Yfir Lækjargötuna á gangbrautinni eins og vera ber.
Yfir Lækjargötuna á gangbrautinni eins og vera ber. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ANDAMAMMAN í miðborg Reykjavíkur var ekki í vandræðum með að komast með unga sína á Reykjavíkurtjörn í gær þótt umferðin væri þung. Hún var á ferð í átt að Tjörninni eftir erindi í bænum og fór hratt og örygglega yfir.

ANDAMAMMAN í miðborg Reykjavíkur var ekki í vandræðum með að komast með unga sína á Reykjavíkurtjörn í gær þótt umferðin væri þung. Hún var á ferð í átt að Tjörninni eftir erindi í bænum og fór hratt og örygglega yfir. Þegar kom að því að fara yfir Fríkirkjuveginn leit um tíma út fyrir að erfitt yrði að komast yfir. Úr þeim vanda leystist þó fljótt þegar hún naut liðsinnis snúningalipurra leigubílstjóra frá BSR sem létu sig ekki muna um að fylgja henni síðasta spölinn, yfir gangbrautina og að Tjarnarbakkanum.

Þegar í tjörnina var komið tók nú ekki betra við því ekki var það mannfólkið sem angraði einstæðu andamömmuna með ungana níu heldur voru það steggirnir því hún fékk vægast sagt óblíðar móttökur hjá þeim sem síst skyldi. Hún hafði þó síðasta orðið eftir snaggaralega baráttu og hélt sínu striki með unga smá. Framundan er lífsbaráttan og fyrsta en varla síðasta lexían að baki og löngu orðið mál að hneigja höfuð í djúpið, sperra lítið stél og læra að synda vel.