Eftir Brján Jónasson brjann@mbl.is ÖLLU starfsfólki landvinnslu Samherja á Stöðvarfirði, 32 að tölu, var sagt upp störfum í gær, frá og með 1. september nk., en þá verður frystihúsi félagsins lokað og landvinnsla sem þar var flyst til Dalvíkur.
Eftir Brján Jónasson brjann@mbl.is

ÖLLU starfsfólki landvinnslu Samherja á Stöðvarfirði, 32 að tölu, var sagt upp störfum í gær, frá og með 1. september nk., en þá verður frystihúsi félagsins lokað og landvinnsla sem þar var flyst til Dalvíkur.

Að sögn Hjördísar Þóru Sigurþórsdóttur, formanns stéttarfélagsins Vökuls, kom þessi ákvörðun starfsfólki ekki á óvart, enda hafði verið varað við því í byrjun árs að aðgerðir sem þessar væru yfirvofandi, þó flestir hafi vonast til þess að einhver vinnsla yrði áfram í frystihúsi Samherja. Hjördís segir mikla óvissu hafa verið hjá starfsfólki undanfarna mánuði. "Ég held að þó þetta séu mjög slæmar fréttir þá sé samt verið að taka á þessari óvissu sem búin er að vera."

Gestur Geirsson, framkvæmdastjóri landvinnslu Samherja, sagði ástæður þess að hætta eigi landvinnslu á Stöðvarfirði einkum samdrátt í aflaheimildum á undanförnum árum. Einnig sé ástand gengis íslensku krónunnar með þeim hætti að leita verði allra leiða til að hagræða í rekstri félagsins.

"Við stefnum að því að vinna stóran hluta af þessum afla sem við höfum verið að vinna á Stöðvarfirði á Dalvík með sama mannskap og er þar í dag. Það er umtalsverð hagræðing fólgin í því. Við höfum verið að fjárfesta á undanförnum árum fyrir hundruð milljóna í vinnslunni í Dalvík, auk þess sem aflaheimildir hafa verið færðar í land af frystitogurum til þess að stækka hana og auka hagkvæmnina," segir Gestur.

Hann segir Samherja ætla að aðstoða fólk sem ekki fær önnur störf eftir því sem hægt er. Atvinnuástand á Austurlandi sé gott, og þegar Fáskrúðsfjarðargöng verði opnuð verði mögulegt að sækja vinnu á Reyðarfirði. Hann segir að starfsfólkinu á Stöðvarfirði hafi öllu verið boðið að vinna áfram hjá fyrirtækinu, eða tengdum fyrirtækjum.