Eftir Steinunni Ásmundsdóttur steinunn@mbl.is ÁKÆRUR vegna banaslyss við Kárahnjúkavirkjun í mars 2004 voru þingfestar í Héraðsdómi Austurlands í gær.
Eftir Steinunni Ásmundsdóttur steinunn@mbl.is

ÁKÆRUR vegna banaslyss við Kárahnjúkavirkjun í mars 2004 voru þingfestar í Héraðsdómi Austurlands í gær. Það var starfsmaður verktakafyrirtækisins Arnarfells, undirverktaka Impregilo, sem lést af áverkum vegna grjóthruns í stíflustæðinu. Ákærðu neita allir sök en þeir eru forstjóri verktakafyrirtækisins Arnarfells, þáverandi verkefnisstjóri Impregilo við Kárahnjúkavirkjun, yfirmaður öryggis- og heilbrigðismála Impregilo og tveir verkefnisstjórar Visen-Ingar Joint Venture (HIJV) framkvæmdaeftirlits við Kárahnjúkavirkjun.

Ákærðu sem viðstaddir voru neituðu sök en vildu ekki að öðru leyti tjá sig um ákærur. Forstjóri verktakafyrirtækisins sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að hann hefði ekki mætt fyrir réttinn að ráði lögmanns síns og segist neita sakargiftum. Honum er gefið að sök að hafa vanrækt skyldu til að bregðast við bráðri hættu á heilsutjóni eða vinnuslysum, aðfaranótt mánudagsins 15. mars 2004, með því að senda starfsmennina til vinnu við borun í austari hluta táveggsstæðis á stíflusvæði Kárahnjúkavirkjunar í Hafrahvammagljúfri, þótt honum væri kunnugt um að bráð hætta hefði skapast á grjóthruni á svæðinu vegna hækkandi hitastigs næstu daga á undan og að viðeigandi öryggisráðstafanir hefðu ekki verið gerðar.

Fjórum er gefið að sök að hafa vanrækt að vinna áætlun um öryggi og heilbrigði eða sérstakt áhættumat vegna vinnu við virkjunarsvæðið, þrátt fyrir ítrekuð fyrirmæli Vinnueftirlits ríkisins á tímabilinu 6. maí 2003 til 24. febrúar 2004.

Einnig að hafa vanrækt að bregðast við bráðri hættu á heilsutjóni eða vinnuslysum með því að gera ekki viðeigandi ráðstafanir til að tryggja öryggi starfsmanna vegna bráðrar hættu á grjóthruni í gljúfrinu undir austari hluta táveggsstæðis Kárahnjúkastíflu vegna hækkandi hitastigs á svæðinu fyrri hluta marsmánaðar 2004, sem leiddi til þess að steinn losnaði úr hlíðinni aðfaranótt mánudagsins 15. mars og lenti á starfsmanninum með þeim afleiðingum að hann lést.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar.