Atli Bollason er starfsmaður nýrrar verslunar Reykjavík Grapevine, sem ber nafnið Grapevine info, en hún verður opnuð í dag.
Atli Bollason er starfsmaður nýrrar verslunar Reykjavík Grapevine, sem ber nafnið Grapevine info, en hún verður opnuð í dag. — Morgunblaðið/Sigurður Jökull
Eftir Ingu Rún Sigurðardóttur ingarun@mbl.is BÚÐ á vegum blaðsins Reykjavík Grapevine verður opnuð við Laugaveg 11, kjallara Bar 11, í dag.
Eftir Ingu Rún Sigurðardóttur ingarun@mbl.is

BÚÐ á vegum blaðsins Reykjavík Grapevine verður opnuð við Laugaveg 11, kjallara Bar 11, í dag. Blaðið hefur getið sér gott orð fyrir ögrandi greinar og greinargóðar upplýsingar um reykvíska menningu og næturlíf. Blaðið er gefið út á ensku og er því kjörið fyrir erlenda ferðamenn og aðra sem vilja lesa á ensku eða geta ekki lesið íslensku. Nýja búðin, sem hefur fengið nafnið Grapevine info, er sérstaklega ætluð ferðamönnum.

Atli Bollason er starfsmaður verslunarinnar. "Ferðamenn geta komið til mín og sagt - ég verð í Reykjavík í þrjá daga, hvað á ég að gera? Hvað er að gerast?" útskýrir hann. "Ég er með á hreinu hvaða tónleikar eru hvar, hvaða opnanir og sýningar og get sett saman prógramm handa ferðamanninum. Í leiðinni getur hann keypt sér íslenska tónlist, íslenskar kvikmyndir og íslenskar bókmenntir á ensku. Svo verða líka bolir til sölu," segir Atli.

Þessi þjónusta miðast því við þá ferðamenn sem hafa áhuga á menningarlífinu fremur en merkum stöðum og þess háttar. "Þetta er miðað við tónlistina og næturlífið. Túristar hafa verið vanræktir á því sviði. Ísland er annálað fyrir tónlist úti í heimi svo það er ábyggilega fullt af túristum sem koma hingað og vilja sjá íslensk bönd spila á íslenskum stöðum."

Atli segir vinnuna og sumarið leggjast vel í sig. "Já, ég vann á hóteli hérna einu sinni svo ég er vanur," segir hann en verslunin verður opin frá hádegi fram á kvöld á virkum dögum.

Tónleikaröð í sumar

Þrátt fyrir að búðin verði opnuð á miðvikudaginn var opnuninni fagnað með tónleikum hljómsveitanna Nortón og Dáðadrengja á Sirkus á föstudagskvöldið. Tónleikarnir mörkuðu jafnframt upphaf nýrrar tónleikaraðar Grapevine og Smekkleysu. "Það verða bartónleikar á fimmtudagskvöldum í allt sumar og tónleikar á föstudögum og laugardögum í Smekkleysubúðinni," segir Atli.

Næstkomandi fimmtudag spila Big Kahuna og Nilfisk á Sirkus. Nánari upplýsingar um tónleikaröðina er að finna í nýjasta hefti Grapevine , sem kom út á föstudaginn. Þá hafði blaðið jafnframt komið samfleytt út í ár en fyrst kom það aðeins út yfir sumartímann. Með þessu blaði hefst líka sumarútgáfan í ár, sem þýðir að næstu mánuði kemur blaðið út á tveggja vikna fresti.