Jim Rose kemur til landsins með sirkus sinn í sumar. Sýningin er bönnuð innan 18 ára enda eru margir furðufuglar með í för.
Jim Rose kemur til landsins með sirkus sinn í sumar. Sýningin er bönnuð innan 18 ára enda eru margir furðufuglar með í för.
Eftir Ingu Rún Sigurðardóttur ingarun@mbl.is HELDUR sérstakur sirkus kemur til landsins í júlí og er kenndur við Jim nokkurn Rose.
Eftir Ingu Rún Sigurðardóttur ingarun@mbl.is

HELDUR sérstakur sirkus kemur til landsins í júlí og er kenndur við Jim nokkurn Rose. Á meðal atriða sem gestir sjá er andlit lagt í glerbrot meðan annar stendur á höfðinu, sporðdrekar ganga á andliti og í munni, maður er settur í plastpoka og loftið sogað út með ryksugu, plata brotin í klofi með sleggju sem er föst við eyru og þar frameftir götunum.

Morgunblaðið ræddi við Rose í síma en hann var staddur á heimili sínu í Las Vegas, hvar annars staðar! Á vefsíðu hans stendur "Welcome to the Freakshow" eða "Velkomin á sýningu viðundranna" en þrátt fyrir það neitar hann því aðspurður að vera viðundur. Hann segist sjá sjálfan sig sem listamann og segir sýningu sína vera mikla skemmtun.

Rose er óneitanlega sérstakur maður og er nokkuð stuttorður til að byrja með. Hann segist hafa alist upp nærri sirkus og kynnst sirkuslífi þar en hann seldi kók og annað baksviðs.

Tvöhundruð kílóa teygja

Sú hugsun kviknar að það sem hann gerir sé ekki svo langt frá því þegar skeggjaðar konur og þrífættir menn voru til sýnis í búrum fyrir hundrað árum eða svo. "Þessi sýning er meiri skrípaleikur og einkennist mikið af ýktum kabarett. Til dæmis verð ég með mjög feitan og liðugan mann með mér í ferðinni til Íslands. Fólk á eftir að missa andlitið þegar það sér þessa tvöhundruð kílóa teygju. Við erum líka með mann sem heitir Undursamlegi lyftarinn (The Amazing Mr. Lifto) sem getur lyft ótrúlegri þyngd með nefinu, tungunni, geirvörtunum og öðrum heilögum líkamshluta," segir hann og er þetta dagsatt þótt það hljómi ótrúlega.

Sirkusdrottningin Bébé (Bébé the Circus Queen) kemur með en hún hefur ýmsa hæfileika. "Horfið þið á Simpsons á Íslandi?" spyr Rose og er svarið tvímælalaust já. "Í einum þættinum fer Hómer að heiman og gengur í Sirkus Jim Rose sem mennsk fallbyssukúla. Hómer kemur að vísu ekki til Íslands en Sirkusdrottningin Bébé kemur. Hún verður í hlutverki mennskrar fallbyssukúlu og gerir margt annað," segir hann en það muna áreiðanlega margir eftir þessum þætti.

"Svo kemur önnur ung kona, Amber Pie. Hún er mjög liðamjúk og notar líka svipu. Við ætlum að kasta hundruðum smokka í áhorfendaskarann. Einn af þeim er blár og sá sem grípur hann fær klukkutíma með Amber eftir sýninguna," segir Rose sallarólegur.

Eftir þessa ótrúlegu fullyrðingu er þögn í símanum þangað til Rose heldur áfram: "Fyrir stelpurnar þá erum við með fullt af strákum líka og Amber er líka hrifin af stelpum. Það er eitthvað fyrir alla," segir hann og núna er ég hreint og beint orðlaus.

Best að skipta um umræðuefni.

Hefurðu fengið góð viðbrögð við sýningunum? "Já, ég hef verið mjög heppinn. Ég er með vikulegan sjónvarpsþátt hérna í Bandaríkjunum. Hvert sem við förum koma þúsundir á sýninguna okkar svo við erum bæði heppin og hamingjusöm."

Hlutverk í X-files

Rose minnist með ánægju á að auk þessa að hafa verið í Simpsons hafi hann leikið hlutverk í X-files . Hann lék Dr. Blockhead í þættinum "Humbug" sem sýndur var í Bandaríkjunum í mars 1995. Hann er því greinilega skráður skýrum stöfum í poppmenningarsögu Bandaríkjanna.

"Ég var umdeildur en eftir að hafa verið í þessum tveimur þáttum var ég ekki eins umdeildur og gat gert áhættusamari hluti án þess að fólk kippti sér upp við það. Fólk hugsaði - hann getur ekki verið svo slæmur, hann var í teiknimynd!" segir Rose en sjálfum finnst honum það sem hann gerir ekki umdeilanlegt. "Mér hefur alltaf fundist þetta vera góð skemmtun fyrir alla," segir hann en þrátt fyrir þessi orð hans er nauðsynlegt að vekja athygli á því að 18 ára aldurstakmark er á sýningarnar hans.

Það sem Rose og sirkusdýr hans gera minnir óneitanlega á uppátæki Kjánaprikanna ( Jackass ). Rose segir að bjánarnir séu vinir sínir og þeir þakki honum fyrir að hafa veitt sér innblástur.

Hann segir aðspurður að það sé ekkert erfiðara að hneyksla fólk núna eftir tilkomu Jackass og ámóta sjónvarpsefnis. "Það er miklu áhrifameira að sjá sýningu á sviði, allt öðruvísi en að horfa á sjónvarp."

Verður fólk aldrei of hneykslað og gengur út? "Nei, það gengur ekki út en ég hef séð líða yfir nokkra."

Rætur í rokkinu

Sirkus Jim Rose á rætur að rekja til rokkborgar og rokkhátíðar. "Ég kem frá Seattle á sama tíma og Nirvana og Soundgarden. Ég var líka á Lollapalooza-rokkhátíðunum. Ég hjálpaði til að koma þeim af stað með Perry Farrell úr Jane's Addiction. Hann er góður vinur minn. Líka Trent Reznor úr Nine Inch Nails. Ég fór með honum á túr og upphitunaratriðið var Brian sem varð síðar þekktur sem Marilyn Manson. Ég kenndi honum mikið af sirkusatriðum," segir hann. Sirkus Jim Rose á sér fimmtán ára sögu.

"Ég hef farið út um allt í heiminum mörgum sinnum en aldrei til Íslands. Ég sagði umboðsmanninum mínum að mig langaði að koma þangað og það gekk eftir. Ég er mjög spenntur. Við ætlum að koma snemma svo við getum skoðað landið. Þetta verður mjög skemmtilegt," segir Rose sem lofar gestum góðri skemmtun.

"Ég get ábyrgst að fólkið sem kemur á sýninguna á eftir að skemmta sér betur en nokkru sinni fyrr. Þetta verður fallegt, kynæsandi, sjokkerandi og nóg af sprelli. Við tökum okkur sjálf ekki svo alvarlega. Fólk á eftir að skellihlæja."

Sirkus Jim Rose sýnir á Íslandi 28. júlí. Miðasala efst á Event.is í dag kl. 10. Verð 2.500 krónur. Almenn miðasala hefst föstudaginn 3. júní í Skífunni. 18 ára aldurstakmark. www.jimrosecircus.com