Ríkið og borgin munu selja húsnæði Heilsuverndarstöðvarinnar við Barónsstíg á almennum markaði og verður andvirðinu skipt á milli eigenda í samræmi við eignarhlutföll.
Ríkið og borgin munu selja húsnæði Heilsuverndarstöðvarinnar við Barónsstíg á almennum markaði og verður andvirðinu skipt á milli eigenda í samræmi við eignarhlutföll. — Morgunblaðið/Golli
SAMKOMULAG sem fulltrúar ríkis og borgar undirrituðu fyrir skömmu felur m.a. í sér að Heilsuverndarstöðin í Reykjavík verður seld á almennum markaði og borgin eignast Vörðuskóla.

SAMKOMULAG sem fulltrúar ríkis og borgar undirrituðu fyrir skömmu felur m.a. í sér að Heilsuverndarstöðin í Reykjavík verður seld á almennum markaði og borgin eignast Vörðuskóla. Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri segist mjög ánægð með að samkomulagið sé nú í höfn eftir 15 ára aðdraganda.

Samkvæmt upplýsingum aðstoðarmanns borgarstjóra felur samkomulagið í sér að borgin yfirtekur eignarhald á Öskjuhlíðarskóla og Safamýrarskóla þar sem rekin er þjónusta við fötluð grunnskólabörn. Borgin tekur yfir minni húseignir við Vesturhlíðarskóla, þar sem einnig er rekin eins þjónusta, og Brúarskóla sem er sérskóli fyrir grunnskólabörn með félagslegar og geðrænar raskanir.

Það húsnæði sérskóla sem ekki er nauðsynlegt að nýta fyrir starfsemi slíkra skóla verður selt og andvirðið nýtt til að borga uppbyggingu á nýrri sérdeildarálmu fyrir fatlaða við Fjölbrautaskólann í Ármúla. Húsnæðið sem hér um ræðir er aðalbygging sem áður hýsti Heyrnleysingjaskólann (Vesturhlíðarskóli) en kennsla og þjónusta við heyrnarlaus og -skert grunnskólabörn hefur verið sameinuð á einum stað í nýrri viðbyggingu við Hlíðaskóla.

Kaupir hlut ríkis í Vörðuskóla

Samkvæmt samkomulaginu kaupir borgin eignarhluta ríkisins í Vörðuskóla sem Iðnskólinn í Reykjavík nýtir nú og verður húsnæðið afhent þegar Iðnskólinn getur flutt í nýtt húsnæði sem borgin greiðir 40% í.

Ríkið og borgin munu selja húsnæði Heilsuverndarstöðvarinnar í Reykjavík á almennum markaði og verður andvirðinu skipt á milli eigenda í samræmi við eignarhlutföll.

"Þetta hefur verið 15 ára stríð milli ríkis og borgar bæði um sérskólamálin og Heilsuverndarstöðina. Það er því mjög ánægjulegt að nú skuli vera búið að höggva á þennan hnút," sagði Steinunn Valdís Óskarsdóttir. "Fyrir borgina merkir samkomulagið að við fáum Vörðuskólann sem við getum nýtt undir Austurbæjarskólann sem leysir mesta vandann á næstunni. Það verður byggt við Iðnskólann sem verður áfram í Reykjavík á Skólavörðuholtinu. Síðan eru það sérskólamálin þar sem ríki og borg skipta á milli sín eignum, þ.e. Öskjuhlíðarskóla, Vesturhlíðarskóla, Safamýrarskóla og fleiri eignum."

Steinunn Valdís segir samkomulagið endurspegla ákveðinn "kapal" sem eigi að ganga upp á þann veg að borgin þurfi ekki að hafa af honum mikil útgjöld. "Það sem menn eru að leggja upp með er að aðilar komi út á sléttu. En auðvitað er alltaf einhver kostnaður sem fylgir þessu, s.s. uppbygging Iðnskólans."

Undir samkomulagið skrifuðu Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra og Geir H. Haarde fjármálaráðherra fyrir hönd ríkisins.