— AP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring | Hollendingar greiða í dag atkvæði um stjórnarskrá Evrópusambandsins. Davíð Logi Sigurðsson segir líklegt að þeir fylgi fordæmi Frakka sem á sunnudag felldu stjórnarskrána í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Það bendir flest til þess að íbúar Hollands muni veita stjórnarskrá Evrópusambandsins náðarhöggið en hún verður lögð í dóm þarlendra kjósenda í dag, miðvikudag. Á lokadegi kosningabaráttunnar í gær reyndu hollenskir ráðamenn hvað þeir gátu til að fá fólk til að greiða stjórnarskránni atkvæði sitt en skoðanakannanir benda hins vegar til þess að sú ákvörðun franskra kjósenda, að hafna henni í atkvæðagreiðslu á sunnudag, hafi blásið vindi í segl andstæðinga stjórnarskrárinnar í Hollandi.

Nýjustu skoðanakannanir í Hollandi sýna að allt að 60% hollenskra kjósenda ætla að segja nei við stjórnarskránni er þeir mæta á kjörstað í dag. Önnur könnun, sem framkvæmd var af Maurice de Hond-stofnuninni fyrir hollenska sjónvarpsstöð, og náði til um tvö þúsund þátttakenda, sýndi að 59% hugðust segja nei en aðeins 41% já.

"Áttatíu prósent Hollendinga styðja ESB en margir telja hins vegar að þar hafi menn farið of geyst og að ekki sé hægt að treysta stjórnmálamönnunum sem vilja fá stjórnarskrána samþykkta," sagði de Hond í samtali við AFP .

Hættir Blair við að halda þjóðaratkvæðagreiðslu?

Leiki einhver vafi á því að stjórnarskráin sé úr sögunni ef Hollendingar hafna henni líkt og Frakkar, þá verður sá vafi úr sögunni ef fréttir í breskum fjölmiðlum í gær reynast réttar. Þar kom semsé fram að Tony Blair forsætisráðherra muni hætta við áform um að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrána í Bretlandi ef hún er felld í Hollandi.

Breski forsætisráðherrann hefur áður lýst því yfir að breskur almenningur fái tækifæri til að segja skoðun sína á stjórnarskránni í þjóðaratkvæðagreiðslu einhvern tímann á næsta ári. Nú virðist hins vegar sem Blair hyggist afskrifa stjórnarskrána ef úrslitin verða á þann veg í Hollandi, sem allt bendir til. Þetta væri þá síðasti naglinn í líkkistu plaggsins.

Raunar telja margir að eftir atkvæðagreiðsluna í Frakklandi þurfi ekki frekari vitna við. Til dæmis sagði Neil Kinnock, forveri Blairs sem leiðtogi breska Verkamannaflokksins, í gær að stjórnarskráin væri þegar dauð. Sagði Kinnock, sem sat um nokkurra ára skeið í framkvæmdastjórn ESB, að þetta gætu bresk stjórnvöld hins vegar ekki sagt opinberlega strax, vegna yfirvofandi atkvæðagreiðslu í Hollandi og vegna þess að þau munu senn setjast í forsæti ESB.

Úrslitin ekki bindandi

Jacques Chirac Frakklandsforseti brást við áfallinu þar í landi á sunnudag er hann útnefndi nýjan forsætisráðherra fyrir ríkisstjórn sína í gær. Dominique de Villepin mun leysa Jean-Pierre Raffarin af hólmi og fullyrt var að Nicolas Sarkozy, sem nýtur vinsælda en hefur verið upp á kant við Chirac, kæmi aftur inn í stjórn.

Kastljósið beindist hins vegar að Hollendingum í gær, enda ganga þeir að kjörborðinu í dag, sem fyrr segir.

Úrslit atkvæðagreiðslunnar í Hollandi eru ekki bindandi fyrir þarlenda ráðamenn en þeir hafa heitið því að hlíta vilja almennings ef kjörsókn fer yfir 30%.

