Eftir Víði Sigurðsson vs@mbl.is RÉTT eins og þegar Ísland mætti Möltu á útivelli síðasta haust, eru andstæðingarnir að sleikja sárin eftir slæmt tap gegn Svíum. Þegar liðin áttust við á Ta'Qali-leikvanginum á Möltu 9.
Eftir Víði Sigurðsson vs@mbl.is

RÉTT eins og þegar Ísland mætti Möltu á útivelli síðasta haust, eru andstæðingarnir að sleikja sárin eftir slæmt tap gegn Svíum. Þegar liðin áttust við á Ta'Qali-leikvanginum á Möltu 9. október á síðasta ári höfðu Möltubúar nýverið fengið skell á heimavelli, 0:7, gegn Svíum. Þeir gjörbreyttu varnarleik sínum fyrir leikinn gegn Íslandi, með þeim árangri að þeir héldu markalausu jafntefli og voru reyndar nálægt því að hirða öll stigin eftir að hafa fengið tvö dauðafæri eftir snöggar sóknir.Nú eru Möltubúar komnir til Íslands, beint frá Svíþjóð, þar sem þeir steinlágu á laugardaginn, 6:0, og því má búast við því að þeir vinni fyrst og fremst í því að þétta varnarleik sinn fyrir leikinn í kvöld. Stigið sem Möltubúar fengu gegn Íslandi í október er þeirra eina í keppninni til þessa, rétt eins og Íslendinga. Leikurinn í kvöld snýst því fyrst og fremst um heiðurinn hjá báðum liðum. Malta tapaði 0:2 fyrir Ungverjum á heimavelli og útileikjum gegn Búlgaríu, 4:1, og Króatíu, 3:0.

Ein breyting á liði Möltu

Ein breyting hefur verið gerð á liði Möltu frá leiknum í Gautaborg á laugardaginn. Miðjumaðurinn Ivan Woods verður í leikbanni vegna tveggja gulra spjalda en annar miðjumaður, Claude Mattocks, kemur inn í hópinn í staðinn en hann tók út leikbann gegn Svíum.

Horst Heese, hinn þýski landsliðsþjálfari Möltu, breytti liði sínu nokkuð fyrir leikinn í Gautaborg. Hann setti reynda menn út úr hópnum og tefldi fram tveimur nýliðum í byrjunarliði sínu, varnarmanninum Adrian Pulis og sóknarmanninum Jamie Pace.

Mifsud er aðalmaður Möltubúa

Þekktasti leikmaður Möltu er sóknarmaðurinn Michael Mifsud sem leikur með Lilleström í Noregi og var áður á mála hjá Kaiserslautern í Þýskalandi. Hann er eldfljótur og varnarmenn Íslands lentu í miklu basli með hann í fyrri leiknum á Möltu í fyrra. Mifsud hefur skorað 11 mörk í 37 landsleikjum og er þegar orðinn þriðji markahæsti leikmaður maltverska landsliðsins frá upphafi. Þeir tveir sem eru á undan honum á markalistanum léku báðir á annað hundrað landsleiki.

Aðeins einn annar leikmanna liðsins spilar utan Möltu en það er varnarmaðurinn Luke Dimech, sem er í herbúðum enska 3. deildar liðsins Mansfield.

Leikurinn í kvöld er fjórða viðureign Íslands og Möltu á síðustu fjórum árum en alla 11 landsleiki þjóðanna má sjá hér fyrir neðan.