Jónína Benediktsdóttir fæddist í Reykjavík 5. október 1943. Hún lést á líknardeild Landspítalans við Kópavog 29. maí síðastliðinn og var útför hennar gerð frá Dómkirkjunni 7. júní.

Fyrir rúmum fjörutíu árum hitti ég Nínu fyrst. Þá var ég smástelpa rétt orðin tveggja ára og Nína ung kona, bara 19 ára. Þetta var heima vestur á Grund þegar hún kom með Svavari á Trabantinum í heimsókn til tengdafólksins. Foreldra minna og okkar systkinanna sem vorum þá sex talsins. Man satt að segja ekki eftir þessum fyrstu kynnum því þau voru fyrir mitt minni en Nína rifjaði þessa heimsókn oft upp. Hún tók eftir okkur öllum. Hvernig við vorum, hvernig við gerðum, töluðum og hegðuðum okkur. Ein nýfædd, ein rétt orðin tveggja ára altalandi og skýrmælt. Einn vildi ólmur sýna nýju mágkonunni kettlingana sem voru úti í fjósi. Helga systir bara 13 ára, ótrúlega dugleg og röggsöm þrátt fyrir ungan aldur. Mamma og pabbi þurftu að bregða sér af bæ og eldri systkini mín sáu um heimilið. Svenni átti að mjólka. Helga átti að passa okkur krakkana og elda matinn. Hún sagði mér að hún hefði haft kjöt og með sósu. Enginn sósulitur var til þannig að sósan var hvít á litinn. Svenni sem þá var 14 ára vildi ekki láta slíkan óþverra inn fyrir sínar varir. Hvíta sósu! Helga sagði mér að þá hefði Nína komið með ýmis góð ráð varðandi matseldina. Nína og Svavar höfðu verið í Menntaskólanum í Reykjavík og höfðu ráð undir rifi hverju. Nína kenndi t.d. systrum mínum hvernig maður átti að vera í sólbaði. Held hún hafi reyndar ekki lært það í MR. Sólböð voru ekki mikið stunduð á Fellsströndinni í þá daga. Engum datt slíkt í hug í miðjum heyskapnum. Helga systir hafði aldrei heyrt á slíkt minnst. Hélt að best væri að gretta sig á móti sólinni. Nína sagði að hún ætti alls ekki að gretta sig heldur að reyna að vera alveg kyrr og leggja áherslu á að vera algjörlega ógrett og slétt í framan.

Nína og Svavar stofnuðu heimili í Reykjavík og eignuðust Svandísi, Benna og Gest sem hafa stutt móður sína eins og klettar til hinstu stundar. Þau eru á svipuðum aldri og við yngstu systur Svavars. Það var alltaf gaman og gott að heimsækja Svavar og Nínu og heimili þeirra var alltaf opið öllum.

Nína kunni að njóta augnabliksins og var mjög lagin við að tala við fólk og gera gott úr hlutum. Hún náði strax til okkar systkinanna og við litum alltaf upp til hennar. Það var svo gott að tala við Nínu og hún kunni vel að hlusta. Fannst hún alltaf svo flink í mörgu sem við kunnum ekki. Spilaði á píanó, gítar og raddaði eftir eyranu. Fór með ljóð og kunni sögur. Var meira að segja hagmælt sjálf þó hún hafi aldrei gert mikið úr því. Líklega leynist eitthvað í skúffum hér og þar. Þegar pabbi dó í desember 1980 setti Nína saman ljóð sem birtist í Þjóðviljanum ásamt fleiri minningargreinum. Af hógværð merkti hún ljóðið með upphafsstöfunum sínum J.B.

