[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sjávarútvegur í Evrópusambandinu er mjög umfangsmikill en stefna sambandsins í sjávarútvegi að sama skapi umdeild. Sjávarútvegur Evrópusambandsins er umfjöllunarefni í nýrri skýrslu sem Greining Íslandsbanka sendi nýlega frá sér. Helgi Mar Árnason rýndi í skýrsluna.

SJÁVARÚTVEGUR er Evrópusambandinu (ESB) mikilvægur en alls liggja um 25 lönd sambandsins að hafi. Samtals er strandlengja sambandsins um 68 þúsund kílómetra löng. Þó að fiskiðnaðurinn sé einungis innan við 1% af þjóðarframleiðslu sambandsins er hann gríðarlega mikilvægur á einstökum svæðum þar sem atvinnulíf er einhæft.

Sameiginleg fiskveiðistefna Evrópusambandsins var endurskoðuð árið 2003, enda höfðu mikilvægustu fiskistofnarnir þá verið ofnýttir um árabil og voru sumir þeirra, þ.á m. þorskur, komnir nálægt hruni. Markmið nýju stefnunnar er að minnka skipastólinn og nýta auðlindir með sjálfbærari hætti. Til að ná þessum markmiðum hyggst sambandið verja 3.699 milljónum evra, um 300 milljörðum króna, í styrki til greinarinnar á árunum frá 2000 til 2006. Þar af fá Spánverjar langmestu styrkina, um 1.712 milljónir evra, eða um 46% heildarstyrkupphæðarinnar. Mestum styrkjum ESB til sjávarútvegs hefur verið varið til endurnýjunar fiskiskipaflotans, enda floti sambandsins alltof stór og olli of miklu álagi á fiskistofnana. Þannig verður á umræddu tímabili 357 milljónum evra varið til úreldingarstyrkja en 572 milljónum evra til skipasmíða og 270 milljónum til endurnýjunar eldri skipa. Árið 2004 taldi fiskiskipafloti ESB alls 92.635 skip og hafði þeim þá fækkað um 7.400 á sex árum.

Mest framleiðni í Hollandi

Verðmæti fiskafla ESB var árið 2003 um 7,1 milljarður evra, um 573 milljarðar króna, og breyttist lítið frá fyrra ári. Sjómönnum hafði hins vegar fækkað um 9% á milli áranna, voru alls 181 þúsund talsins árið 2003. Árið 2003 var framleiðni á hvern sjómann hæst í Hollandi eða um 173 þúsund evrur, um 14 milljónir króna. Meðalframleiðni á hvern sjómann ESB var hins vegar aðeins um 55.800 evrur, um 4,5 milljónir króna. Fiskiskipafloti ESB veiddu um 6,3 milljónir tonna árið 2002 eða um 5% af öllum fiskafla heimsins. Flotinn er þannig þriðji öflugasti fiskveiðifloti heims, á eftir Kína og Perú. Afli ESB jókst síðan um 11% árið 2004, þegar aðildarríkjum sambandsins hafði fjölgað um tíu.

Mest verðmæti á Spáni

Spánn er langstærsta veiðiþjóð ESB þegar talið er í krónum og aurum, verðmæti fiskafla Spánverja nam um 1.850 milljónum evra, um 150 milljörðum króna, árið 2003. Næst á eftir komu Ítalir en verðmæti fiskafla þeirra nam um 1.466 milljónum evra það sama ár. Danir veiða hins vegar allra þjóða mest í tonnum talið, veiddu ríflega 1 milljón tonna árið 2003, aðallega uppsjávarfisk á borð við sandsíli, síld og makríl.

Af heildarafla ESB árið 2002 komu 83% úr fiskveiðum en 17% úr fiskeldi. Fiskeldi verður sífellt stærri hluti af fiskiðnaði ESB og leggur nú þegar til um þriðjung af heildarverðmætinu. Alls voru framleidd um 1,3 milljónir tonna í fiskeldi innan ESB árið 2002 og hafði þá tvöfaldast á rúmum 20 árum. Helstu eldistegundir eru silungur, lax, vartari og borri, auk þess sem skeldýraeldi er umtalsvert. Spánverjar eru stórtækastir í eldinu, framleiddu um 263 þúsund tonn árið 2002 en Frakkar fylgdu í kjölfarið með 250 þúsund tonn.

Fiskiðnaður ESB veltir um 16 milljörðum evra, um 1.300 milljörðum króna, á ári. Bretar framleiða mest af sjávarafurðum allra ESB-þjóðanna en talið er að verðmæti framleiðslu þeirra hafi numið nærri 3 milljörðum evra, 237 milljörðum króna, árið 2001. Segir í skýrslunni að eignarhald í fiskiðnaði ESB sé enn mjög dreift, fyrirtækin séu alls 3.400 talsins, og mikið rúm fyrir hagræðingu. Hagræðing með sameiningu hafi sannað gildi sitt í Bretlandi en Þjóðverjar hafi setið eftir hvað það varðar.

Fiskæturnar fyrir sunnan

Neysluvenjur íbúa ESB á undanförnum árum endurspegla aukna neyslu sjávarafurða, sérstaklega í svokölluðum þægindavörum. Ekki er þó gert ráð fyrir mikilli neysluaukningu í framtíðinni og ekkert í líkingu við það sem spáð er að verði í Kína og þróunarlöndunum. Meðalfiskneysla á hvern íbúa ESB er um 24 kíló á ári, nokkuð hærri en meðaltal í heiminum sem er 16 kíló. Mest er borðað af fiski sunnarlega í Evrópu og eru Portúgalar mestu fiskætur álfunnar, hver Portúgali hesthúsar að meðaltali um 61 kíló af fiskmeti á ári. Fiskneyslan er hins vegar minnst í hinum nýju aðildarríkjum sambandsins, t.d. aðeins 4 kíló í Ungverjalandi. Fiskneysla í þessum löndum fer þó vaxandi.

hema@mbl.is

Höf.: hema@mbl.is