GISSUR Tryggvason, formaður körfuknattleiksdeildar Snæfells úr Stykkishólmi, segir að ekki hafi verið rétt staðið að brotthvarfi Pálma Freys Sigurgeirssonar til KR, þar sem leikmaðurinn sé einfaldlega samningsbundinn Stykkishólmsliðinu fram til vorsins...
GISSUR Tryggvason, formaður körfuknattleiksdeildar Snæfells úr Stykkishólmi, segir að ekki hafi verið rétt staðið að brotthvarfi Pálma Freys Sigurgeirssonar til KR, þar sem leikmaðurinn sé einfaldlega samningsbundinn Stykkishólmsliðinu fram til vorsins 2006. "Við lítum svo á að Pálmi sé enn leikmaður Snæfells og félagaskipti í KR koma ekki til greina af okkar hálfu ef KR-ingar ná ekki samkomulagi við okkur um greiðslu vegna leikmannsins. Við höfum lent í svipuðu máli sjálfir er Ingvaldur Magni Hafsteinsson gekk í raðir okkar og á þeim tíma fengum við kaldar kveðjur úr vesturbænum. Ég á ekki von á öðru en að KR gangi frá sínum málum fljótlega en á meðan ekkert gerist er Pálmi Freyr leikmaður Snæfells," sagði Gissur. Allt byrjunarlið Snæfells frá því í vetur er horfið á braut en Gissur telur að liðið sem lék til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn sl. tvö ár verði áfram í baráttunni. "Við verðum í fremstu röð áfram, það þýðir ekkert annað," bætti formaðurinn við.