Sigrún Sandra Ólafsdóttir
Sigrún Sandra Ólafsdóttir
Sigrún Sandra Ólafsdóttir fjallar um menningarviðburði á Listahátíð: "Mikilvægt er að vita hvar er hægt að afla sér upplýsinga um sýningar og skoða þannig hvað er í boði og velja viðburði eftir því."

UNDANFARNA daga hefur staðið yfir Listahátíð í Reykjavík sem að þessu sinni lagði megináherslu á samtímamyndlist. Hátíðin var vegleg og fjöldi aðila kom að henni, bæði listamenn, gallerí, söfn, fyrirtæki og stofnanir. Hingað til lands hafa komið blaðamenn og áhugamenn um myndlist hvaðanæva úr heiminum til þess að kynna sér íslenska myndlist og halda hátíð með okkur, listahátíð.

En það eru ekki bara sérvaldir listamenn Listahátíðar Reykjavíkur sem geta sýnt okkur þann kraft, hæfileika og ástríðu sem íslensk myndlist býr yfir. Fjöldinn allur af frábærum listamönnum er með sýningar á meðan á Listahátíð stendur. Ýmist standa yfir sýningar í söfnum, kirkjum og galleríum þar sem listamenn og listnemar sýna verk sín, eða listamenn hafa opnað vinnustofur sínar í tilefni hátíðarinnar til þess að leyfa okkur að líta inn og sjá sköpunarferlið í verki og afrakstur þrotlausrar vinnu.

Þó sýningar utan Listahátíðar hafi ekki verið auglýstar sérstaklega hér í Reykjavík, þá er það mjög algengt á sambærilegum hátíðum erlendis að sjálfstæðum atburðum sé gert hátt undir höfði. Sem dæmi má nefna heimsfrægu húsgagnahönnunarsýninguna í Mílanó, Salone di mobili, þar sem atburðir sem eru "Fuori Salone", eða fyrir utan sýningu, eru jafn mikilvægir og aðalsýningin. Mikið kynningarstarf er á bak við þessa atburði og fólk þeysist um alla Mílanó til að missa ekki af nýjustu straumunum. Það sama á við um listamessuna í Basel þar sem mörg virtustu gallerí heims koma saman árlega til þess að kynna sína listamenn. Þar er lögð mikil áhersla á atburði utan hinnar formlegu messu og þeir eru kynntir vandlega fyrir gestum.

Mikilvægt er að vita hvar er hægt að afla sér upplýsinga um sýningar og skoða þannig hvað er í boði og velja viðburði eftir því. Hjá Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar (Center for Icelandic Art) í Hafnarstræti 16 er hægt að nálgast upplýsingar um yfirstandandi viðburði. Á sama stað hefur verið sett upp aðstaða þar sem hægt er að horfa á myndbönd margra íslenskra myndlistarmanna og kynna sér vinnu þeirra. Það er þó aðeins hluti af gögnum og verkum sem Kynningarmiðstöðin safnar, en þar hefur líka verið komið upp litlu bókasafni. Nánari upplýsingar er að finna á vef Kynningarmiðstöðvarinnar, www.cia.is. Í tengslum við þá síðu er önnur athyglisverð vefsíða, www.umm.is sem er nokkurs konar gagnagrunnur með upplýsingum um íslenska listamenn. Einnig má benda á dálk Morgunblaðsins, Staður og stund, en þar eru margir atburðir í listalífinu tíndir til.

Íslensk myndlist er ekki eitthvað sem sprettur fram við hátíðleg tilefni. Mikil og góð vinna fer stöðugt fram og afraksturinn er sýndur í sýningarsölum um land allt. Njótum þess og hrífumst með.

Höfundur er áhugamaður um íslenska myndlist.