FULLTRÚAR sveitarstjórna í stórum landbúnaðarhéruðum eru á misjafnri skoðun um ákvörðun Guðna Ágústssonar um að velja Landbúnaðarstofnun stað á Selfossi.

FULLTRÚAR sveitarstjórna í stórum landbúnaðarhéruðum eru á misjafnri skoðun um ákvörðun Guðna Ágústssonar um að velja Landbúnaðarstofnun stað á Selfossi. Helga Halldórsdóttir, forseti bæjarstjórnar Borgarbyggðar, segir ekki óeðlilegt að Selfoss skyldi verða fyrir valinu þótt hinu sé ekki að neita að Landbúnaðarstofnun hefði vel átt heima í Borgarnesi. "Hér hefði getað orðið fræðileg tenging á milli Landbúnaðarstofnunar og Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri og Viðskiptaháskólans á Bifröst. Aðrir þættir eru sambærilegir við Selfoss. En ákvörðunin kom ekki á óvart og ég er ekki óánægð með val ráðherra."

Gísli Gunnarsson forseti bæjarstjórnar í Sveitarfélaginu Skagafirði telur að vel hefði farið á því að velja Landbúnaðarstofnun stað í Skagafirði þar sem stofnunin hefði notið góðs af tengslum við Hólaskóla sem hefur verið að eflast mikið.

En hann nefnir líka mikilvægi tengsla milli Landbúnaðarstofnunar og afurðastöðva í héraði. "Hér á Norðurlandi og Sauðárkróki er mjög stórt sláturhús auk mjólkurafurðastöðvar. Að því frátöldu er mjög blómlegur landbúnaðar á Norðurlandi. En út frá sjónarmiðum byggðastefnu finnst okkur á Norðvesturlandi að við höfum orðið útundan. Það hefði því verið kjörið tækifæri til að rétta okkar hlut aðeins með því að velja Landbúnaðarstofnun stað hér. Á Selfossi er þegar mikil þensla og allir vita hvað er að gerast á Austurlandi og Suðvesturhorninu. Það má einnig nefna að í Skagafirði hefur átt sér stað uppbygging Hestamiðstöðvar Íslands."

Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri á Akureyri óskar Selfyssingum til hamingju með væntanlega Landbúnaðarstofnun þótt hann segist ekki vita svo gjörla hvaða forsendur landbúnaðarráðherra lagði til grundvallar vali sínu. "En ég treysti hans vali. Ég veit þó ekki hvaða sveitarstjórnarmaður myndi ekki vilja að stofnun sem þessi kæmi í sitt sveitarfélag."