Antonía Hevesi og Samúel Samúelsson leika í Hafnarfjarðarkirkju í kvöld.
Antonía Hevesi og Samúel Samúelsson leika í Hafnarfjarðarkirkju í kvöld. — Morgunblaðið/Sverrir
ÞAÐ STENDUR til að leiða saman fagra tóna básúnu og orgels í Hafnarfjarðarkirkju í kvöld en tónleikarnir eru hluti af dagskrá Bjartra daga í Hafnarfirði sem nú standa yfir.

ÞAÐ STENDUR til að leiða saman fagra tóna básúnu og orgels í Hafnarfjarðarkirkju í kvöld en tónleikarnir eru hluti af dagskrá Bjartra daga í Hafnarfirði sem nú standa yfir.

Það eru þau Samúel Samúelsson, básúnuleikari og Jagúar-meðlimur, og Antonía Hevesi orgelleikari sem munu leiða saman hesta sína og hljóðfæri.

"Antonía hafði samband við mig og bað mig um að spila með sér," segir Samúel spurður um tilurð samvinnunnar. "Mér fannst það mjög spennandi tilboð. Þetta er að vissu leyti nýtt fyrir mér, ég er ekki vanur að vera svona einn með hljóðfærið mitt."

Þau Samúel og Antonía ætla að spila barnalög sem þau völdu í sameiningu.

"Við fórum í gegnum söngvabækur og völdum lög sem eru í uppáhaldi hjá okkur," segir Samúel. "Þetta verður létt og skemmtilegt og við komum til með að leika lög sem allir ættu að kannast við."

Samúel segir tónleikana vera einsdæmi allavega til að byrja með og að ekkert hafi verið rætt um mögulega útgáfu á afrakstrinum.

Tónleikarnir fara fram í Hafnarfjarðarkirkju eins og áður sagði og hefjast þeir klukkan 20. Aðgangur er ókeypis og mun séra Þórhallur Heimisson halda stutta bænastund fyrir tónleikana.