Þrátt fyrir erfið veikindi sýndi Nína ótrúlegan baráttuvilja og kraft. Á margan hátt var sá tími mikil lífsreynsla fyrir þá sem næst henni stóðu. Krakkana hennar sem náðu að upplifa ógleymanlegar stundir. Brúðkaup Gests og Dóru var þannig stund. Ógleymanleg. Þegar Nína gekk inn kirkjugólfið í Fríkirkjunni í Hafnarfirði klædd í íslenska búninginn var útgeislunin ótrúleg. Þá mjög veik. Það lýsti af henni krafti og vilja til þess að njóta stundarinnar til hins ýtrasta. Taka þátt í því að búa til minningar og gera daginn ógleymanlegan fyrir alla nærstadda og ekki síst brúðhjónin á þeirra degi. Veislan var stórskemmtileg. Sungið, dansað og glaðst. Allt eins og það á að vera. Nína naut eins og hún gat. Snillingarnir Svandís, Benni og Gestur voru búin að skipuleggja allt í þaula þannig að mamma þeirra gæti verið sem mest með og notið þessa kvölds. Það var ekki hægt annað en hrífast með og njóta lífsins og syngja mikið og líka "Núna ertu hjá mér Nína" eins og svo oft áður.

Vildi með þessum orðum kveðja Nínu með þakklæti í huga. Þakklæti fyrir að fá að kynnast henni og njóta stunda sem geymdar verða í sarpi minninganna.

Minningin um góða, skemmtilega, hæfileikaríka konu lifir í börnum og barnabörnum. Blessuð sé minning Nínu.

En minningin lifir.

Margt er að þakka:

Horfinna daga

dýrmætar perlur.

(J.B.)

Guðný.

Heyr morgunljóð úr brekku

ég er lítil lind, sem tindrar

í ljósi hvítra daga

og það er öll mín saga.

(Tómas Guðm.)

Morgunljóð brekkunnar á bökkum Ölfusár voru tregafull, þegar fregnin um lát minnar góðu vinkonu Nínu spurðist. Minningabrotin seytla fram eins og lindin litla, sem segir frá í þessu fallega ljóði sem Nína hafði miklar mætur á.

Ég halla mér aftur á grasbala, lindin hjalar og hvíslar .. manstu.

Já, ég man ... Náttúrubarnið og fagurkerinn Nína, teygandi ilm vorsins í morgundögginni, faðmandi fjöllin, krjúpandi í grasinu, skoðandi blómin, tínandi jurtir, hún þekkti lækningamátt jurtanna, og miðlaði þekkingu til okkar hinna. Listakokkurinn Nína, töfrandi fram dýrindis máltíðir af smekkvísi og næmi ... Það verður að hugsa fallega þegar maður er að matbúa, sagði hún ... Listaunnandinn Nína með næmt tóneyra og fágaðan tónlistarsmekk, hún spilaði á píanó, kunni allar raddir, var ljóðelsk, las okkur vinkonum oft falleg ljóð ... hún var vel lesin ... vitnaði oft í fagurbókmenntir ...

Vinkonan Nína, einstök, orðheldin í "leyndó" ... með opinn faðm og hlýjan ... tilbúin að hlusta ... gefa góð ráð ... hvetja til dáða ... fyndin og sposk á svipinn þegar sumt var rætt ... tilbúin að hugga ... og umfram allt hlæja, já, hlæja bara að þessari vitleysu var oft sagt eftir andvörpin öll ... Nína í Flatey ... ég sé hana fyrir mér í eldhúsinu í Ásgarði, með rauðu svuntuna ... dampinn leggur upp af gömlu eldavélinni ... hún að skipuleggja matargerð ... hún að raða í svefnpláss ... dekrandi við allt og alla ... kvöld í Ásgarði ... Nína spilar á píanó, allir syngja ... þegar litla fólkið hefur lagst til svefns, þá er skrafað, spáð í spil ... púað, drukkið "prestakaffi" og sólarlagið fangað úr fjöruborðinu ... Dóttirin, systirin, mamman, tengdamamman og amman Nína ... gæfa og auður Nínu var fólginn í stórfjölskyldunni sem að henni stóð ... umhyggjusöm og natin við foreldra sína og systkin, sem verða enn og aftur að standa frammi fyrir ótímabærum dauða ... börn sín, barnabörn og tengdabörn ... einlæg, traust og heilsteypt. Hún virti og elskaði góðan samfylgdarmann og ástvin sinn hann Braga sem bar hana á höndum sér ... Allt þetta góða fólk hefur misst mikið, en minningin er björt og fögur ...

