Páll Óskar braut blað í sögu Evróvisjón árið 1997 og eru áhrif hans vel merkjanleg í keppninni í dag.
Páll Óskar braut blað í sögu Evróvisjón árið 1997 og eru áhrif hans vel merkjanleg í keppninni í dag. — Morgunblaðið/Ásdís
Í NÝAFSTÖÐNU Evróvisjónfári spruttu hinir og þessi Evróvisjónfræðingar fram á ritvöllinn og krufðu keppnina til mergjar. Eins slík grein birtist í High Life , sem er tímarit British Airways, sambærilegt við Atlantica , blað Icelandair.

Í NÝAFSTÖÐNU Evróvisjónfári spruttu hinir og þessi Evróvisjónfræðingar fram á ritvöllinn og krufðu keppnina til mergjar. Eins slík grein birtist í High Life , sem er tímarit British Airways, sambærilegt við Atlantica , blað Icelandair. Þar skrifar Mark nokkur Cook ítarlega grein um sögu og inntak keppninnar. Cook er leikhúsrýnir fyrir Guardian og Big Issue en starfar fyrir Evening Standard og er mikill Evróvisjóngúru í Bretlandi.

Í greininni, sem kallast "Songs in the Key of la la la", velur Cook m.a. fimm bestu lög keppninnar frá upphafi. Á meðal þeirra er lagið sem Páll Óskar flutti árið 1997, "Minn hinsti dans". Segir í umsögn að Páll Óskar hafi hækkað hitastigið í höllinni með eggjandi fötum og dansi. Önnur lög sem komast á lista eru "Waterloo" með ABBA, "Diva" með Dönu International, "Save Your Kisses For Me" með Brotherhood of Man og "Making Your Mind Up" með Bucks Fizz.

Öll lögin eru sigurlög utan lag Páls sem hafnaði í tuttugusta sæti.

Versta lagið telur Cook hins vegar vera "Guildo Hat Euch Lieb" með Þjóðverjanum Guildo (1998). Segir að í samanburði við Guildo sé Hringjarinn frá Notre Dame aðlaðandi.