Dominique de Villepin kemur af fundi Frakklandsforseta í gær.
Dominique de Villepin kemur af fundi Frakklandsforseta í gær. — Reuters
Eftir Ásgeir Sverrisson asv@mbl.is Utan Frakklands er Dominique de Villepin, sem skipaður var forsætisráðherra í gær, trúlega einkum þekktur fyrir kröftuga fordæmingu á stefnu Bandaríkjastjórnar í aðdraganda innrásarinnar í Írak.
Eftir Ásgeir Sverrisson asv@mbl.is

Utan Frakklands er Dominique de Villepin, sem skipaður var forsætisráðherra í gær, trúlega einkum þekktur fyrir kröftuga fordæmingu á stefnu Bandaríkjastjórnar í aðdraganda innrásarinnar í Írak. Á ferli sínum sem telst um flest glæstur hefur De Villepin hins vegar aldrei verið kjörinn til trúnaðarstarfa fyrir almenning. Hann er um flest fulltrúi þeirrar pólitísku yfirstéttar sem margir telja að Frakkar hafi risið gegn á sunnudag er þeir felldu stjórnarskrársáttmála Evrópusambandsins í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Í febrúarmánuði árið 2003 er De Villepin var utanríkisráðherra Frakklands flutti hann ræðu á fundi öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna sem margir telja að komast muni á spjöld sögunnar. Í ræðu þessari varaði hann við því að Bandaríkjamenn færu með hernaði gegn stjórn Saddams Hússeins Íraksforseta. Ræðan þótti mögnuð og sá fáheyrði atburður gerðist er ráðherrann hafði lokið máli sínu að viðstaddir klöppuðu honum lof í lófa.

Dyggur þjónn Chiracs

Dominque de Villepin þykir glæsilegur á velli og er annálað gáfumenni. Sagt hefur verið að hann sé hinn fullkomni diplómat en frama sinn á sviði stjórnmálanna á hann að þakka Jacques Chirac Frakklandsforseta. De Villepin, sem er 51 árs, hefur verið dyggur þjónn forsetans í tíu ár. Samband þeirra er sagt einstakt og því er haldið fram að forsetinn umgangist De Villepin sem hann væri sonur hans. Nú þegar Chirac hefur orðið fyrir svo þungu höggi að vandséð er að hann nái fyrri styrk leitar forsetinn til þeirra sem næst honum standa. Í Frakklandi halda margir því fram að Chirac, sem er 72 ára gamall, sé heldur einmana. Líklega má þó færa rök fyrir því að það hlutskipti fylgi oftar en ekki svo háu embætti.

Forsetinn hefur kosið að fórna Jean-Pierre Raffarin, sem sagði af sér forsætisráðherraembættinu í gær. Hrakleg útreið frönsku stjórnmálastéttarinnar í kosningunum á sunnudag hefur m.a. verið skýrð með tilvísun til óvinsælda Raffarins. Sú skýring hentar forsetanum. Von Chiracs er sú að De Villepin geti aukið vinsældir ríkisstjórnarinnar og þannig jafnvel skapað forsendur fyrir því að forsetanum auðnist að bjóða sig fram á ný í kosningunum eftir tvö ár.

Dominique Galouzeau de Villepin fæddist í Marokkó í nóvembermánuði árið 1953. Hann ólst upp í Venesúela og í New York. Hann stundaði nám við ENA-skólann í París ("Ecole Nationale d'Administration"), helstu menntastofnun frönsku valdastéttarinnar, og hóf síðan störf í utanríkisráðuneytinu. Hann var sendimaður Frakka í Washington og á Indlandi en árið 1993 var hann skipaður aðstoðarmaður Alan Juppe sem þá var utanríkisráðherra. Er Jacques Chirac var kjörinn forseti Frakklands í maímánuði 1995 gerðist De Villepin framkvæmdastjóri forsetaembættisins. Þar með var hann kominn í hóp nánustu aðstoðarmanna og ráðgjafa Chiracs.