Og þung og köld er röddin,

sem þaggar silfurljóðið,

en það er alveg sama,

ég verð að renna á hljóðið.

(Tómas Guðm.)

Lindin er runnin til hafs, ég sé Nínu fyrir mér, teinrétta og tígulega.

Hún veifar frá bryggjunni í Flatey. Farðu sæl inn í fegurð himins, kæra vinkona.

Þóra Grétarsdóttir.

Vinkona okkar og vinnufélagi Jónína Benediktsdóttir er látin. Jónína hóf störf hjá Lífeyrissjóði Dagsbrúnar og Framsóknar á árinu 1986 en sá sjóður var síðar einn af þeim sjóðum sem stóð að stofnun Lífeyrissjóðsins Framsýnar á árinu 1996. Jónína átti því nærri 20 ára starfsferil hjá lífeyrissjóðunum. Aðalstarfssvið hennar þessi ár var að hafa umsjón með lánum til sjóðfélaga. Þægilegri og betri starfsmann til að sinna slíkum málum er vandfundinn því þjónustulipurð Jónínu var einstök.

Til að skrifa eftirmæli um Jónínu hefði þurft að hafa hana við hlið sér, því við vinnufélagarnir leituðum alltaf til hennar varðandi íslenskt mál.

Jónína var tíguleg, skarpgreind kona sem hafði frábært hugmyndaflug og góða kímnigáfu. Hún gerði óspart grín að sjálfri sér eins og t.d. þegar hún kom til vinnu á morgnana hálfslöpp, þá bað hún gjarnan einhvern að leggja hönd á enni sér til að kanna hvort hún væri ekki með 40 stiga hita.

Jónína var mjög tilfinningarík og hafði sterka samkennd. Hún var eins og ungamamma í hópnum og hélt vel utan um okkur og smitaði frá sér gleði og jákvæðni. Umhyggja Jónínu kom fram í öllu sem hún gerði, eins og þegar hún eldaði handa okkur súpur í hádeginu, þá kryddaði hún þær með kærleika og ást.

Á gleðistundum var hún hrókur alls fagnaðar og þá var nú gjarnan sungið og dansaður tangó og oft var gripið í "Gullabókina" og spáð fyrir mannskapinn. Við skemmtum okkur alltaf konunglega.

Hennar er sárt saknað. Vandfundinn er eins frábær samstarfsmaður og góður vinur og Jónína var.

Við sendum Braga, börnum hennar og fjölskyldum þeirra, foreldrum hennar og öðrum aðstandendum okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Samstarfsfélagar.

Kær vinkona er fallin frá langt fyrir aldur fram. Það var haustið 1959 sem Oddný hitti Nínu fyrst við upphaf menntaskólaáranna. Sigga Ragna, sameiginleg vinkona frá Selfossi, segir tvær nýjar stelpur úr hennar heimabyggð komnar í bæinn, og að við Reykjavíkurdömur verðum að lofa þeim að vera samferða til að vera við skólasetningu MR. Nína sagði nú ekki mikið þennan dag, en seinna um haustið fórum við í Selið og þá var hún hrókur alls fagnaðar og hló og söng, og kunni alla texta, bæði rétta og skrumskælda. Við vorum svo saman í 4., 5. og 6. Z, "í setuliðinu" eins og við kölluðum okkur og þá bættist Hrefna í hópinn. Við gerðum saman eðlis- og efnafræðitilraunir hjá Guðmundi Arnlaugssyni, Nína, Beta, Hrefna, Oddný og Sigga Hjartar. Keyptum þá í sjoppunni fimm Camel-sígarettur í brúnum bréfpoka, ásamt kóki og lakkrísrörum, til að hafa með skýrslugerðinni. Til upplyftingar var svo kíkt í dönsku blöðin inni á milli lærdómsins. Við reiknuðum fullt að dæmum hjá Birni Bjarnasyni og skrifuðum endalausa þýska stíla. Svo kíktum við í stjörnukíki með Sigurkarli á stjörnubjörtum vetrarmorgnum og sungum franskar vísur með Siggu frönsku. Oft var kíkt á Hressó og Mokka og stundum voru klúbbfundir í "ekki saumaklúbbnum" þar sem stundum var keypt ein púrtvín, sem dugði til að gera sex meðlimi hans verulega káta.

