Ragnar Önundarson
Ragnar Önundarson
Ragnar Önundarson fjallar um sögu efnahagsmála: "Samdráttur verður alltaf öðru hvoru erlendis og hefur strax áhrif á okkar smáa, opna hagkerfi."

UNGU fólki sýnist gjarnan að aðstæður nú séu aðrar en áður hafa þekkst. Það á erfitt með að læra af reynslu annarra og því verður varla breytt. En hagfræðin lítur til reynslunnar og leitar að hliðstæðum. Sápukúlur á markaði tengjast venjulega langvarandi góðæri og þær springa oftast af því að samdráttar gætir. Eignaverð er bæði orsök og afleiðing hagþróunar, en aðgerðir í peningamálum hafa hér líka áhrif. Nú hefur sigurganga Vesturlanda í efnahagsmálum varað í heilan áratug, þó dálítið hik hafi verið á henni árin 2001-2. Áratugur er nær fjórðungur af starfsævi manns. Kynslóðaskipti stjórnenda eiga sér stað og fjöldinn man sólskinið betur en rigninguna. Spyrja má hvort árin fyrir Kreppuna miklu séu ekki svo löngu liðin að hæpið sé að enn megi af þeim læra? Aðstæður hafi breyst og hagstjórn sé nú öll betri. Ef við getum þekkt hliðstæður þess nú sem þá voru ráðandi þættir getur þetta enn gert gagn. Áratugurinn fyrir Kreppuna miklu er um margt líkur síðasta áratug. Verðhækkun á hlutabréfum og fasteignum var langvarandi í báðum tilvikum, án samsvarandi hækkunar á neysluvöruverði. Áhugi var fyrir fjárfestingu í nýrri tækni samtímans og fólk hafði traust á stöðugleika og hagstjórn. Ólíkt er þó að á fyrra tímabilinu hækkaði fasteignaverð víða strax ört. Á því seinna, framan af síðasta áratug, hækkaði það hóflega víðast hvar en verðhækkanir hafa svo magnast allra síðustu árin. Sápukúlur hafa nú blásið út á fasteignamörkuðum um alla Vestur-Evrópu og bæði á austur- og vesturströnd Bandaríkjanna.

Endir Fyrri heimsstyrjaldarinnar olli snöggum samdrætti meðan hagkerfið aðlagaði sig. En árin 1922-9 varð hagvöxtur afar mikill og atvinnuleysi brátt lítið. Tækifærin lágu í nýrri tækni: Rafmagnstæki, símar og bifreiðar, sem höfðu verið fundnar upp löngu fyrr, urðu nú almenningseign. Fjárfestingar í samgöngutækjum og eldsneytisframleiðslu og uppbygging úthverfa stórborganna keyrðu hagvöxtinn áfram. Hliðstæðan nú væri t.d. upplýsingatæknin sem fyrir löngu hafði verið fundin upp en hefur síðasta áratuginn og vel það orðið almenningseign og skipt sköpum í framþróuninni. Mikill áhugi og ótímabær var á glænýrri tækni, útvarpinu, og Radio Company of America (RCA) varð snemma eftirlæti fjárfesta og náði hlutabréfaverðið að vera 73-faldur hagnaðurinn. Hliðstæða þessa seinni árin gæti verið internetið og "dot-com" ævintýrið sem ótímabær ljómi varð í kringum. Í báðum tilvikum átti hin nýja tækni þó eftir að skila árangri nokkru seinna, þegar margir höfðu brennt sig. Með litlu atvinnuleysi, auknu vöruframboði og vaxandi hagnaði jókst algleymið. Hlutabréf hækkuðu bærilega fram til ársins 1926 en þá fóru hækkanirnar að magnast. Verðið meira en tvöfaldaðist 1926-9 í ljósi afkomu, stöðugleika og bjartsýni. Meðalhækkun áratugarins alls var 18% á ári í Ameríku. Svipað gerðist á síðasta áratug þegar verð hækkaði bærilega frá 1990 en þrefaldaðist svo 1995-2000. Meðalhækkun áratugarins var 15,5% á ári.

Húsnæðislán í Bandaríkjunum þrefölduðust 1920-9. Ný neyslulán komu fram, afborgunarlán, sem gerðu almenningi kleift að kaupa strax og borga seinna. Fólk fór að tala um "nýja tíma". Tilkoma seðlabanka, aukið frelsi í heimsviðskiptum og fullvissan um varanlegan frið í veröldinni skapaði traust. Svipuð sálræn áhrif urðu á síðasta áratug með falli Berlínarmúrsins og hruni kommúnismans, og ekki skortir hliðstæður um aukið framboð lána. Stjórnun varð "vísindi" og framleiðslustýring vakti vonir um að minnkandi sveiflur í birgðahaldi og þar með minni slæm áhrif á hagsveiflur. Seinni tíma hliðstæða gæti verið "Just-in-time" birgðastýringin, byggð á tölvutækni, sem menn sögðu eyða birgðasveiflum, en þó varð meiri birgðasöfnun í alþjóðlegri iðnframleiðslu árið 2001 en nokkru sinni fyrr. Eins og jafnan var sápukúlan blásin út af bjartsýni og ekki skorti rökin. Framleiðniaukning hafði verið mikil eða meiri en 50% yfir áratuginn. Seðlabankinn skyldi vera "lender of last resort" og jafnan koma í veg fyrir bankakreppu, ef hætta skapaðist. Þessi nýjung í hagstjórn skapaði traust, en átti þó eftir að bregðast illilega.

Samdráttur verður alltaf öðru hvoru í heimsbúskapnum og hefur strax áhrif á okkar smáa, opna hagkerfi. Stórframkvæmdir innanlands á sama tíma mundu deyfa þau áhrif, en ekki eyða. Sem betur fer virðast góðar horfur um framhald þeirra. Ofmat eigna hefur hins vegar ekki verið sambærilegt á Vesturlöndum síðan fyrir Kreppuna miklu og virðist þetta fara framhjá mörgum. Í Japan varð ofmat 1980-90, sápukúlan sprakk og hagkerfið hefur hökt síðan. Vegna samtengingar markaða veraldarinnar er hugsanlegt að þessar sápukúlur springi í næstu niðursveiflu, jafnvel í keðjuverkun, með afleiðingum sem erfitt er að sjá fyrir. Því stærri sem þær ná að verða, því verra. Ef þær springa eftir að stórframkvæmdum lýkur verðum við býsna berskjölduð. Síðustu fjörutíu árin hafa því miður orðið fjögur alvarleg samdráttarskeið á Íslandi með hastarlegri rýrnun kaupmáttar, 15-20%. Fjöldi Íslendinga missti eigur sínar á nauðungaruppboðum og varð gjaldþrota. Aðrir, sem höfðu farið varlega, stóðu áföllin af sér, aðþrengdir. Við skulum því fara varlega í lántökum. Þann kost eiga allir. Enn er nægur tími til stefnu.

Höfundur er viðskiptafræðingur og bankamaður.