KRABBAMEINSFÉLAGIÐ efnir í átjánda sinn til Heilsuhlaups á morgun, fimmtudaginn 2. júní 2005. Í Reykjavík verður hlaupið frá húsi félagsins í Skógarhlíð 8 kl. 19.

KRABBAMEINSFÉLAGIÐ efnir í átjánda sinn til Heilsuhlaups á morgun, fimmtudaginn 2. júní 2005. Í Reykjavík verður hlaupið frá húsi félagsins í Skógarhlíð 8 kl. 19. Hægt er að velja um þriggja kílómetra skokk eða göngu frá Skógarhlíð að Öskjuhlíð og til baka eða tíu kílómetra hlaup suður fyrir Reykjavíkurflugvöll og til baka. Kristján Ársælsson þolfimimeistari sér um upphitun og Hildur Vala Einarsdóttir Idolstjarna ræsir hlauparana.

Vegna framkvæmda við færslu Hringbrautar hefur leiðinni verið breytt frá því sem áður var. Tími verður mældur hjá öllum og úrslit birt eftir aldursflokkum, en þeir eru sex: 14 ára og yngri, 15-18 ára, 19-39 ára, 40-49 ára, 50-59 ára og 60 ára og eldri. Fyrsti karl og fyrsta kona í öllum aldursflokkum í 3 km og 10 km hlaupum fá verðlaunagripi. Vegleg útdráttarverðlaun eru í boði. KB banki er aðalstyrktaraðili hlaupsins en aðrir samstarfsaðilar eru Reykjavíkurborg, Vífilfell, B&L, Lyfja og Ísland í bítið. Forskráning er á Hlaupasíðunni (hlaup.is). Skráning er hjá Krabbameinsfélaginu í Skógarhlíð 8 fimmtudaginn 2. júní kl. 8-18. Þátttökugjald er 500 krónur fyrir 14 ára og yngri en 1.000 krónur fyrir 15 ára og eldri. Bolur er innifalinn í gjaldinu. Utan Reykjavíkur verður hlaupið á tíu stöðum kl. 19 á morgun. Í Borgarnesi, Egilsstöðum, Neskaupstað, Mjóafirði, Eskifirði, Reyðarfirði, Breiðdalsvík, Hellu, Hvolsvelli og í Keflavík. Hlaupið verður á Vopnafirði í dag.