Afleikurinn 1997

Fullyrt er að De Villepin hafi öðrum fremur borið ábyrgð á stærstu pólitísku mistökum Chiracs fram til þessa. Árið 1997 ákvað forsetinn að leysa upp þing og boða til kosninga. Sósíalistar fóru með sigur af hólmi og við tóku fimm erfið ár þar sem forsetinn neyddist til að starfa með vinstri mönnum en þá stöðu í stjórnmálunum nefna Frakkar "cohabitation".

Bernadette, eiginkona Frakklandsforseta, mun þá hafa tekið að kalla De Villepin "Neró" með tilvísun til þess að hann sæti hinn rólegasti í höll forsetans á meðan eldarnir loguðu allt um kring. Chirac fyrirgaf hins vegar undirsáta sínum rangt stöðumat. Og er Chirac náði endurkjöri árið 2002 gerði hann þennan pólitíska kjörson sinn að utanríkisráðherra.

Í marsmánuði 2004 tók hann við innanríkisráðuneytinu og hóf þá eins konar "herför" gegn starfsemi samtaka róttækra íslamista í Frakklandi. Eftirlit með slíkum hópum hefur verið hert í nafni almannahagsmuna og þjóðaröryggis og helstu trúarleiðtogum múslíma hefur verið gert að sækja námskeið um franska tungu, sögu, lagahefð og þjóðfélagsgerð. Hann hefur og beitt sér fyrir hertum reglum varðandi landvistarleyfi útlendinga sem mælst hafa vel fyrir.

Dominique de Villepin hefur fengist við ljóðagerð og ævisaga Napóleons sem hann ritaði ku þykja prýðileg. Þá hefur hann ritað bækur og ritgerðir m.a. um franska menningu og samtíma.

Vændur um hroka og nýtur lítils stuðnings innan UMP

Hann nýtur víða mikils álits en þeir eru einnig margir sem hafa á honum litlar mætur. Mörgum þykir hann hrokafullur í framgöngu; eins konar holdtekja frönsku valdastéttarinnar og þá einkum æðri embættismanna sem telji lögmæti valds og ríkis birtast í persónu sinni. Vitað er að hann á ekki mikinn stuðning innan UMP, stjórnarflokks Chiracs. Og hið sama gildir vafalaust um þingheim.

Hæfileikar Dominique de Villepin verða vart í efa dregnir en athygli vekur þegar ferill hans er skoðaður að hann hefur aldrei verið kjörinn til þeirra embætta sem hann hefur hlotið. Hann hefur aldrei boðið sig fram og alþýða manna hefur aldrei tekið afstöðu til framgöngu hans í kosningum. Hinn nýi forsætisráðherra Frakka hefur jafnan verið tilnefndur og skipaður; hann hefur ávallt sótt upphafningu sína til annarra valdamanna og sérstaklega til forsetans, lærimeistara síns.

Sú ákvörðun Chiracs að skipa hann hlýtur því að vekja athygli og kalla fram spurningar um stöðumat forsetans. Vitað var að Chirac gæti vart hugsað sér að skipa Nicolas Sarkozy, formann Lýðfylkingarinnar (UMP), forsætisráðherra enda er þar öflugur keppinautur á ferð. Í því ljósi kemur ákvörðun forsetans ekki á óvart.

En staðan í frönskum stjórnmálum tók undraverðum breytingum á sunnudag.

Ginnungagap hefur verið staðfest á milli alþýðu manna og stjórnmálastéttarinnar. Og sú skoðun er nú viðtekin að mikilvægasta pólitíska verkefnið í Frakklandi, og raunar víða um álfu, sé að leita leiða til að brúa þetta bil. Dominique de Villepin hefur nú verið tilnefndur til að fara fyrir ríkisstjórn sem falið verður þetta verkefni um leið og honum er ætlað verja meistara sinn fyrir frekari áföllum.