Við fórum svo hver í sína áttina, en héldum oftast sambandi og fórum svo að hittast meira aftur, þegar börnin okkar voru orðin stór og fórum þá stundum saman í leikhús og út að borða og upp í sumarbústað, Nína, Beta, Hrefna og Oddný og stundum Gústa. Berjamór í sólinni í Húsafelli er minnisstæður og langar legur í heitum potti með heimspekilegum samræðum og fljótandi koníaksglösum eins og Nína kenndi okkur. Ekki eru Hrefnu síður minnisstæðar ánægjustundirnar í Flatey, þar sem Regína og Benni dekruðu við okkur "hattadömurnar" og endalaust var sungið, spilað, hlegið og fíflast. Þegar við tókum eftir því að bekkjarráðsformaðurinn okkar, Sigga Hjartar, var búin að bjóða bekknum nokkuð oft heim til sín á stúdentsafmælum tókum við okkur til og bjuggum saman til kræsingar og buðum öllum heim til Hrefnu á Látraströndinni. Þá var oft fjör við matargerðina. Fimmtugsafmælin okkar kostuðu líka mörg undirbúningsboð til að smakka mögulega rétti og ræða málin. Hrefna minnist líka skemmtilegrar sambúðar á Látraströndinni í nokkrar vikur meðan Nína beið eftir að fá Klapparstíginn afhentan. Lengi var hist reglulega til að njóta góðs af hæfileikum Nínu til að mála hár og augu. Í síðasta skiptið sem Hrefna hitti Nínu á Landspítalanum fyrir tveimur vikum hafði hún einmitt orð á að liturinn væri hárréttur þótt hún hefði ekki séð um hann í þetta sinn!

Við minnumst þess ekki að Nína talaði illa um nokkurn mann. Hún var alltaf ljúf og góð og yndisleg með glettnisbros á vör og hafði svo hlýja nærveru. Það var gott að ræða við hana um alla hluti. Við munum sárt sakna þín, elsku vinkona. Svandísi, Benna og Gesti og barnabörnunum, sem við þekkjum svo vel af afspurn sendum við innilegar samúðarkveðjur.

Jafnframt vottum við Braga, foreldrum Nínu og öðrum ættingjum samúð okkar.

Þínar menntaskólavinkonur,

Hrefna Kristmannsdóttir og Oddný Björgólfsdóttir.

Það er undarlegt að hugsa til þess að hún Nína eigi aldrei aftur eftir að kíkja inn óvænt og kalla frá útidyrum: "Sonja mín, er ég að trufla, elska?"

Núna um páskana þegar hún var lögð inn á Landspítalann varð brátt ljóst að kallið var komið.

Hún var að deyja.

Með sorg í hjarta fylgdumst við með hvernig hún af æðruleysi og reisn nálgaðist dauðann.

Hún, sterkust allra.

Kynslóðabil þekkti Nína mín ekki. Hún gat rætt við unga sem gamla og hún kunni að hlusta.

Hún var guðmóðir sonar míns, góð vinkona dætra minna. Þegar hún og mamma hittust settust þær jafnan afsíðis nöfnurnar, með kaffibollana sína og skröfuðu margt.

Hann pabbi lýsti því einu sinni yfir í veislu að hún Jónína vinkona dóttur hans væri glæsilegasta og gáfaðasta kona sem hann hefði hitt. Svo væri hún líka bráðskemmtileg.

Hann hitti naglann á höfuðið.

Nína var hávaxin og glæsileg, hafði hlýtt viðmót og töfrandi framkomu sem vakti athygli hvar sem hún fór.

Við hjónin og fjölskylda okkar munum alltaf minnast Nínu með gleði og þakklæti fyrir trausta vináttu í rúm þrjátíu ár.

Öllum ástvinum hennar sendum við hjartanlegar samúðarkveðjur.

Nína mín, Guð blessi þig.

Sonja.