Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra tók á móti dr. Abdul Kalam Indlandsforseta í ráðherrabústaðnum. Þaðan lá leiðin síðan til Þingvalla þar sem forseti ásamt fylgdarliði snæddi hádegisverð í boði forsætisráðherra.
Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra tók á móti dr. Abdul Kalam Indlandsforseta í ráðherrabústaðnum. Þaðan lá leiðin síðan til Þingvalla þar sem forseti ásamt fylgdarliði snæddi hádegisverð í boði forsætisráðherra. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra og dr. Abdul Kalam Indlandsforseti undirrituðu í dag viljayfirlýsingu um samráð milli utanríkisráðuneyta landanna tveggja og ræddu samstarf á sviði lyfjaiðnaðar og sjávarútvegs.

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra og dr. Abdul Kalam Indlandsforseti undirrituðu í dag viljayfirlýsingu um samráð milli utanríkisráðuneyta landanna tveggja og ræddu samstarf á sviði lyfjaiðnaðar og sjávarútvegs. Silja Björk Huldudóttir fylgdist með öðrum degi opinberrar heimsóknar forsetans.

Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra, átti í gær fund með dr. A.P.J. Abdul Kalam, Indlandsforseta. Þeir ræddu m.a. um nauðsyn þess að finna leiðir til að auka viðskipti landanna tveggja og í því samhengi minntist forsætisráðherra á þann áhuga hérlendis að koma á fríverslun við Indland. Undirrituðu þeir við þetta tækifæri viljayfirlýsingu um samráð milli utanríkisráðuneyta Íslands og Indlands, enda vilji beggja landa að auka samstarf og samskipti sín. Möguleg samstarfsverkefni ríkjanna á ýmsum sviðum voru og reifuð, einkum í tengslum við lyfjaiðnað og sjávarútveg. Þá ræddu þeir hugmyndir um að koma á tengslum og samstarfi vísindamanna frá Íslandi og Indlandi, einkum á sviði jarðskjálftavarna.

Hvað alþjóðamálin varðar ræddu forsætisráðherra og forseti um nauðsyn á umbótum á Sameinuðu þjóðunum og ítrekaði forsætisráðherra stuðning Íslands við tillögu Indlands og fleiri ríkja um endurskoðun á starfsháttum og samsetningu Öryggisráðs SÞ.

Bókun um loftferðasamning undirritaður

Á fundinum undirrituðu forsætisráðherra og forseti bókun um niðurstöður loftferðasamnings milli Íslands og Indlands. Felur samningurinn ásamt viðauka og bókun m.a. í sér heimild fyrir tilnefnd flugfélög til að fljúga allt að fjórtán ferðir í viku milli landanna með tengingum við annað flug, þ.e. bæði viðkomum á leiðinni og flugi áfram til annarra áfangastaða.

Þá er staðfest í bókuninni heimild til að stunda fragtflug eftir þörfum, svo og víðtæk heimild til að fljúga með ferðamannahópa í svonefndum pakkaferðum. Að sögn aðstandenda er hér um að ræða einn hagkvæmasta loftferðasamning sem gerður hefur verið af Íslands hálfu.

Samkvæmt bókuninni sem nú var undirrituð verður samningnum fylgt eftir hér meðan lokaundirbúningur að formlegri undirritun hans stendur yfir en miðað er við að undirritunin fari fram síðar á þessu ári. Að samningsgerðinni unnu utanríkisráðuneytið, samgönguráðuneytið og Flugmálastjórn auk sendiráðsins í London, en fulltrúar flugrekenda voru til ráðgjafar við samningsgerðina.

Umhverfisvænir orkugjafar

FORSETI Indlands, dr. Abdul Kalam, heimsótti höfuðstöðvar Orkuveitu Reykjavíkur (OR) í gær til þess að fræðast um nýtingu vetnis og jarðvarma. Hann ræddi við sérfræðinga Orkuveitunnar um þá möguleika sem tæknin býður upp á, og sýn sína fyrir nýtingu umhverfisvænna orkugjafa á Indlandi.

Hann segir mikla möguleika á orkuframleiðslu þegar tækni til framleiðslu rafmagns úr sólarorku fleygir fram, og það, ásamt vetni, séu þær tvær leiðir til umhverfisvænnar orkuframleiðslu sem Indverjar líti helst til. Ekki sé jarðvarmi nægilega víða til þess að raunhæft sé að orka sem fæst af þeim svæðum verði nema lítið brot af orkuþörf landsins.

Orkugjafi framtíðarinnar

VETNI á eftir að verða einn af aðalorkugjöfum heims í framtíðinni, enda um hreina orku að ræða. Þetta kom fram í máli dr. Abduls Kamals, Indlandsforseta, í fyrstu ökuferð hans með vetnisstrætisvagni í gær. Sagði hann það aðeins tímaspursmál hvenær vetnið yrði jafn útbreitt og aðrir orkugjafar. Aðspurður sagði hann mikinn áhuga hjá indverskum stjórnvöldum að nýta vetni í mun ríkari mæli í framtíðinni. Indlandsforseti skoðaði vetnisstöð Íslenskrar NýOrku ehf. ásamt Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, undir leiðsögn Jóns Björns Skúlasonar, framkvæmdastjóra Íslenskrar NýOrku, og Gunnars Arnar Gunnarssonar, stjórnarformanns fyrirtækisins. Því næst lá leiðin með vetnisstrætisvagni að höfuðstöðvum Orkuveitu Reykjavíkur þar sem efnt var til málþings um vetnisnotkun.

Bæði í strætisvagninum á leiðinni upp eftir og á málþinginu sjálfu var Indlandsforseti óþreytandi við að spyrja samferðafólk sitt spurninga um málefnið. Hann hafði greinilega sérlegan áhuga á öryggismálum samfara vetnisnotkun og spurði margra tæknilegra spurninga um málið sem eðlilega var von og vísa þar sem hér er á ferð mikill vísindamaður. Í samtölum við Jón Björn og Gunnar Örn ræddi hann reynslu Indverja af vetnisnotkun, en þar í landi er vetni nýtt í fljótandi formi t.d. í eldflaugaiðnaði, en að sögn fræðimanna er miklu mun erfiðara að meðhöndla vetni í fljótandi formi en sem lofttegund. Vildi hann meðal annars heyra í hvaða erfiðleikum Íslendingar hefðu lent varðandi nýtingu vetnis. Lagði hann á það áherslu að mikilvægt væri að vísindamönnum og stjórnvöldum tækist vel upp við að fræða almenning um vetnið og notkun þess. Sagði hann fólk eðlilega oft smeykt þegar verið væri að kynna nýja tækniþekkingu og orkugjafa. Fannst honum í því sambandi mikið til þess koma hversu jákvæðir Íslendingar hafa verið og eru í garð vetnisnotkunar, en rannsóknir hafa sýnt að um 93% Íslendinga eru jákvæðir gagnvart þessum nýju orkugjafa.