Eftir Önnu Pálu Sverrisdóttur aps@mbl.is SIGRÍÐUR Anna Þórðardóttir umhverfisráðherra segir í samtali við Morgunblaðið það vera sláandi fréttir að lekinn í Sellafield-kjarnorkuendurvinnslustöðinni hafi staðið í níu mánuði.
Eftir Önnu Pálu Sverrisdóttur aps@mbl.is

SIGRÍÐUR Anna Þórðardóttir umhverfisráðherra segir í samtali við Morgunblaðið það vera sláandi fréttir að lekinn í Sellafield-kjarnorkuendurvinnslustöðinni hafi staðið í níu mánuði. Það staðfesti í raun og veru að öryggismálin í Sellafield séu ekki í lagi.

Sigríður Anna rifjaði upp fréttir sem bárust fyrr í vetur, um að bókhaldi og birgðum af geislavirku efni í stöðinni bæri ekki saman. "Ég brást við hvoru tveggja strax og bað um upplýsingar frá breskum yfirvöldum. Þá bárust þær fréttir að þetta væri ekki óeðlilegt en í kjölfarið koma þessar sláandi fréttir um lekann. Bresk yfirvöld þurfa virkilega að fara ofan í saumana á þessu máli. Mér finnst mjög líklegt að fram komi stífar kröfur í framhaldinu og hef hugsað mér að taka þetta mál upp í sumar á fundi með umhverfisráðherrum Norðurlandanna."

Sigríður Anna sagði að umhverfisráðherrahópurinn hefði fram að þessu í sameiningu gert miklar kröfur og raunar heilmikið verið gert af hálfu breskra stjórnvalda til að bregðast við þeim kröfum. "Ég átti líka fund með umhverfisráðherra Íra í desember síðastliðnum þar sem við fórum saman yfir þessi mál. Írar hafa eins og við Norðurlandaþjóðirnar miklar áhyggjur vegna mengunarhættu frá Sellafield og hafa tekið þátt í að þrýsta á stjórnvöld í Bretlandi um að þarna séu hlutirnir í lagi."

Umhverfisráðherra taldi erfitt að segja til um hver viðbrögð breskra stjórnvalda geta orðið í framhaldinu. Hún sagði rétt að sögusagnir væru uppi um að hugsanlega yrði stöðin ekki opnuð aftur en það væri alls ekki hægt að staðfesta. "Vissulega var brugðist við strax með því að loka stöðinni sem sýnir alvarleika málsins. En svo verðum við bara að sjá hvað gerist í framhaldinu og ekkert hægt að segja um það á þessari stundu."