING leikritsins Móðir mín dóttir mín eftir Ingibjörgu Reynisdóttur verður í Hafnarfjarðarleikhúsinu í kvöld. Leikritið er opnunarverk lista- og menningarhátíðarinnar Bjartir dagar í Hafnarfirði.
Eftir Völu Ósk Bergsveinsdóttur valaosk@mbl.is

FRUMSÝNING leikritsins Móðir mín dóttir mín eftir Ingibjörgu Reynisdóttur verður í Hafnarfjarðarleikhúsinu í kvöld. Leikritið er opnunarverk lista- og menningarhátíðarinnar Bjartir dagar í Hafnarfirði.

Í leikritinu er skyggnst inn í líf mæðgna þar sem alkóhólismi móðurinnar hefur heltekið líf þeirra. Ástandið er orðið það slæmt að barnaverndarnefndin fylgist með heimilislífinu. Móðirin afneitar vandamálunum og dóttirin er búin að fá nóg en á erfitt með að berjast gegn meðvirkninni. Spurningin hvort betra sé fyrir barn alkóhólista að vera hjá foreldrum sínum eða vera sett í fóstur vaknar því báðir kostir eru slæmir.

Fékk hugmyndina að verkinu á tónleikum

Leikritinu er leikstýrt af Elinu McKay en með hlutverk fara Ingibjörg Reynisdóttir, höfundur verksins, og Ísgerður Elfa Gunnarsdóttir.

Ingibjörg fékk hugmyndina að verkinu er hún var á tónleikum og hlustaði á dramatískar og áhrifamiklar vögguvísur. "Mér datt í hug að gaman væri að blanda saman fallegri tónlist og átakanlegu viðfangsefni," segir Ingibjörg. "Þegar ég settist síðan niður og byrjaði að skrifa kom hugmyndin að sambandi mæðgna sem getur verið flókið eitt og sér."

Á æfingatímanum tók verkið miklum breytingum, það var stytt um helming og söngtextum fækkað. Ingibjörg segir verkið hafa verið rifið niður og síðan byggt upp að nýju. Mikið var unnið með spuna og allir sem taka þátt í verkinu komu að uppbyggingunni.

Leikstjórinn Eline McKay segir mestu áskorunina vera að koma efninu til áhorfenda sem innihaldsríkri sögu en ekki predikun um alkóhólisma og niðurstaðan er svolítið kaldhæðnisleg.

Ekki fannst Elinu erfitt að leikstýra höfundinum í leikritinu, samstarfið var í alla staði mjög gott. "Þar sem Ingibjörg leikur aðalhlutverkið var það alltaf skýrt af minni hálfu að hún yrði að skilja höfundinn eftir heima. Nú dáist ég að því að hún skuli hafa leyft okkur að hnoða þetta svona saman."

Töluverð rannsóknavinna

Aðstandendur sýningarinnar unnu töluverða rannsóknarvinnu fyrir leikverkið og fengu meðal annars sálfræðing, sem unnið hefur með alkóhólistum og aðstandendum þeirra, til að lesa handritið yfir og koma með athugasemdir.

Ragnheiður Gröndal sér um tónlistina í sýningunni

Söngkonan Ragnheiður Gröndal sér um tónlistarflutning og hefur hún unnið þrjú frumsamin lög upp úr þeim söngtextum sem Ingibjörg skrifaði en Bragi Valdimar Skúlason hjálpaði til við söngtextaskrifin.

Lista- og menningarhátíðin Bjartir dagar í Hafnarfirði stendur yfir til 16. júní og verða sýningar á Móðir mín dóttir mín sex talsins.

Móðir mín dóttir mín

Höfundur:

Ingibjörg

Reynisdóttir

Leikstjóri:

Eline McKay

Leikendur:

Ingibjörg

Reynisdóttir og

Ísgerður Elfa Gunnarsdóttir

Lýsing:

Garðar Borgþórsson

Tónlist:

Ragnheiður Gröndal