Grétar Þorsteinsson
Grétar Þorsteinsson
Grétar Þorsteinsson fjallar um mannréttindi og kínverskt vinnuafl: "Það er full ástæða til að hugsa sig um tvisvar áður en við tökum þátt í að viðhalda því ófremdarástandi sem ríkir í Kína..."

UNDANFARIÐ hefur mikið verið fjallað um heimsókn forseta Íslands til Kína. Jafnframt hafa frásagnir af margs konar sigrum íslenskra fyrirtækja verið umfangsmiklar. Vissulega er það gott að það sé eftirspurn eftir okkur úti í hinum stóra heimi, en höfum við skoðað málið til enda? Höfum við skoðað heildarmyndina?

Þegar ég heyrði af væntanlegri ferð forseta Íslands til Kína, sendi ég honum lítið bréfkorn, þar sem ég hvatti hann til að vekja athygli ráðamanna í Kína á ítrekuðum mannréttindabrotum og þeim skorðum sem réttindum verkafólks og verkalýðsfélaga eru settar. Það ber að fagna því, að forsetinn gerði mannréttindi að umtalsefni í ferð sinni, bæði við ráðamenn og á fundum með kínverskum stúdentum. Vonandi skilar það einhverjum árangri.

Tækifærin

Ég hef þó ekki síður áhyggjur af því sem fram hefur komið um ýmis viðhorf íslenskra ráðamanna um "tækifærin" í kínversku viðskiptalífi. Í hverju skyldu þau vera fólgin? Af viðtölum við þessa nýju stétt útvarða íslensks atvinnulífs að ráða eru tækifærin fólgin í því að ráða til sín "ódýrt" kínverskt vinnuafl og framleiða "samkeppnishæfar" vörur fyrir alþjóðamarkað. Ef við gerum það ekki, munu aðrir gera það - um að gera að nýta tækifærið meðan það gefst. Hvar annars staðar er hægt að fá fólk til að vinna fyrir 7-8.000 kr. á mánuði fyrir 11 tíma vinnu á dag sex daga vikunnar? Helsti vandi þessara útvarða er, að endingartími þessara verkamanna er ekki nema 2-4 ár, á meðan vélarnar endast í allt að 14 ár! Nú er það staðreynd að meginástæða þess að kjör verkafólks eru svo bágborin er að það býr hvorki við almenn mannréttindi, né réttinn til að semja um kaup og kjör. Er ekki rétt að við Íslendingar stöldrum aðeins við og hugsum um "tækifæri" fleiri en okkar sjálfra - einnar af ríkustu þjóðum heims?

En hvað erum við að kalla yfir okkur? Hvað er hinn vestræni heimur að kalla yfir okkur? Dettur nokkrum í hug að við getum keppt við fyrirtæki í Kína sem fá með lögum að þverbrjóta ekki bara þau lágmarksskilyrði sem við höfum sett okkur um aðbúnað á vinnustað, ýmis félagsleg réttindi og launakjör, heldur einnig grundvallarmannréttindi. Kína hefur til að mynda ekki enn staðfest þær samþykktir Alþjóðavinnumálastofnunarinnar sem lúta að grundvallarréttindum launafólks og samtaka þeirra.

Hversu mörg störf munu flytjast úr landi vegna þessara undirboða Kína á mannréttindum? Hvaðan ætli sá fiskur sé sem á að fylla íslensku frystigeymslurnar í Kína? Er e.t.v. búið að finna skjólið fyrir íslenska sjávarútveginn í hágengisstefnunni hér á landi?

Þegar Kína fékk aðild að Alþjóðaviðskiptastofnuninni, WTO, var það skilyrði sett að aðildarríki WTO hefðu áfram heimild til að beita Kína verndartollum til að draga úr áhrifum félagslegra undirboða á því sem við köllum grundvallarmannréttindi. Þannig vildi til að sömu vikuna og forseti Íslands sótti Kínverja heim undirritaði utanríkisráðherra samkomulag við kollega sinn frá Kína um að hefja viðræður um fríverslunarsamning við Kína. Vafalaust er þetta gert til þess að auðvelda nýjum útvörðum atvinnulífsins að koma aftur "heim" með "íslensku" vörurnar, sem framleiddar hafa verið undir merkjum nýrra "tækifæra" í Kína, án allra hafta. Til þess að auðvelda þessar viðræður hafa íslensk stjórnvöld afsalað sér réttinum til þess að beita Kínverja refsi- eða verndaraðgerðum þangað til nýr fríverslunarsamningur tekur gildi.

Rétt er að hafa það hugfast, að kjara- og mannréttindabaráttan í Kína hefur kostað menn frelsið og jafnvel lífið. Á það höfum við í verkalýðshreyfingunni margítrekað bent, meðal annars í áðurnefndu bréfi til forseta Íslands og í bréfi forseta ASÍ til dómsmálaráðherra Kína sl. haust.

Sýnum metnað og samstöðu

Við ætlumst til þess að íslensk stjórnvöld skeri sig ekki úr hópi vestrænna lýðræðisþjóða - með því að taka þátt í viðhaldi mannréttindabrota í nafni viðskiptafrelsis. Við hljótum að gera þá kröfu að íslenskir atvinnurekendur sem hyggja á landvinninga á þessum slóðum sýni metnað sinn í að tryggja launafólki sómasamleg kjör og aðbúnað og taka með því þátt í að brjóta á bak aftur þá kúgun sem kínverskur almenningur býr við. Íslensk fyrirtæki eiga að sýna samfélagslega ábyrgð, hver svo sem vettvangurinn er.

Það er full ástæða til að hugsa sig um tvisvar áður en við tökum þátt í að viðhalda því ófremdarástandi sem ríkir í Kína, í mannréttindamálum og réttindamálum launafólks? Er ekki rétt að skoða hvaða afleiðingar þetta mun hafa fyrir atvinnuuppbyggingu og þróun hér á landi? Er ekki rétt að hugsa um hvaða afleiðingar þessi tegund samkeppni mun hafa fyrir uppbyggingu og viðgang velferðarkerfisins? Er ekki rétt að staldra við?

Höfundur er forseti ASÍ.

Höf.: Grétar Þorsteinsson fjallar um mannréttindi, kínverskt vinnuafl