Aðild Deilt er um hvort FÍB og Alþjóðleg miðlun hafi átt að hafa réttarstöðu aðila meðan á rannsókn stóð.
Aðild Deilt er um hvort FÍB og Alþjóðleg miðlun hafi átt að hafa réttarstöðu aðila meðan á rannsókn stóð. — Morgunblað/Árni Sæberg
Eftir Bjarna Ólafsson bjarni@mbl.is MÁLFLUTNINGUR hófst í gær fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í máli þrotabús Alþjóðlegrar miðlunar og Félags íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB) gegn samkeppnisráði.
Eftir Bjarna Ólafsson bjarni@mbl.is

MÁLFLUTNINGUR hófst í gær fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í máli þrotabús Alþjóðlegrar miðlunar og Félags íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB) gegn samkeppnisráði. Krefjast FÍB og Alþjóðleg miðlun þess að ákvarðanir áfrýjunarnefndar samkeppnismála og samkeppnisráðs árið 2004 vegna meints ólögmæts samráðs tryggingafélagana í bifreiðatryggingum verði felldar úr gildi og málið tekið til rannsóknar á ný.

Þá er þess krafist að aðild FÍB og Alþjóðlegrar miðlunar að rannsókninni verði viðurkennd og þeim veittur aðgangur að gögnum málsins.

Í fréttatilkynningu frá FÍB segir að forsaga málsins sé sú að árið 1996 hafi félagið samið við Alþjóðlega miðlun um sölu bílatrygginga til FÍB-félaga undir nafninu FÍB-trygging sem vátryggð var af Ibex hjá Lloyd´s í London. FÍB-trygging hafi komið inn á markaðinn með 30% lægri iðgjöld bílatrygginga en þá hafi staðið til boða.

Þrátt fyrir að hafa áður lýst því yfir að ekki væri svigrúm fyrir lækkun iðgjalda hafi íslensku tryggingafélögin hins vegar lækkað iðgjöld sín í kjölfar þess að FÍB-tryggingar komu á markað. Í tilkynningunni segir að auk þess hafi tryggingafélögin samtímis reynt að torvelda samkeppni Alþjóðlegrar miðlunar með tæknilegum hindrunum og úrtölum í fjölmiðlum.

Skaðleg undirverðlagning

Væntingar varðandi fjölda viðskiptavina gengu ekki eftir og fyrirtækin frá Lloyd´s í London sáu hag sínum betur borgið á öðrum mörkuðum. Við það að þessi fyrirtæki hættu að bjóða vátryggingar á Íslandi dró svo mjög úr starfsemi Alþjóðlegar miðlunar að fyrirtækið komst í þrot.

Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB, segir að þegar það spurðist að samstarfsaðilar FÍB hjá Lloyd´s væru ekki tilbúnir að endurnýja samninga hafi neytendur fengið að kynnast afleiðingunum í formi stórhækkaðra tryggingaiðgjalda. Fyrst hafi þau verið samtaka um hækkun sumarið 1999 og svo aftur ári seinna. "Það, auk yfirlýsinga forvígismanna tryggingafélagana í fjölmiðlum á þeim tíma, var sterk vísbending um að verðlækkun VÍS, Sjóvár og TM árið 1996 hafi fallið undir ákvæði samkeppnislaga um skaðlega undirverðlagningu af hálfu markaðsráðandi aðila, sem hafi haft það að markmiði að ryðja út samkeppnisaðila, sem var að hefja starfsemi á markaði," segir Runólfur.

Árið 1997 hóf Samkeppnisstofnun rannsókn á meintu samráði tryggingafélaganna, og gerði m.a. húsleit hjá Sambandi íslenskra tryggingafélaga og Íslenskri endurtryggingu.

FÍB lagði fram formlega kæru til Samkeppnisstofnunar 3. júní 1999 um skaðlega undirverðlagningu. Runólfur segir að seinna hafi fulltrúa félagsins verið greint frá því að til stæði að sameina kæru FÍB viðameiri rannsókn á hugsanlegum samkeppnisbrotum tryggingafélaganna.

