GERT er ráð fyrir að allir umsækjendur sem uppfylla formleg skilyrði um undirbúning og lagt hafa inn umsókn innan tilskilinna tímamarka, fái skólavist í Háskóla Íslands næsta haust. Umsóknarfrestur um nám við skólann rann út á mánudag.

GERT er ráð fyrir að allir umsækjendur sem uppfylla formleg skilyrði um undirbúning og lagt hafa inn umsókn innan tilskilinna tímamarka, fái skólavist í Háskóla Íslands næsta haust. Umsóknarfrestur um nám við skólann rann út á mánudag.

Að sögn Emilíu Dagnýjar Sveinbjörnsdóttur, á stjórnsýsluskrifstofu HÍ, höfðu um 2.500 umsóknir nýnema verið afgreiddar í gær. Er það svipaður fjöldi og í fyrra.

Vinnu við mat á umsóknum ekki lokið

Enn var þó ólokið við að handfæra umsóknir sem ekki bárust rafrænt á síðasta degi skráningar og meta vafaumsóknir, auk þess sem ekki liggur fyrir endanlegur fjöldi erlendra stúdenta við skólann næsta vetur.

Emilía segir afar lítið um að umsækjendum sé vísað frá skólanum. Fjöldatakmarkanir séu hins vegar í ýmsu starfsmenntanámi við félagsvísindadeild og íslensku fyrir erlenda stúdenta. Þá eru sem fyrr samkeppnispróf í hjúkrunarfræði og sjúkraþjálfun og inntökupróf í læknisfræði.

Um þúsund vísað frá KHÍ

Árið 2003 var reglum um undanþágur frá stúdentsprófi vegna inngöngu í skólann breytt og hefur frá áramótum 2003 verið skilyrði að allir hafi lokið stúdentsprófi sem innritast í skólann. Á móti hefur skilgreining á stúdentsprófi verið rýmkuð í núverandi reglugerð um inntökuskilyrði.

Fram kom í kvöldfréttum Sjónvarps í fyrrakvöld að vísa verður frá um 1.000 umsóknum um nám við Kennaraháskóla Íslands næsta haust og 800 umsóknum í Háskólanum í Reykjavík. Þá eru fjöldatakmarkanir við fleiri háskóla hérlendis.

Leiðrétting 9. júní

Rangt farið með nafn

Rangt var farið með nafn Amalíu Skúladóttur á stjórnsýsluskrifstofu Háskóla Íslands í frétt um umsóknir um skólavist í HÍ í gær. Er beðist velvirðingar á þessu. Í sömu frétt segir að samkeppnispróf séu haldin í hjúkrunarfræði og sjúkraþjálfun en skv. upplýsingum sjúkraþjálfunarskorar læknadeildar HÍ er þetta ekki rétt þar sem sjúkraþjálfun er nú kennd í sérstakri skor í læknadeild (sjúkraþjálfunarskor) og þar er sameiginlegt inntökupróf fyrir þá sem ætla í læknisfræðiskor annars vegar og sjúkraþjálfunarskor hins vegar. Hjúkrunarfræði er með sérstaka deild og heldur sig við samkeppnispróf í desember eins og læknadeildin gerði áður. Leiðréttist þetta hér með.