VEIÐIGJALDIÐ svokallaða hefur meiri áhrif á afkomu minni sjávarútvegsfyrirtækja en þeirra stærri. Þetta er niðurstaða lokaverkefnis Karenar Olsen við sjávarútvegsbraut Háskólans á Akureyri.

VEIÐIGJALDIÐ svokallaða hefur meiri áhrif á afkomu minni sjávarútvegsfyrirtækja en þeirra stærri. Þetta er niðurstaða lokaverkefnis Karenar Olsen við sjávarútvegsbraut Háskólans á Akureyri. Niðurstöðurnar verða ræddar á málþingi um stjórnvaldsaðgerðir í fiskveiðistjórnun og áhrif þeirra á rekstur og afkomu sjávarútvegsfyrirtækja, sem haldið verður í Vestmannaeyjum í dag.

Karen gerði í verkefni sínu rannsókn á áhrifum veiðigjaldsins á 17 misstór sjávarútvegsfyrirtæki. Kemur fram að veiðigjaldið sé mikil kostnaðaraukning fyrir íslenskar útgerðir, um sé að ræða beinan kostnað sem bætist við annan kostnað sem fyrir var. Fyrirtækin 17 virðast öll greiða frekar hátt hlutfall af arði sínum í veiðigjald eða um 5,26% að meðaltali þegar greiddar eru 1,99 krónur á hvert úthlutað þorskígildiskíló. Ef veiðigjaldið væri hins vegar komið að fullu til framkvæmdar eins og stefnt er að árið 2009 væru greiddar 3,14 krónur á hvert kíló og þá borguðu fyrirtækin 8,3% af arði sínum í veiðigjald.

Niðurstaða Karenar er að veiðigjaldið kemur verr niður á þeim fyrirtækjum sem hafa yfir minni aflaheimildum að ráða. Það er vegna þess að þær skila minni hagnaði. Útgerðir með minna en 1.000 tonna kvóta greiða um 9,77% af arði sínum þegar veiðigjaldið verður að fullu komið til framkvæmdar en útgerðir með meira en 1.000 tonna kvóta 6,99%. Telur Karen að veiðigjaldið gæti leitt til þess að útgerðarmenn færu að veigra sér við að sýna mikinn arð vegna veiðigjaldsins. Þar sem veiðigjaldið sé reiknað út frá aflaverðmæti að frádregnum útgerðarkostnaði, gætu útgerðir reynt að fela hagnað og leggja meiri áherslu á að yfirfæra hluti á annan rekstrarkostnað. Það sé hins vegar oft erfitt fyrir stærri útgerðir sem eru hlutafélög, vegna þrýstings frá hluthöfum um að fyrirtækið skili arði.