Þetta er forritun samfélagsins, hugsaði hann þá með sér. Samfélagsmótun. Ólgan óx innra með honum.

Sandkassinn var ferhyrndur eins og flestir aðrir sandkassar. Lyktin var ekki svo góð, minnti svolítið á alla kettina sem honum var svo illa við. Kettir eru hundar. HUNDAR, öskraði hann að sjálfum sér.

Hann sat í sandkassanum vegna þess að hann hafði fengið óstjórnlega þrá. Allt í einu, þegar hann var í vinnunni í morgun, nýbúinn að fá sér fjórða kaffibollann á fjörutíu mínútum, fékk hann flassbakk. Það var eins og eitt augnablik úr fortíðinni hefði skotist fram í tíma, einhvern veginn skvest í nútímann, frá 23. janúar 1978 til 14. september 2005. Hann fann allt í einu lyktina af sandkassanum á leikskólanum, þar sem hann hafði mokað tilgangslitlar holur í gamla daga.

Þessi óstjórnlega þrá var of sterk til að kæfa niður, eins og aðrar tilfinningar sem hann bældi á hverjum degi. Hann hreinlega varð að standa upp frá skrifborðinu og læðast út, án þess að yfirmaðurinn hann Georg sæi til, ganga framhjá Dúddu í móttökunni og segja henni að hann ætlaði að skreppa aðeins til tannlæknisins. "Það er endajaxlinn, skilurðu."

Þegar hann var loksins kominn út undir beran himin, út úr grámyglulegu skrifstofuhúsnæðinu í Síðumúlanum, leið honum eins og nýfrjálsum manni, fanga sem hefði misst af miðjum aldri, gráa fiðringnum og öllu og hefði loksins sloppið níræður út í samfélagið. Nú mætti hann engan tíma missa, hann yrði að láta drauminn rætast áður en maðurinn með ljáinn bankaði á dyrnar.

Og draumurinn, í hans tilfelli, var að endurupplifa æskuna, þótt ekki væri nema í hálftíma eða svo. Hann gekk ákveðnum skrefum að bílnum sínum, Mitsubishi Colt árgerð 1993, sem hann fyrirleit en þótti samt eilítið vænt um. Hlýlegur bíll og einn af sönnum vinum, ef aksturstæki er yfirleitt hægt að flokka sem vini. Hann var dálítið skringilegur í þessum efnum, vingaðist gjarnan við dauða hluti og spjallaði við þá stundunum saman. Ekki vel liðið í samfélagi mannanna.

Það hafði hann reynt í vinnunni. Hann hafði til dæmis tekið miklu ástfóstri við kaffibollann sinn, hann Ásmund, og rætt við hann af miklum þrótti í matarhléinu. Þetta voru svotil einhliða samræður; Ásmundur svaraði bara með eins eða einskis atkvæðis orðum og á endanum var hann beðinn um að yfirgefa mötuneytið. "Þetta gengur ekki lengur, Vilhjálmur," hafði Georg sagt dag einn, þegar hann hafði verið að ræða um viðskiptalífið við Ásmund (nánar tiltekið velgengni Samúels L. Sveinssonar hjá Viðskiptabanka atvinnulífsins, sem hafði þrefaldast að veltu undanfarin fjögur misseri). "Þú verður annaðhvort að hætta að tala við kaffibollann þinn eða fara eitthvert annað í hádeginu."

Þetta er forritun samfélagsins, hugsaði hann þá með sér. Samfélagsmótun. Ólgan óx innra með honum. Hvað áttu þessir menn með því að meina honum að tala við Ásmund, jafnvel þótt hann væri kaffibolli og hugsanlega ekki mjög málgefinn sem slíkur? Máttu menn ekki vera mismunandi?

En nú var hann semsagt kominn út í sandkassa á gamla leikskólanum sínum. Það voru engir "aðrir" krakkar á svæðinu (þetta var um mitt sumar og allir í fríi), þannig að hann hafði allan leikvöllinn fyrir sjálfan sig. Yfir hann hvolfdust minningarnar; hvernig fóstran löðrungaði hann þegar hann hrækti á hana. Hann hafði gert það óvart, en hún brást svona harkalega við. Krakkarnir höfðu verið að leika sér að því að spýta munnvatni og hann hafði fylgst með. Hann var alltaf svolítið útundan. Svo mannaði hann sig upp í að taka þátt, gekk tvö skref fram og hrækti.

Ekki vildi betur til en svo að hrákinn lenti á fóstrunni, sem hafði setið í rólunni og fylgst með hrákaleik krakkanna, hlæjandi þeim til samlætis. Það var alveg óvart, í alvörunni. Hún sagði ekki neitt, en tók þéttingsfast í höndina á honum og hljóp með hann inn í hús, þannig að hann átti fullt í fangi með að fylgja henni eftir og var hálfpartinn í lausu lofti alla leiðina.

Þegar þau komu inn í hús fór hún með hann rakleiðis niður stigann, inn í þvottaherbergi, og löðrungaði hann. "Svona gerir þú ekki, krakkaskratti!" sagði hún og andlitið var afmyndað af reiði. Svo náði hún í sápustykki sem lá á málmvaski þarna rétt hjá og skipaði honum að bíta í sápuna. Hann trúði fyrst ekki að hún væri að meina það. Hélt hún væri að grínast. Geta fullorðnir verið svona vondir? Þegar hann hikaði opnaði hún munninn á honum með fingrunum, stakk sápunni upp í hann og ýtti undir hökuna á honum, þannig að viðbjóðslegt sápubragðið fyllti vit hans.

Hann þorði ekki að segja mömmu sinni frá þessu, af einhverjum ástæðum. Hann skammaðist sín eiginlega fyrir þetta, því hann vissi að það var ekki rétt að hrækja á fólk. Jafnvel þótt það hefði verið óvart. Þetta atvik lagðist svolítið þungt á sálina, þótt hann væri bara fjögurra ára, og þótt minningin dofnaði eilítið með árunum; þótt hann hugsaði ekki um þetta á hverjum degi næstu árin, eða jafnvel bara einu sinni á ári, hafði það haft mótandi áhrif á hann. Fóstran, sem enginn man lengur hvað heitir, hafði grafið undan sjálfstrausti hans og haft áhrif á hegðun hans í lífinu alla tíð síðan.

Og nú var hann kominn í sandkassann við hliðina á rólunni sem fóstran hafði setið í þennan dag fyrir rúmum 27 árum. Hann hafði yfirgefið vinnustaðinn til að endurupplifa æskuna, en sér til sárra vonbrigða hafði hann komist að því að minningarnar voru ekki eins góðar og hann hafði vonast eftir. Nokkrir dropar af söltum tárum sameinuðust kattahlandinu í sandkassanum, nærri staðnum sem hann hafði misst trúna á mannkynið árið 1978.

Ívar Páll Jónsson