Árið 2004 kynnti samkeppnisráð ákvörðun sína þar sem sagði að tryggingafélögin hefðu að mestu hætt ólögmætu samráði og því væri ekki ástæða til frekari aðgerða. Tryggingafélögin voru ekki beitt neinum viðurlögum.

Grein Morgunblaðsins

Í stefnu FÍB og þrotabús Alþjóðlegrar miðlunar segir að samkeppnisráð og Samkeppnisstofnun hafi við meðferð rannsóknarinnar brotið gegn þeim þegar félögin fengu ekki stöðu sem aðilar að málinu og fengu ekki að kynna sér frumathugun Samkeppnisstofnunar.

"Þótt aðgerðir tryggingafélaganna bitnuðu á FÍB og leiddu til rekstrarstöðvunar Alþjóðlegrar miðlunar, þá var hvorugt félagið viðurkennt sem málsaðili að rannsókn samkeppnisyfirvalda," segir Runólfur. "Við höfðum allt frá árinu 1999 staðið í þeirri trú að við værum aðilar að málinu, og fengum aldrei neinar vísbendingar frá samkeppnisyfirvöldum um að þeirra skilningur væri annar."

Í ágúst 2003 birtist ítarleg úttekt í Morgunblaðinu sem m.a. var byggð á frumskýrslu Samkeppnisstofnunar, sem fulltrúar FÍB og Alþjóðlegrar miðlunar höfðu ekki fengið í hendur. "Efni greinarinnar gaf lesendum tilefni til að ætla að niðurstaða samkeppnisyfirvalda væri sú að tryggingafélögin hefðu brotið alvarlega gegn samkeppnislögum með háttsemi sinni. Á aðalfundi tryggingafélags undir vor 2004 sagði stjórnarformaður þess félags m.a.: "Viðræður forstjóra tryggingafélaganna með fulltrúum Samkeppnisstofnunar benda til ásættanlegra niðurstaðna". Okkur þótti óeðlilegt að aðeins annar aðili málsins kæmi að slíkum viðræðum og komum athugasemdum við þessa málsmeðferð á framfæri við samkeppnisyfirvöld. Svör Samkeppnisstofnunar voru á þann veg að telja varð yfirlýsingar stjórnarformannsins byggðar á sandi. Það var síðan um 2 mánuðum seinna þegar 15 síðna úrskurður, afrakstur 7 ára rannsóknar Samkeppnisstofnunar um meinta ólögmæta viðskiptahætti á vátryggingamarkaði lá fyrir að við urðum þess áskynja að stjórnarformaðurinn hafði haft rétt fyrir sér. Það var fyrst þá að FÍB heyrði þá skoðun samkeppnisyfirvalda að hvorki félagið né þrotabú Alþjóðlegrar miðlunar væru aðilar að málinu," segir Runólfur.

"Þegar við vildum fá aðgang að frumskýrslunni til að ganga úr skugga um efni hennar var þeirri beiðni okkar hafnað með vísan til þess að við ættum ekki aðild að málinu."

Bjartsýnn

Runólfur segir það vekja furðu að samkeppnisyfirvöld, sem hafa væntanlega sama markmið og FÍB að stuðla að heilbrigðu samkeppnisumhverfi neytendum til heilla, standi gegn því að veita málsaðilum FÍB og Alþjóðlegri miðlun aðgang að gögnum málsins. "Rannsóknartíminn var Samkeppnisstofnun til vansa en það hlýtur að vera öllum málsaðilum í hag að FÍB og aðrir geti sannreynt ákvörðun samkeppnisráðs. Ef aðilar eru ekki tilbúnir að sýna gögn gefur það hugmynd um óeðlilega málsmeðferð byr undir báða vængi."

Aðspurður segist Runólfur bjartsýnn á að dómstólar líti málið sömu augum og stefnendur í málinu og að staða þeirra sem aðilar að máli samkeppnisyfirvalda verði staðfest og þeim veittur aðgangur að viðkomandi skjölum.