Jan Peter Balkenende, forsætisráðherra Hollands, skoraði á landa sína í gær til að gera sjálfir upp hug sinn í málinu, en láta ekki úrslitin í Frakklandi hafa áhrif á sig. "Frakkar geta ekki sagt okkur fyrir verkum," sagði hann.

Balkenende er ekki líklegur til að segja af sér þó að Hollendingar hafni stjórnarskránni, hefur raunar lýst því yfir að það komi ekki til greina. Og menn benda á það í því sambandi að þetta málefni sameinar stærstu stjórnmálaflokka, hvort sem þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu.

Hafa átta af hverjum tíu þingmönnum á hollenska þinginu barist fyrir því að fá stjórnarskrána samþykkta. Hafni Hollendingar stjórnarskránni er það því ekki síður áfall fyrir stjórnarandstöðuna en stjórn landsins. Virðist að miklu leyti vera um það að ræða að gjá hafi myndast milli almennings og stjórnmálastéttarinnar í Hollandi, rétt eins og í Frakklandi.

Engum blandast þó hugur um að íbúar Hollands vilja gjarnan lýsa hug sínum til stjórnar Balkenendes, sjálfur naut forsætisráðherrann aðeins stuðnings 19% kjósenda í nýlegri könnun.

"Ríkisstjórnin misreiknaði sig hvað varðaði andstöðuna við aukinn Evrópusamruna. Hún hóf kosningabaráttu sína of seint. Og þegar menn áttuðu sig á því að það myndi ganga illa að selja kjósendum vöruna sem um er að ræða þá kom á þá hik," hafði Associated Press eftir Johan Huizenge, Evrópusérfræðingi Radio Netherlands .

Óánægðir með evruna

Ýmsir ólíkir þættir virðast ráða afstöðu hollenskra kjósenda, þó er rætt um að fólk vilji einkum lýsa óánægju sinni með hækkun á verðlagi í kjölfar þess að Holland tók upp evruna, sameiginlegan gjaldmiðil ESB.

Andstæðingar stjórnarskrárinnar eru þó af ýmsum toga. Þannig óttast frjálslyndari kjósendur að Holland muni glata sjálfræði hvað varðar mál eins og líknardráp og eiturlyf, en eins og menn vita hefur mikið frjálsræði ríkt í þessum efnum í Hollandi.

Hægri menn hafa hins vegar áhyggjur af því að hollensk stjórnvöld muni ekki lengur geta stýrt innflytjendamálum, verði stjórnarskráin samþykkt; að forræðið flytjist endanlega til Brussel.

Í höfuðstöðvum ESB í Brussel óttast menn mjög að andstaðan við stjórnarskrána breiðist út, falli hún í atkvæðagreiðslu í Hollandi í kjölfar niðurstöðunnar í Frakklandi. Bæði Holland og Frakkland hafa verið með í Evrópusamrunanum frá byrjun, saga þeirra innan vébanda ESB er eldri en nýju aðildarríkjanna í Austur- og Mið-Evrópu. Afstaða kjósenda í nýju aðildarlöndunum gæti engu að síður tekið mið af atburðum í Frakklandi og Hollandi.

"Franska þjóðin hefur sáð fræjum vandræða í Póllandi," sagði til að mynda pólska dagblaðið Gazeta Wyborcza og Ferenc Guyrcsany, forsætisráðherra Ungverjalands, varaði við því að ESB stæði frammi fyrir "risavöxnu vandamáli" ef Hollendingar höfnuðu stjórnarskránni.

Er því óhætt að fullyrða að grannt verði fylgst með úrslitunum í Hollandi í höfuðstöðvum ESB í Brussel og víða í aðildarríkjunum í kvöld.

Kjörstaðir í Hollandi verða opnaðir klukkan hálfátta í dag, kl. 5.30 að ísl. tíma, og verður lokað kl. 21, eða 19 að íslenskum tíma. Ættu úrslit að vera ljós skömmu síðar þar sem kosningakerfið í Hollandi er að mestu tölvuvætt. Þetta er í fyrsta sinn í meira en 200 ár sem haldin er þjóðaratkvæðagreiðsla í Hollandi.

david@mbl.is