Eftir Grétar Júníus Guðmundsson gretar@mbl.is ALMENNT hlutafjárútboð bresku verslanakeðjunnar Mosaic Fashions verður í næstu viku. Það hefst næstkomandi mánudag og lýkur á föstudeginum.
Eftir Grétar Júníus Guðmundsson gretar@mbl.is

ALMENNT hlutafjárútboð bresku verslanakeðjunnar Mosaic Fashions verður í næstu viku. Það hefst næstkomandi mánudag og lýkur á föstudeginum. Fyrirhugað er að félagið verði skráð á Aðallista Kauphallar Íslands síðari hluta þessa mánaðar, og hefur stjórn Kauphallarinnar samþykkt skráninguna að því gefnu að Mosaic Fashions uppfylli skilyrði varðandi fjölda hluthafa og dreifni hluta að útboði loknu.

Almenningi stendur til boða að kaupa liðlega 90,6 milljónir nýrra hluta í Mosaic Fashions á genginu 13,6 krónur fyrir hvern hlut, samtals að andvirði rúmlega 1,2 milljarðar króna. Þetta eru liðlega 3% af heildarhlutafé Mosaic eftir hækkun. Lágmarksáskrift er 100 þúsund krónur og hámarksáskrift 30 milljónir. Tekið er við áskriftum á vef KB banka, www.kbbanki.is, en KB banki sölutryggir útboðið.

Fyrir tæpum tveimur vikum lauk hlutafjárútboði þar sem fagfjárfestum stóð til boða að kaupa 272,5 milljónir nýrra hluta í Mosaic á sama gengi og almenningi stendur nú til boða, þ.e. 13,6. Söluandvirði þessara hluta var því samtals um 3,7 milljarðar króna. Þessir nýju hlutir eru um 10% af heildarhlutafé Mosaic eftir hækkun á hlutafénu.

Greint var frá því þegar útboðinu til fagfjárfestanna var lokið, að þeir hefðu óskað eftir að kaupa rúmlega fjórfalt fleiri hluti í Mosaic en í boði voru í hlutafjárútboðinu til þeirra. Mosaic Fashions er fyrsta erlenda hlutafélagið sem stefnt er að því að verði skráð í Kauphöll Íslands. Félagið er í meirihlutaeigu Baugs Group og KB banka, en fyrir hlutafjáraukninguna átti Baugur um 40% hlut og KB banki um 20%.