FISKISTOFA hefur gefið út veiðileyfi til fiskiskipa frá löndum Evrópusambandsins en alls fengu 14 skip leyfi, þar af 9 skip frá Þýskalandi og 5 skip frá Bretlandi. Veiðar skipanna hefjast hinn 1. júlí nk.

FISKISTOFA hefur gefið út veiðileyfi til fiskiskipa frá löndum Evrópusambandsins en alls fengu 14 skip leyfi, þar af 9 skip frá Þýskalandi og 5 skip frá Bretlandi. Veiðar skipanna hefjast hinn 1. júlí nk. en einungis 5 skip mega stunda veiðarnar samtímis innan íslenskrar lögsögu.

Samkvæmt reglugerð er skipunum heimilt að veiða 3.000 tonn af karfa en meðafli við veiðarnar telst einnig til kvóta. Skilyrt er í leyfunum að veiðieftirlitsmaður frá Fiskistofu sé ávallt um borð í hverju veiðiskipi, að því er fram kemur af vef stofnunarinnar. Reynist meðafli of mikill ber skipstjórum að skipta um veiðisvæði til að forðast meðafla. Veiðisvæði skipanna er sem fyrr djúpt úti af Suðvesturlandi og Suðausturlandi. Afli þýsku skipanna í fyrra nam 895 tonnum en þar af voru 647 tonn af karfa, 119 tonn af ufsa og 88 tonn af þorski. Afli bresku skipanna var nokkru meiri eða 1.524 tonn en þar af voru 938 tonn af karfa en 405 lestir af þorski.